9.12.2007 | 10:14
Morgunblogg
Best að gera tilraun að blogga meðan barnatíminn er. það er greinilegt að jólin eru farin að setja mark sitt á börnin á bænum - það er erfitt að sofna og svo vakna menn fyrir allar aldir. Mér finnst að það ætti að vera ólöglegt að vera komin á fætur fyrir klukkan 7 á sunnudagsmorgni - allavega þegar börnin eru orðin 6 ára! En pakkadagatalið sem hangir á veggnum í eldhúsinu hefur órtúlega mikið aðdráttarafl og sér til þess að heimilisfólkið sofi ekki of lengi - allavega um helgar. !
Sú var nú reyndar tíðin að maður var útsofinn ef maður fékk að sofa til klukkan 7. Þá var maður búin með hin ymsustu morgunverk fyrir klukkan 8 á morgnanna, skipt á og klæða tvo grislinga, gefa þeim morgunmat, taka úr uppþvottavél, setja í eina þvottavél, hengja upp úr henni og setja í aðra.
Nú er maður að nálgast það skref að börnin fái sér morgunmatinn sjálf og maður fái bara að sofa eins lengi og maður vill !
Jólastress eða ekki ? Veit það ekki. Getur maður ekki ráðið því svolítið sjálfur ? Nú eru 15 dagar þar til aðfangadagur rennur upp og ef ég set mér mjöööög mööööö og frekar óraunhæf markmið sem ég ætla að ná á þeim tíma þá get ég verið í stanslausu stresskasti í 15 daga. Sé miðað við að ég fer að heiman klukkan átta á morgnanna og kem heim um klukkan 4 á daginn og að ég vinn líka við bókhald heima við sem getur verið frá 6-12 tímar á viku. Aukavinnan vinnst eingöngu á kvöldin og þá er mjög óraunhæft að ætla sér að :
þrífa húsið hátt og lágt - allir gluggar og skápar innifaldir. Taka til í bílskúrnum og þvottahúsinu - fara í gegn um fataskápana og sjá henda/gefa þann fatnað sem heimilisfólk er hætt að nota. baka lágmark 5 smákökusortir. föndra 50 jólakort. Versla 12-15 jólagjafir og jólaföt á heimilisfólkið. Fara á tónleika og jólahlaðborð og helst að sjá eins og eitt barnaleikrit .Mála allt húsið - að innan ! Hengja upp jólaskrautið
meðfram þessu öllu sinnir maður svo börnum og heimili- sér til þess að börnin læri - skutlar og sækir á æfingar, þvær þvott og eldar mat og helst að gefa sér tíma til að föndra með þeim .
Hvernig ætli jólin yrðu á þessum bæ eftir svona törn ?
Ég ætla mér að fækka þessum möguleikum eitthvað - húsið verður hreint og fínt en ekki sótthreinsað. Bílskúrinn er alveg ágætur og þegar ég verð búin að fara með í endurvinnsluna og skúra í þvottahúsinu þá verður það hreint og fínt. Tiltekt í fataskápunum bíður þar til eftir jól. Smákökurnar fást í Nettó - verð mjög ánægð ef mér tekst að skrifa á jólakort ( gerði það ekki í fyrra ) Ætla að gefa mér betri tíma til að hugsa um og ákveða jólagjafirnar áður en ég fer að troðninginn í verslunum landsins með öllum hinum ofurjólastressuðu húsmæðrum. Fyrst ég er ekki búin að fara á tónleika og leikhús ( fór reyndar í jólahlaðborð með vinnunni um daginn ) þá verður það bara að bíða betri tíma. Það verður líka gaman að fara á tónleika í febrúar. Málarinn er búinn að LOFA því að hann komi á miðvikudag eða fimmtudagskvöld og ég er farin að hallast að því að trúa honum - sérstaklega þar sem hann þarf að notfæra sér þjónustu píparans/eiginmannsins mjög fljótlega.
Það stóð til að láta mála allt en stofan og holið verður látið nægja. Eiginmaðurinn ætlar að mála yfir litaprufurnar á eldhúsveggnum svo hann verði hvítur en ekki köflóttur. Restin af eldhúsinu verður máluð eftir jól. Þegar verður búið að mála - þá fer jólaskrautið upp.
Erfiðast af þessu verður að fara með drengina í verslunarleiðangur til að kaupa skó og skyrtur Annar sonurinn þolir ekki svona leiðangra - vill bara fara heim eftir 5 mínútur meðan hinn virðist fá adrenalínsprautu við það eitt að koma inn í verslunarkjarna eða verslunarmiðstöð. Hann umturnast gjörsamlega og varla möguleiki að fá hann til að líta á flík, hvað þá að máta hana.
Eiginmaðurinn hefur ekki verið mikil hjálp við undirbúning hingað til - hefur verið í bullandi aukavinnu undanfarið og hefur ekki átt frídag síðustu 3 vikur.( lesist = unnið allar helgar ) Mér skilst reyndar að þetta sé síðasti dagurinn í aukavinnu en búin að vera gift iðnaðarmanni í rúm 7 ár þá er alltaf spurning hvort sé hægt að treysta því sem iðnaðarmenn segja ( ég geri skil á milli vinnu og einkalífs )
Morgunbloggi er lokið - best að taka til hendinni og koma einhverju í verk - erum nefnilega að fara í fjölskylduboð á eftir og þar gerir maður ekki mikið annað en að borða!
kv húsmóðirin sem gaf fólkinu sínu eintómt ruslfæði í gær !
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2007 | 00:28
Lúxus vandamál
Ég skammaðist mín dálítið þegar ég las yfir bloggið sem ég skrifaði síðast. Það kom út eins og besti norski bróðir og uppáhalds norska mágkona væru eitthvað sérstakt vandamál hvað varðar jólagjafir. þau eru það ekki. En þar sem þau eru "útlendingar" þá þarf maður að vera tímanlega í þvi að kaupa handa þeim svo þau fái jólagjafirnar sínar FYRIR jól.
Ég áttaði mig hins vegar á þvi að ég og mínir eiga við ákveðið lúxus vandamál að stríða en það er að velja gjafir handa fólki sem á allt. þetta er frekar asnalegt ef maður hugsar aðeins út í það.
Sumir gefa bara börnum jólagjafir - ekki fullorðnum. það verður hver að hafa sína skoðun á því en ég er ekki sammála því. Ég á tvo bræður, og mig langar að gefa þeim og þeirra huggulegu konum jólagjafir. Við gefum hvert öðru annars aldrei neitt. Hins vegar þurfa gjafirnar hvorki að vera stórar né dýrar - það er ekki það sem skiptir máli. Ég hef gefið fullorðnum konum myndaalbúm - látið framkalla myndir og sett í albúm og skrifað texta með. Þetta voru gjafir sem viðkomandi þótti vænt um - kostuðu ekki margar krónur en hins vegar bæði tíma og fyrirhöfn. í þessu stressaða þjóðfélagi okkar sem er alltaf á harðaspani er tíminn oft mun meira virði en peningar.
Vá - það stal einhver hugsununum mínum - var komin á flug í andríki og málæði en allt í einu bara búmm og ég er andlaus. Helgast kannski af því að ég hef unnið frameftir síðustu kvöld og skortir sárlega svefn.
Skelli inn fyrstu drögum að óskalista fyrir jólin
Hnífapör - venjuleg hversdags hnífapör
Desertskálar ( helst 12 stk )
Nýjan heimilissíma - þráðlausan
Töfraútidyramottu sem sér til þess að sandur og möl berist ekki inn í hús.
Mig langar í bækur - t.d nýju bókina hennar Yrsu
nýja skó, húfu og trefil og leðurvettlinga
Bræður langar í allt í öllum dótabæklingum sem koma inn um blaðalúguna. Legó og Playmo er vinsælt - mér finnst reyndar legóið vera vinsælla Svo eru hjólaskór mjög ofarlega á óskalistanum þessa dagana
Þeim langar líka í perlur og mót/form - eru með perlu dellu núna.
Mig langar til að þeir fái bækur. Mig langar líka til að þeir sem gefa DVD myndir gefi þeim eitthvað annað en teiknimyndir - t.d íslensk barnaleikrit ( Dýrin í Hálsaskógi eða Lína Langsokkur ef svoleiðis hefur komíð út á DVD )
Ef einhver vill gefa mjúka pakka þá eru sokkar, nærföt og náttföt alltaf vel þegin.
Núna ætla ég hins vegar að spyrja nokkra nestispakka og fara svo að sofa ! kv húsmóðirin sem er ekki mikil húsmóðir þessa dagana
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2007 | 01:49
Það eru að koma jól
það fer víst ekki fram hjá neinum - ég er farin að standa mig að því að vorkennablaðberum, póstburðar og verslunarfólki í desember:
Auglýsingabæklingarnir svoleiðis streyma inn um bréfalúguna. ( hvar er annars hægt að kaupa tætara á bréfalúgur ?)
Dagblöðin, sérstaklega helgarblöðin verða sífellt þykkri og þykkri , "kaupa kaupa kaupa jólaauglýsingar" út um allt.
Auglýsingar bæði í blöðum, útvarpi og sjónvarpi segja alls staðar frá einhverjum uppákomum þar sem annaðhvort er verið að opna nýja verslun eða stækka verslunina sem var opnuð í fyrra og alls staðar má eiga von á rauðklæddum mönnum og góðgæti fyrir börnin á boðstólum.
Það er ekkert og akkúrat ekkert sem fengi mig til að fara með drengina mína í Vetrargarðinn í smáralindina til þess að sjá jólasveina, einhver tónlistaratriði eða guð má vita hvað markaðssnillingunum dettur í hug til að reyna að lokka fólk þarna inn. Ég sé bara fyrir mér yfirspennt og upptjúnuð börn sem þagna einungis rétt á meða þau eru að gúffa í sig einhverju gúmmulaðinu sem þreyttir og ergilegir foreldrarnir dæla í börnin til að kaupa sér smá frið.
Þetta er engan veginn mín hugmynd um notalega aðventu.
Ég veit ekki hvort ég baka neitt fyrir þessi jól - sé til hvort ég hef tíma til þess. Mig langar hins vegar rosalega til að fá málarann í heimsókn ( það er ekki enn búið að mála, ekki einu sinni byrjað )
Mig langar að skrifa á jólakort í ró og næði, sendi ekki einu sinni jólakort í fyrra. Mig langar að baka laufabrauð með hárgreiðslufrænku og krökkunum. Mig langar að föndra og búa til jólaskraut með strákunum mínum.
Á eftir að kaupa næstum allar jólagjafir - meira að segja þær sem eiga að fara til útlanda. Veit ekki hvað ég að gefa útlendingunum. Þau eiga næstum allt, það sem þau eiga ekki er vegna þess að þeim langar ekki í það. Ætla ekki að gefa þeim konfekt þessi jól - maður fer ekki að eyðileggja allar ferðirnar í ræktina
Hinir og þessir ( aðalega þessir ) hafa verið að rukka um óskalista. Hann kemur inn fljótlega - jafnvel á morgun ef vel vinnst.
Nú er ég hins vegar farin að sofa og þótt fyrr hefði verið.
kv húsmóðirin sem ætlar að hengja upp jólaseríur á morgun !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.11.2007 | 15:02
Mannvonska ?
við kaffiborðið hjá mér sátu þrír 6 ára krakkar, öll með lausar tennur og einhver þeirra með skörð eftir lausar tennur. Eina sem ég bauð þeim upp á var hrökkbrauð og bruður.
Mannvonska eða hugsunarleysi ?
P:s SÁ missti tönn nr 2 í dag - stuttu áður en hrökkbrauðsátið átti sér stað
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2007 | 14:59
Gleði gleði
Það þarf ekki mikið til að gleðja lítið húsmóður hjarta. Mr Muscle - ofnahreinsirinn sá til þess í dag en loksins loksins fann ég ofnhreinsi sem virkar Hamingja og hreinn bakaraofn - gæti lífið verið betra ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2007 | 10:00
Pirringur dagsins
Framundan eru þemadagar í skólanum hjá strákunum mínum = ekki hefðbundið skólastarf. Ég hef ekkert nema gott um það að segja og bæði börn og kennarar hafa bæði gagn og gaman að því.
Enda er hægt að kenna og fræða börn á svo margan hátt.
Það sem ég er að pirra mig á er það að þessa 3 daga sem þemadagar eru þá er skólinn búinn kl 11,30 í staðinn fyrir 13,10. Þau börn sem eru í mataráskrift geta og borðað áður en þau fara heim. Og hvað svo - hvað á að gera þar til skólagæslan opnar ? kannski tekur skólagæslan mið af þessum breytingum og opnar fyrr en hvað ef það er ekki ?
Kannski er þetta óþarfa pirringur en fyrir mér er þetta enn eitt dæmið um hvað skólinn og atvinnulífið eiga ekki samleið. Ég reyndar þarf ekki að vera ósátt við mína atvinnuveitendur sem hafa ekki sýnt mér ( og öðrum starfsmönnum )annað en fullan skilning þegar svona aðstæður koma upp.
Ætla ekki að minnast á vetrarfríin - það er efni í sérstakt blogg.
Jólamatnum er bjargað - eiginmaðurinn er þreyttur og með harðsperrur - veiðifélaginn draghaltur og varla göngufær ( enda átti hann EKKI að fara í veiðiferð samkv læknisráði ) en þeir ætla samt sem áður að fara á fjöll aftur i dag og sjá hvort þeir geti bjargað jólamat fyrir fleiri fjölskyldur!
Ég og bræður förum á sundmót á eftir - þeir ætla að taka þátt en ég ætla að vera í hvatningaliðinu á bakkanum Held að jólaþorpið í Hafnarfirði opni í dag, mig langar að kíkja á það !
Sá jólaseríur í nokkrum húsum í gær.
kv Húsmóðirin
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2007 | 21:00
Ég og Björk
áttum afmæli í gær - ég veit hvað hún varð gömul og ég veit líka hvað ég varð gömul. Hún er eldri en ég.
Dagurinn byrjaði eins og venjulega - á því að vakna og vekja bræðurna - klæða þá og fæða, koma þeim út úr húsi með skólatöskur, nesti og tilheyradi klæðnað. Sjá til þess að ég sjálf sé þokkalega hrein og snyrtilega með veskið á öxlinni, peningaveskið, símann og 1/2 kílóa lyklakippuna. Svo er nauðsynlegt að hafa heitt kaffi meðferðis - maður lifir það nú ekki af að keyra í 20 mínútur og vera ekki búin að fá svo mikið sem míkrógramm af kaffi !
Ég hafði stefnt á það að halda afmælisdeginum mínum leyndum fyrir vinnufélögunum en einhver hafði nú komist að því og séð til þess að sem flestir vissu af því. Þegar ég mætti í vinnuna stóð jarðaberjarjómaterta á borðinu í afgreiðslunni. ÉG varð ægilega glöð. Í kaffitímanum varð ég hins vegar ekki eins glöð þvi tertan var hálf undarleg á bragðið og við nánari skoðun sást að hún var töluvert frá þvi að vera nýbökuð. Í ljós kom að tertan hafði orðið afgangs á sunnudeginum og það hafði gleymst að henda henni.
Eiginmaðurinn notaði afmælisdaginn minn til að ferðast landshorna á milli - nú skyldi skjóta rjúpu !
Eftir sundæfingu - búðarferð - heimanám - matseld - tannburstun og náttföt - kvöldlestur og allt svoleiðis settist ég fyrir framan tölvuna og hélt áfram að gera debet og kredit.
Í tilefni dagsins var pepsi max með matnum og svo íspinni í eftirmat - maður verður nú að gera sér smá dagamun. Afmælisdagar ERU sérstakir, sama hvað maður reynir að neita því.
Kvöldinu var svo eytt fyrir framan tölvuna með þeim vinum mínum debet og kredit ( lesist = ég var að vinna )
Andlátsfrétt í Fréttablaðinu setti sitt mark á hugarástand dagsins. Þar þekkti ég eitt andlit - enn einn sem krabbameinið ( að ég held ) hefur lagt í valinn. Fjölskyldumaður sem átti konu og 3 börn. Hann hefði orðið 42 ára í næsta mánuði.
Ég þekkti mannin fyrir rúmum 15 árum en ég tengdist fjölskyldunni hans um tíma. Hef lítið sem ekkert frétt af honum síðan en stöku sinnum hugsað til fjölskyldunnar. maður veltir fyrir sér hvað fólk er að gera, hvernig því gangi og hvort það eigi börn. Að þetta yrði það næsta sem maður frétti hefði mig aldrei órað fyrir. Blessuð sé minning þín Ási. Konu þinni, börnum. öðrum fjölskyldumeðlimum og aðstandendum votta ég mína dýpstu samúð.
SA missti lausu tönnina sína í gær, var að borða epli og bingó - tönnin laus. Tönnin var sett í plastpoka þvi annars gæti hún týnst í rúminu og þá gæti tannálfurinn ekki fundið hana. Um miðja nótt vakti drengurinn svo mömmu sína til að tilkynna henni að Tannálfurinn hefði komið - tekið tönnina og sett 100 kall í staðinn. Mámman dáðist að tönninni og sagði drengnum svo að fara sofa aftur. Það væri nótt ! Þetta voru nú það merkilegar fréttir að hann sá ástæðu til að vekja bróður sinn og segja honum tíðindin. Bróðir hans þurfti líka að segja mömmu sinni tíðindin en gat svo að sjálfsögðu ekki sofnað í sínu rúmi þannig að hann skreið í pabbarúm ( sem var autt ) setti ískaldar tærnar á bakið á mömmu sinni og sofnaði stuttu seinna.
Engan skal undra en við sváfum yfir okkur i morgun og mættum nokkrum mínútum of seint í skólann.
ég ætla snemma að sofa í kvöld
húsmóðirin sem á eftir að taka úr þvottavélinni
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2007 | 23:14
"þegar ég verð fullorðinn "
þá ætla ég aldrei að borða neitt óhollt og aldrei að drekka neitt óhollt sagði annar sonurinn við kvöldmatarborðið !
Nú sagði mamman - ætlar þú þá að verða hraustasti fullorðni maðurinn á Íslandi þegar þú verður stór ? Hann hélt það nú sá stutti.
Minnir mig á að þegar ég var barn var ég hand viss um að fullorðnu fólki þætti nammi vont og borðaði aldrei nammi. Það myndi bara gerast sjálfkrafa þegar maður yrði "fullorðinn "
Mikið skelfing ætla ég að minna drenginn á þetta seinna meir.
Annars mest lítið að frétta - sundmót hjá bræðrunum um helgina og loksins sundæfing á morgun. ( Þegar maður er 6 ára þá er hrikalega langt ef það líða 4 dagar á milli þess að maður fari á sundæfingu )
Hringdi neyðarsímtal í hárgreiðslufrænku og hún ætlar að sjá til þess að móðir og börn fá klippingu á fimmtudag Sumir eru orðnir loðnari en aðrir .......
það er rétt mánuður til jóla - vissuð þið það !
kv húsmóðirin sem eldaði gúllas í kvöld
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.11.2007 | 00:01
Dagur í lífi húsmóður
Byrjaði eins og venjulega - vakna - koma erfingjunum á fætur - skella hafragrautnum í örbylgjuna og sjá til þess að allir vakni- klæði sig - borði - komi sér út í bíl með allt sem þarf að nota yfir daginn. Skólatöskur, nokkur nestisbox, íþróttaföt húfur vettlinga og örugglega eitthvað fleira.
Náði þó ekki nema hálfum vinnudegi þar sem var hringt úr skólanum og látið vita að annar sonurinn hefði kastað upp. Greyið er búið að vera með ljótan hósta nú á þriðju viku. mamman sótti auðvitað drenginn - lét hinn drenginn vita að bróðir hans yrði ekki í skólaseli í dag og fór heim.
það reyndist frekar létt verk að plata mömmuna til að fá að fara i tölvuna ( maður setur bara upp aumlegan svip og segir að það sé svooooooo leiðinlegt að vera "aleinn" heima ) og meðan sonurinn rifjaði upp umferðareglurnar með hjálp innipúkans skemmti mamman sér við að hengja upp þvott, brjóta saman þvott og ganga frá, skipta á rúmum og svoleiðis sem mömmur gera þegar þær hanga heima allan daginn og gera ekki neitt
Svo kom hinn sonurinn heim - frekar snemma og vorkenndi sér einhver ósköp yfir því að hafa þurft að labba aleinn heim OG hann hefði mætt unglingum á leiðinni. Ekki batnaði ástandið þegar bróðir tilkynnti honum að hann hefði sko fengið að fara í tölvuna. Úff - hvað sem það getur verið erfitt líf að vera 6 ára. hann jafnaði sig þó fljótlega þegar hann var búinn að borða nestið sitt ( sem var ekki borðað í skólaselinu þennan daginn ) , fá helling af hrósi og knúsi frá mömmu sinni og leyfi til að fara líka í tölvuna.
Seinnipartinn var svo foreldra viðtal hjá JA og allt gott um það að segja !
Stofann var ekki tæmd um helgina og ekki byrjað að mála - það er nú líka hámark bjartsýninnar að ætlast til þess að iðnaðarmenn mæti á umsömdum tíma.
Talaði við norska bróður um helgina - hann er þreyttur og með exem á höndunum en bráðum verður hann svolítið ríkur þar sem nú er "hálfskattsmánuður" - hann vinnur bullandi yfirvinnu þennan mánuðinn en borgar bara hálfan skatt ! Kortaklippir þarf ekki að koma við hjá honum og norsku mágkonu eftir þessi jól.
Sundmót framundan fyrir strákana - vonandi verða litlir menn hættir að hósta svo þeir geti verið með.
nú er miðnætti og eins og sönn ( eða illa skipulögð ) húsmóðir á ég eftir að hengja upp úr einni þvottavél - taka úr einni uppþvottavél og smyrja 4 nestisbox fyrir morgundaginn. Svo er maður hissa á því að vera ekki ruglað saman við súpermódel ?
bið að heilsa í bili - húsmóðirin
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2007 | 00:32
Fyrsta blogg
Fyrsta blogg á nýju bloggsvæði - hef ekki tilkynnt neinum um flutningana ennþá en það verður fljótlega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
kona á besta aldri
116 dagar til jóla
Mál dagsins
Færsluflokkar
Tenglar
Þetta les ég stundum
vinir og vandamenn
- Norski bróðir
- Sparnaðarráð hinnar hagsýnu húsmóður
- Heiðar
- Bærinn sem ég bý í
- Bærinn sem ég fæddist í
- Hristingsmælingar
- Dr Gunni
Matarblogg úr ýmsum áttum
- Flott og gott Skemmtileg síða sem ég rakst á fyrir tilviljun
- Eva Laufey Kjaran
- Matur sem vinnur gegn krabbameini
- Eldhússögur úr Kleifarseli Svakalega girnilegt
- Síðan hans Axels hjartalæknis
Matarblogg
Uppskriftir og hugleiðingar um mat úr ýmsum áttum
-
Matarblogg
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (30.8.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 1613
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar