Færsluflokkur: Bloggar
21.8.2009 | 23:33
Talaðu íslensku kona !
Mamman sat og færði debet og kredit í tölvunni. Uppgötvaði svo að hún hafði gert smá vitleysu sem þurfti að laga. " sjitt " hrekkur upp úr mömmunni. Strákur, sem gengur framhjá rétt í þessu, segir þá upphátt : ´" Ég mundi nú frekar segja fjandinn "
Í orðunum og tóntegundinni mátti lesa þessi skilaboð " fyrst þú þarft endilega að blóta þá skaltu allavega tala íslensku "
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.8.2009 | 17:58
Af hverju ?
Ég fékk góða gesti í heimsókn í vikunni - vinkona og 7 ára dóttir sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Mæðgur settust inn í eldhús en sú yngri var dálítið óörugg með sig og fór ekki langt frá mömmu sinni. Eins og barna er siður þá varð hún nú fljótlega svöng, svona fyrst hún var í annarra manna eldhúsi. Ástandið í ísskápnum var frekar fátæklegt, við nýkomin úr útilegu og ekki búið að fara í búð. Þeirri stuttu leist nú ekki allt of vel á það sem ég bauð henni, vildi ekki ávexti, ekki saltstangir og ekki hrökkbrauð. Meðan ég leita betur í skápum segir hún í hneykslunartón við mömmu sína " Ég hélt nú að það væri allavega hægt að fá brauðsneið með osti hérna "
Að sjálfsögðu snaraði ég fram brauðsneið með osti og mjólkurglas sem sú stutta sporðrenndi með bestu lyst og allir ánægðir á eftir.
Seinna settumst við inni í stofu. Sú stutta búin að horfa á DVD og teikna eina mynd þegar hún rekur augun í teikningar og för á sjónvarpsskjánum.
Af hverju er svona mikið ryk á sjónvarpinu ? spurði hún hissa ( mamma hennar greinilega snyrtilegri en ég ) Mamman roðnaði og sussaði á þá stuttu. Fannst greinilega eitthvað skorta á háttvísina. Ég sagði þeirri stuttu eins og var, að mér þætti hundleiðinlegt að þurrka ryk og nennti því ekki alveg núna . Ég myndi samt gera það seinna. Hún var sátt við útskýringarnar og fannst ekki ástæða til að ræða þetta meira.
Ég er ekki ennþá búin að sækja tuskuna og þurrka rykið að hillusamstæðunni og í kring um sjónvarpið. Sjónvarpsskjárinn er þó orðinn hreinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.8.2009 | 17:35
Bílveiki.
Við áttum erindi (nokkur ) á höfuðborgarsvæðið í dag. Bræðrum til takmarkaðrar gleði. Þegar við áttum smástund eftir á áfangastað nr 1 var orðið ljóst að annar sonurinn þurfti að gubba. Þökk sé snarræði föðursins og samvinnu þeirra feðga náði strákur að gubba út um gluggann á ferð - ekki dropi af ælu inn í bílinn
Snarlega var beygt inn á næsta bílastæði þar sem syninum var kippt út úr bílnum og næsta gusa lenti á bílastæðinu. Hinn sonurinn ( sem er frekar klígjugjarn ) var kominn út úr bílnum og þegar hann sá bróður sinn gubba var ekki annað hægt en að gubba honum til samlætis. Samstíga bræður.
Við náðum að sinna okkar erindum án þess að meira yrði gubbað. Ég held meira að segja að mér hafi tekist að panta afmælisgjöfina mína
Komum heim fyrir stuttu og bræður andvörpuðu fegnir " mikið er gott að vera kominn heim úr þessari leiðinda verslunarferð " Það er mikið á bræður lagt að þurfa að eyða 3-4 tímum í Reykjavík með foreldrum sem vilja hvorki fara í dótabúðir né kaupa pizzur og bland í poka.
Við fórum þó að borða í Ikea (kreppuráð) OG ég keypti súkkulaði í Bónus sem mátti borða í bílnum. Ég get ekki verið alslæm.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2009 | 11:29
Fyrir jólin
Gott að hafa þetta í huga - bæði til að sjá tólin ( kk ) og komast í kjólinn ( kvk ) fyrir jólin
http://www.wisegeek.com/what-does-200-calories-look-like.htm
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2009 | 00:47
Hvert fór þetta sumar eiginlega ?
Það var júní í gær og nú er kominn ágúst. Tíminn hefur gjörsamlega þotið áfram og ég sem ætlaði að fara svo margt, gera svo margt og hitta svo marga er að uppgötva að ég á þetta nánast allt eftir.
Er búin að fara í eina útilegu( sem var reyndar mjög fín ) en ætlaði í miklu fleiri. Ætlaði að vera rosalega dugleg að heimsækja vini og kunningja - get varla sagt að ég hafi farið neitt, heimsótti þó vinkonu í neðri byggð, ekki einu sinni heldur tvisvar.
Ég ætlaði að taka til í ruslaherberginu og bílskúrnum, fara í gegn um kassa af barnafötum og gefa/henda eftir þörfum. Ætlaði aldeilis að draga fram saumavélina og skipta um rennilása, gera við saumsprettur, þrengja buxur og þar fram eftir götum. En hvað gerði ég ? Dró fram saumavélina þegar mamma kom í heimsókn og bað hana um að lagfæra rennilás á jakka fyrir soninn. Hún gerði það snilldarlega vel og sonurinn mjög ánægður með að geta notað jakkann sinn aftur.
Ég ætlaði líka að vera rosalega dugleg að hreyfa mig - hjóla, ganga og fara í útivistarferðir með bræðrum hér í nágrenninu. Hjólið mitt er við það að verða ónýtt - og ég hef ekki notað það eins mikið og ég vildi. Hef þó nánast ekkert notað bílinn hér innanbæjar og farið annaðhvort gangandi eða hjólandi. Bræður hafa hins vegar verið á fullu - fótboltaæfingar, leikir og stökk og skrans á hjólunum og hafa ekki nokkurn áhuga á einhverjum fjöru eða fjallaferðum með mömmu gömlu.
Eg er bara heima - að taka til mat, ganga frá mat - setja í uppþvottavél eða þvottavél - eða taka úr uppþvottavél eða þvottavél - fara í búð og kaupa mat - baka til að eiga með kaffinu því önnum kafnir strákar á grunnskólaaldri eru sísvangir og í sumarfríium er misjafnt hversu margir vinir fylgja með í kaffitímum.
JA er tannlaus - missti framtönn í síðustu viku og svo duttu tvær í viðbót í útilegunni. Hin framtönnin og önnur við hliðina. Brosið hans er því frekar skörðótt þessa dagana.
Bræður eru dálítið uppteknir af því þessa dagana að verða sér úti um peninga ( og nammi og fótboltamyndir ) JA fullyrðir að ALLIR vinir hans stríði honum því hann fái ekki nammipening á laugardögum. Við eldgömlu foreldrarisaeðlurnar höfum ekki getað séð nein haldbær rök fyrir því af hverju krakkar eiga að fá nammi þegar kemur laugardagur. Við höfum hins vegar skapað þá venju að hafa alltaf ís í eftirmat á laugardagskvöldum og bræður sem eru miklar ísætur hafa yfirleitt verið mjög sáttir við það.
En - strákar eru eitthvað farnir að velta hlutunum fyrir sér. SÁ spurði um daginn hvort þeir bræður mættu ekki vinna einhver heimilisverk og fá pening fyrir. Ekki var ég nú alveg tilbúin til þess - sagðist ekki skilja af hverju þeir ættu að fá pening fyrir að vinna heimilisverk, ekki fengi ég neitt fyrir það. Strákur horfði á mig, dálítið hneykslaður, " þú ert fullorðin " og var ekki til í að ræða málin neitt frekar.
Bræður eru glaðir yfir því að sumarfríið mitt er að verða búið. Sjá fram á meiri tíma í tölvunni þegar ég er hvergi nærri. Það er sko greinilegt að ég hef hríðfallið af vinsældalistanum frá síðasta sumarfríi.
Harrý og Heimir, (útvarpsleikrit með þeim Sigga Sigurjóns og Karli Ágústi Úlfssyni) eru orðnir heimilisvinir - norski bróðir kom með flakkarann sinn með sér þegar hann kom í heimssókn og bræður fengu heilan haug af þessu leikþáttum inn á spilarana sína. Það hefur mikið verið hlustað og foreldrarnir fengu leikþátt beint í æð eitt kvöldið í útilegunni þegar við vorum að fara að sofa.
"Harrý, ég var að spökulera, ég var að spökulera, ég var að spökulera að ég spökulera allt of mikið "
Algjör snilld !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2009 | 17:10
Hver er feitastur ?
Í góðviðrinu í dag stóð ég inni og bakaði. Bræður ( og einn vinur ) uppgötvuðu um tvöleitið að mamma var að baka og þá var ekki hægt að leika lengur úti, tóku ekki sénsinn að missa af kaffitímanum. Fannst mjög hentugt að leika sér inni svo þeir misstu ekki af neinu.
rúmlega klukkutíma seinna er allt tilbúið, ég geri klárt fyrir kaffitíma úti á palli og kalla á strákana sem eru sestir eins og skot. Þeir hakka í sig tebollur og bananabrauð með bestu lyst og eru meira að segja komnir úr að ofan. Þar sem við sitjum kemur pabbi heim í kaffi, hann sest niður og gæðir sér á kræsingunum. SÁ vill fá meiri tebollur en þær eru búnar. Pabbi potar í magann á honum og segir að hann sé kominn með bumbu. JA þenur út magann á sér og segist vera lang feitastur. Vinurinn horfir á hann og segir svo hissa : Neeeiiii, pabbi þinn er feitastur. JA glottir og horfir á mig " nei mamma hún er miklu feitari !
Við feitabollurnar horfðum á hvort annað og báðum svo drengina um að tala um eitthvað annað. Þeir gerðu það, sem betur fer.
Hafnfirski bróðir á afmæli í dag, til hamingju með það kæri bróðir. Hann er ekki gamall, örlítið yngri en ég. Einkennilegt samt hvað foreldrar okkar eiga gamla krakka
Þar sem ég stóð fyrir framan sjóðheita eldavélina áðan þá langar mig EKKERT til að hugsa um kvöldmat. Kemst sjálfsagt ekki hjá því, bræður verða sjálfsagt að DREPAST úr hungri eins og venjulega þegar líður að kvöldmatartíma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.7.2009 | 09:22
strákar eru og verða strákar
Ef ég man rétt þá er þetta fyrirsögn á bók sem var og er væntanlega ennþá í eigu frænda sem á yngri árum var kenndur við Borgarhól. Þessi fyrirsögn poppaði upp í hugann í kvöld þegar ég horfði og son minn og son hans ásamt vinum, sem einbeittir unnu við að grafa hina fínustu holu fyrir framan hús nágrannans. Þó svo ég eigi alveg frábæra nágranna sem láta ekki smámuni fara í taugarnar á sér þá er samt búið að tilkynna strákagenginu að það þurfi að fylla í holuna aftur á sunnudaginn. (ÁÐUR en hinir frábæru nágrannar koma til baka úr útilegunni )
Til hvers að eyða óþarfa tíma í að fara á klósettið inni, þarf þarf maður að fara út skónum , þvo sér um hendurnar og svoleiðis sem tekur allt of mikinn tíma. Maður bjargar sér, nær sér í fötu, setur hana inn í litla (leik)kofann og notar hana fyrir klósett.
Á meðan frændur grófu holu var hinn sonurinn að hjóla og skransa. Hann gerir dálítið mikið af því eins og sjá má ef vel er rýnt í myndina af afturdekkinu á hjólinu hans. það tók ekki nema 3 mánuði að slíta þessu dekki.
Strákar eru og verða strákar !
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.7.2009 | 11:36
önnum kafin húsmóðir í sumarfríi
Ég er í sumarfríi - bóndinn búinn að liggja veikur í lungnabólgu í meira en tvær vikur svo ekki höfum við lagt land undir fót. Bóndinn búinn að liggja að mestu kappklæddur undir teppi og horft á sjónvarpið. Ekki skemmtilegt þegar hitinn fer yfir 20 stig og aðrir fjölskyldumeðlimir ganga um léttklæddir og sólbrúnir. En sem betur fer er bóndi að hressast og stefnan er að mæta í vinnu á mánudag ( hvort sem það gengur eftir eða ekki )
Bræður fara seint að sofa, sofa frameftir, mæta á fótboltaæfingar og leika við vini. Nóg að gera. Þeir eru líka endalaust svangir og ég upplifi sumarfríið dálítið eins og endalaust streð í eldhúsinu, taka til mat, elda mat, ganga frá mat, ákveða hvað á að vera í matinn og síðast en ekki síst að kaupa mat. Svo hefur hirðing og umsjón nagdýranna í bílskúrnum bæst á mínar herðar meðan bóndinn hefur verið veikur. Mikil afslöppun
Amma að austan er farin en hún var hjá okkur í viku, var sátt við veðrið og skilur afskaplega vel af hverju ég er svona ánægð með nýja pallinn Norski bróðir og frú eru komin til landsins og voru hjá okkur eina nótt. Afskaplega gaman að sjá þau og þau ægilega glöð að vera komin til landsins. Voru búin að drekka appelsín í gleri, borða íslenskt nammi, borða silung og fá sér SS pylsur ( eða pulsur, er ekki viss ) og skola þeim niður með kókómjólk áður en þau yfirgáfu Suðurnesin. Svo heimsótti norski bróðir sundlaugina og heita pottinn. Hann lét nú reyndar ekkert of vel af heita pottinum, sagðist hafa hrökklast upp úr pottinum með eyrnaverk þar sem hávaðasöm frú lét gamminn geysa. Á leiðinni heim úr sundi reyndi svo önnur frú að keyra hann niður þar sem hann gekk í rólegheitum yfir götu með græna karlinn brosandi á móti sér. Norski bróðir og grindvískar frúr virðast ekki eiga samleið.
Naggrísum fækkaði stórlega þegar ung og falleg stúlka af höfuðborgarsvæðinu sótti sexburana og fór með þá. Ég var ægilega ánægð og verð ennþá ánægðari ef ég losna við fleiri. Er með tvö fullorðin karlkyns dýr og tvo unga ( kk og kvk ) sem þurfa nýtt heimili.
Keyrði ömmu að austan til Reykjavíkur í gær, við fórum í nokkrar búðir en heimsóttum svo mægður kenndar við Holt og áttum góða stund með þeim úti í garði. Það er sko ekki bara ég sem á nýjan pall.
Jæja, ætli ég verði ekki að fara í búð og sækja eitthvað matarkyns áður en afleggjararnir koma heim af fótboltaæfingu. Viðbúið að þeir verði að drepast úr hungri.
kv húsmóðir í sumarfríi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.7.2009 | 22:44
Ættfræði ?
" er amma að austan tengdaamma okkar " ? Nei, ekki vildi ég nú kannast við það, hún væri bara venjulega amma. Veit svo sem ekki hvað blessað barnið var að spá en hún amma að austan er tengdamamma hans pabba svo það er kannski ekki skrítið að barnið ruglist í þessu...........
En hann var ekki hættur að hugsa um ættfræðina. " Mamma, eigum við ekki frænku í ríkisstjórninni" ? Jú, hún var í ríkisstjórninni en hún er veik núna. " já alveg rétt, Jóhanna Guðrún er það ekki" ? Neeeeei, ( ég barðist við að vera alvarleg ) hún heitir Ingibjörg Sólrún. " já Ingibjörg Sólrún Gísladóttir " sagði strákur og var þar með hættur að spá í ættfræðina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
kona á besta aldri
120 dagar til jóla
Mál dagsins
Færsluflokkar
Tenglar
Þetta les ég stundum
vinir og vandamenn
- Norski bróðir
- Sparnaðarráð hinnar hagsýnu húsmóður
- Heiðar
- Bærinn sem ég bý í
- Bærinn sem ég fæddist í
- Hristingsmælingar
- Dr Gunni
Matarblogg úr ýmsum áttum
- Flott og gott Skemmtileg síða sem ég rakst á fyrir tilviljun
- Eva Laufey Kjaran
- Matur sem vinnur gegn krabbameini
- Eldhússögur úr Kleifarseli Svakalega girnilegt
- Síðan hans Axels hjartalæknis
Matarblogg
Uppskriftir og hugleiðingar um mat úr ýmsum áttum
-
Matarblogg
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.8.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar