Færsluflokkur: Bloggar
30.12.2007 | 23:57
að læra eitthvað nýtt
Flestir foreldrar þekkja stoltið og ánægjuna sem fyllir okkur og gagntekur þegar afkvæmin læra eitthvað nýtt. Hvílík tilfinning þegar barnið í fyrsta skipti: heldur höfði, brosir, hlær, drekkur úr glasi, tekur fyrsta skrefið, fyrsta orðið, pissar í klósett og svo framvegis.
Skólagangan byrjar og litlir einstaklingar læra að leggja saman tvo + tvo, skrifa stafi og orð og stauta sig fram úr lestrarbókum sem geta með góðum vilja samsvarað einhverjum blaðsíðum úr "gagn og gaman "
á einhverjum tímapunkti kemur svo að því að maður er alls ekkert ánægður með þessa fróðleiksfýsn erfingjanna og vildi helst geta spólað yfir. Undanfarnar vikur hefur alveg hellingur að nýjum orðum bæst við í orðaforðann. orð eins og að "fokka" "helvíti" - "fokkfeis" -" djöfullinn " " Kommatittur" ( hét í fyrra gommatittur" og svo framvegis. " Hálfviti" er mikið notað og í kvöld var ég spurð " mamma : SÁ sagði að ég væri fáviti, er það ljótt orð ?" Kolbeinn Kafteinn hljómar stundum eins og kórdrengur við hliðina á þeim bræðrum.
Bræður vöknuðu rétt um klukkan tíu í morgun og fóru ekki að sofa fyrr en að verða hálf ellefu í kvöld. Þeir ættu að verða í fínu formi annað kvöld og geta fylgst með öllum flugeldum sem skotið verður á loft í bæjarfélaginu. Við fáum 3 matargesti annað kvöld - eiginmaðurinn aðeins farinn að stressast yfir stóra fuglinum sem hann ætlar að elda annað kvöld. Tengdó farin í loftið eftir smá seinkun og vonandi hafa þau það gott á erlendri grund yfir áramótin.
kv húsmóðirin sem hefur varla gert handtak í dag
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2007 | 00:15
Takmarkinu náð ?
Ég setti mér takmark í morgun - að eiga góðan dag. Dagurinn var vissulega ekki eins og ég hafði hugsað mér góðan dag en ég get kannski ekki beint sagt að hann hafi verið slæmur
JA vaknaði grátandi í nótt, með magaverk. Hann sofnaði þó fljótt aftur en var samt ennþá illt í maganum í morgun ( þegar hann vaknaði klukkan 9 eins og áður hefur komið fram ) Matarlystin var lítil en þá smávegis og stefnan tekin á fjölskylduferð í Bónus - voða gaman . Í miðri búðinni er drengurinn orðinn svo slappur að hann fer með pabba út í bíl og bíður þar meðan mamman klárar að versla.
Þar sem drengur er kominn með hitavellu og finnur ennþá til í maganum ákveða foreldrarnir að vera taugaveiklaðir og fara með drenginn til læknis. Ungur og elskulegur læknir tekur á móti okkur, þuklar og þreifar á stráksa, lætur hann pissa í glas og sendir hann í blóðprufu. Stráksi stendur sig eins og hetja meðan nálin er sett upp, fær verðlaun fyrir frammistöðuna, stendur á fætur krítarhvítur í framan en er varla kominn fram á gang þegar líður yfir hann. Þó svo mamman hafi verið með hjartað í buxunum þá hefði hún gjarnan viljað eiga augnablikið á mynd þegar stráksi rankar við sér þar sem hann liggur á gólfinu " datt ég ?" ( Skildi ekkert í þessu þar sem hann stóð á fótunum síðast þegar hann vissi )
Niðurstöður úr blóðprufunni gáfu ástæðu til að senda okkur á barnaspítalann við Hringbraut. Við höfðum þó viðkomu heima, skildum SA eftir hjá afa og ömmu og fórum sem leið liggur til Reykjavíkur. Til að gera langa sögu stutta þegar nokkrir læknar voru búnir að þukla og þreifa á maganum á stráksa, láta okkur bíða alveg helling þá kom "aðal" eða skurðlæknirinn sem hafði bæði grá hár og hrukkur í andliti ( lesist = reynslumeiri ) og vildi meina að strákur væri EKKI með botnlangabólgu. Við ákváðum að trúa manninum, héldum heim á leið með viðkomu í sjoppu og sonurinn varð umtalsvert hressari þegar hann var búinn að sporðrenna eins og einni pylsu. Hinn sonurinn varð ekkert voðalega glaður að sjá okkur enda þýddi það að setunni við tölvuna hjá afa og ömmu væri lokið ! En heim komum við og bræður varla búnir að leggja höfuðið á koddann þegar þeir voru sofnaðir. það verður fróðlegt að vita hvað þeir sofa lengi á morgun - sofnuðu ekki fyrr en klukkan að verða hálf 12.
Það góða við daginn er allavega að sonurinn þurfti ekki að leggjast undir hnífinn og honum líður mun betur þó svo hann sé ekki alveg laus við magaverk.
Góða nótt
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2007 | 11:30
Undur og stórmerki
Bræður sváfu til klukkan 9 í morgun Þetta skeður svo sjaldan að það er full ástæða til að blogga um það.
Annars erum við foreldrar margir hverjir alveg ótrúlegir - fyrst býsnast maður yfir hvað barnið vaknar oft á nóttunni, svo tekur við barningur yfir því hvað barnunginn vaknar snemma. Svo koma skólaárin og þá fer maður að nöldra yfir því hvað sé erfitt að vekja barnið. Nú í desember höfum við foreldrarnir nöldrað dálítið yfir því að drengirnir skuli sí og æ vera vaknaðir fyrir klukkan 7 - sérstaklega um helgar. - Og nú í jólafríinu er hægt að kvarta yfir því að bræður sofi ekki lengur á morgnanna.
Mér reyndari og fróðari foreldrar hafa svo sagt að næsta skeið sé þegar unglingarnir fari að snúa sólarhringnum við - sofi á daginn og vaki á nóttunni. Samfara því er tímabilið þegar maður kvartar yfir því hvað þau komi seint heim því auðvitað geti maður ekki sofnað fyrr en þau séu komin heim.
Merkilegt
Eigið annars góðan dag í dag - það er mitt eina takmark í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.12.2007 | 23:50
Jón Páll og jólin hjá okkur
Arg og garg - af hverju vistar maður ekki uppkast að því sem maður er að skrifa. Búin að vera með skrifræpu í tæpan klukkutíma - rek mig svo í vitlausan takka og búmm - allt farið.
Allavega - horfði á myndina um Jón Pál Sigmarsson á RÚV í gær. Hún var bæði einlæg og falleg án þess að vera væmin og gaf góða mynd af skemmtilegum karakter. Maðurinn var ekki bara stór og mikill heldur virtist hann hafa bæði góða nærveru og mikla útgeislun sem snerti marga. Þessi mynd snerti mig allavega djúpt.
Við erum búin að hafa það virkilega gott yfir jólin, etið, drukkið, sofið, horft á sjónvarp, leikið okkur, lesið og rennt okkur á sleða en bræður fengu stýrissleða í jólagjöf. Aðfangadagur var bræðrum svolítið erfiður og hann var alveg aaaaaagalega lengi að líða og alveg hrikalega erfitt að einbeita sér að nokkrum sköpuðum hlut. Mömmunni varð hugsað nokkur ár aftur í tímann þegar hægt að var að fara með bræður í bíltúr um miðjan dag svo þeir gætu vakað aðeins lengur. En þetta hafðist allt saman þó svo bræðrum þætti nóg um hvað foreldrarnir borðuðu hægt og mikið. Og að eyða tímanum í að ná sér í kaffi þegar átti að fara að opna pakkana - þessu gátu foreldrarnir nú alveg sleppt.
Bræðurnir voru glaðir og ánægðir með allar gjafirnar sínar - bíla, fjarstýrða bíla, sundblöðkur og gleraugu, föt, legó og bílabraut sem þeir fengu saman. Og auðvitað stýrissleðana sína líka. Þó svo jólin séu búin að vera góð þá hafa þau ekki verið sérstaklega friðsæl þar sem töluverður hávaði fylgir rafmagnsbílabraut og fjarstýrðum bílum
Vinnudagurinn var stuttur í dag og verður stuttur á morgun Eftir hádegi ætla ég að viðra drengina aðeins, fara með þá á bókasafnið og svo í sundlaugina þar sem að duglegir krakkar eru að hjálpa öðrum sjá hér Það sem ég hef séð til þessarra krakka í sunddeildinni er ekkert nema gott og þau eru bæði sjálfum sér og foreldrum sínum til sóma.
Amman og afinn á Kanaríeyjum hafa það vonandi mjög gott ( ég á ekki von á öðru ) og afinn og amman í rauða húsinu eru farin að gera sig klár fyrir sína utanlandsferð. Við fjölskyldan verðum heima hjá okkur í fyrsta skipti í 6 ár en þá vorum við litlu íbúðinni okkar í Reykjavík með tvo rúmlega tveggja mánaða pjakka. SÁ svaf allan hávaðann af sér en JA fagnaði áramótunum í fangi mömmu sinnar og gjóaði augunum til og frá. Næstu fjögur áramót svaf hann allan hávaða af sér en í fyrra tókst þeim bræðrum að vaka fram yfir miðnætti. Sofnuðu þó báðir í bílnum á leiðinni heim ( þriggja mínútna leið ) Spurning hvað verður í ár ?
jólakveðja
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.12.2007 | 15:18
Rafrænar jólakveðjur 2
Við fjölskyldan sendum vinum og ættingjum nær og fjær okkar bestu óskir um gleðilega jólahátíð og frið og farsæld á nýju ári.
Birgitta, Eiður, Sigurður Ágúst og Jón Aron.
http://www.elfyourself.com/?id=1736344506
Veit ekki hvort þetta virkar´- ég þarf allavega að ýta á "refresh" takkann til að fá þetta til að virka !
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.12.2007 | 23:50
Rafrænar jólakveðjur
Eru rafrænar jólakveðjur það sem koma skal ? Skal viðurkenna að ég veit það ekki og þykir leitt ef stressið í þjóðfélaginu er að verða svo mikið að fólk gefur sér ekki tíma til að setjast niður og skrifa á nokkur jólakort. Ekki það að ég hafi efni á að hneykslast ég er ekki búin að skrifa nein jólakort ennþá og geri það varla úr þessu. En síðustu tvo daga er ég búin að fá þrjár kveðjur í tölvupósti frá góðum vinkonum sem allar senda fallegar og hlýjar og hlýjar kveðjur en láta jafnframt vita að sökum tímaskorts verði ekki um nein jólakort að ræða í ár.
Ég er undir sömu sökina seld - ég gaf mér ekki tíma til þess að setjast niður og skrifa á kort ( sem voru til ) til ættingja og vina. Ég skammast mín nú svolítið fyrir það en ákvað í byrjun desember þegar stressið var að byrja að ná tökum á mér að hugsa aðeins um hvað skipti máli. Og fyrir börnin mín skiptir meira máli að eiga mömmu sem gefur sér tíma til að setjast aðeins niður með þeim og hlusta á hina daglegu sögu á Sproti.is heldur en að eiga ofurupptjúnaða mömmu sem stillir þeim fyrir framan sjónvarpið meðan hún hraðframleiðir jólakveðjur í jólakort. Punktur og basta. Vegna lélegrar skipulagningar sendi ég ekki jólakort í ár.
Mér þykir nú samt vænt um kveðjurnar, sama á hvaða formi þær eru. Fékk eina hrikalega skemmtilega í dag sem ég bara verð að deila með ykkur. sjá www.ingthor.com
Annars er bara allt fínt að frétta - þó svo bræðurnir séu orðnir frekar spenntir yfir þessu öllu saman og bíði spenntir eftir pökkunum þá höfum við fjölskyldna átt frekar rólega og afslappaða helgi. Byrjuðum á því að fara í Bónus og fleiri útréttingar á laugardeginum og gáfum okkur svo tíma til að heimsækja vélstjóravin okkar sem við höfum ekki heyrt í lengi. Þegar við heyrum ekki í honum í langan tíma þá þýðir það yfirleitt að maðurinn er kominn í samband við kvenmann og afar upptekinn af kvenmanni og skemmtanalífi. En svo bregðast krosstré sem önnur tré - félaginn búinn að vera önnum kafinn við vinnu og fjarnám og fyrir utan það þá er hann ennþá í sambandi við sama kvenmanninn og hann var með í sumar. Til að toppa það alveg þá var hann önnum kafinn við að pakka inn jólagjöfum þegar við komum en kórónaði það svo með því að hafa verið að skreyta jólatréð á föstudagskvöldi þegar allri vinir hans voru á skralli.
Eiginmaðurinn átti svo erindi í Stórborgina um hádegisbil í dag - skilaði sér seint og um síðir, angandi af skötulykt og búinn að kaupa einu jólagjöfina sem hann þarf að kaupa.
Ég eyddi tímanum í þrif og púss, þvotta og svoleiðis sem alhæf heimilistæki gera meðan bræður reyndu að leika sér í staðinn fyrir að slást. Þeir teiknuðu og lituðu og eftir göngutúr og innkaup í Nettó uppgötvuðu þeir bræður að þeim langaði að teikna og búa til jólakort handa vinum sínum. Að sjálfsögðu þurfti líka að keyra kortin út.
Eftir jólabað og ný náttföt fóru bræður í rúmið og eftir kvöldlesturinn tók það bræður um það bil 1 mínútu að sofna. Það er hætt við að bræður verði frekar framlágir á morgun þegar pakkaflóðið og heimsóknin til afa og ömmu er búin.
Hafnfirski bróðir og frú koma í grjónagraut á morgun. Við komum þessu á við systkinin þegar við bjuggum öll á höfuðborgarsvæðinu - í staðinn fyrir að búa til einhverja stressdagskrá yfir jólin svo við myndum hittast eitthvað þá væri fínt að gera þetta svona. Elda grjónagraut, setja möndlu í hann og hafa möndlugjöf, - fólk fær þá eitthvað að borða í hádeginu, við hittumst og eigum smá stund saman.
Ég á eftir að strauja slatta og ganga frá þvotti - nenni því ekki núna enda hef ég fínan tíma til þess í fyrramálið. Ætla að fá mér heitan kaffidrykk, horfa smá á sjónvarpið, fara svo í bað og njóta þess að skríða upp í tandurhreint rúmið.
með húsmóðurjólakveðjur til ykkar allra
Bloggar | Breytt 24.12.2007 kl. 15:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.12.2007 | 22:53
Kæri jóli
Það er að styttast í jólin - og heimilisfólkið komið í jólafrí, mislangt að vísu. það var gott að komast heim úr vinnu í dag og ekki laust við að stressstuðullinn hafi lækkar örlítið. Bara gott mál.
Þó svo ég hafi lagt mig alla fram í gær um að koma bræðrum í skilning um það að nú væri jólafrí og þá ÆTTI að sofa lengur var JA samt sem áður kominn á ról fljótlega upp úr klukkan hálf sjö í morgun. Eitthvað hefur honum þótt mamman morgunfúl þar sem hann skreið aftur upp í sitt rúm og skoðaði bók í rúmar 20 mínútur. Þá heyrði ég að hinn sonurinn var vaknaður líka og bróðir hans beið ekki lengi með að tilkynna að þeir hefðu bara fengið vettlinga í skóinn. Greinilega ekki mjög spennandi.
Eftir ekki mjög svo hollan kvöldverð í kvöld (KFC) fann Sá myndi á eldhúsbekknum sem hann var ekki alveg búinn að lita. Tók myndina og ákvað að gefa jólasveininum hana . Það eru nokkrir jólasveinar sem eiga listaverk eftir drenginn - allavega Stekkjastaur og Stúfur og gott ef Bjúgnakrækir fékk ekki mynd líka. Stráksi var búinn að setja sig í stellingar og búinn að fá forskrift að því hvernig á að skrifa : "Til Gáttaþefur" þegar hann fékk allt í einu vitrun " mamma , hvernig skrifar maður :" Elsku Gáttaþefur minn, viltu gefa mér Star Wars kall "
Ekki fer maður að draga úr fróðleiksþorstanum og skemma þessa fínu skriftaræfingu svo ég gaf drengnum forskrift á þess setningu. Þetta er nú ekki lítið afrek að skrifa bréf þegar maður er bara 6 ára. JA var fljótur að sjá að hann væri mögulega að missa af einhverju svo hann bað um blað líka til að skrifa Gáttaþefi sem hann gerði en bætti þó við að honum langaði í Svarthöfða Star Wars !
Bréfin fínu liggja nú í gluggakistunni. Ég skal viðurkenna að ég bíð spennt eftir að vita hverju elsku Gáttaþefur svarar.
Dagurinn í dag varð mikill hamingjudagur hjá JA en LOKSINS er hægt að tala um að hann sé með lausa tönn - hún ruggar sko þokkalega og ég var sérstaklega áminnt þegar var verið að bursta tennurnar í kvöld að fara varlega - hann væri sko með lausa tönn og það væri sárt að bursta!
Fékk jólgjöf frá vinnunni í dag - hangiketslæri og 24 lítra af gosi ( 12 af malti og 12 af appelsíni )
Í gær eignaðist ég litla frænku - hún er nú búin að láta bíða þokkalega eftir sér en það gerir fína fólkið líka. Kæru foreldrar og systkini - til hamingju með litlu dóttur og systur.
JA hefur ekki borðað neinar mandarínur i dag - enda hefur lyktin og andrúmsloftið í húsinu verið með besta móti. kenning norska bróður með mandarínur og viðrekstur hefur verið sönnuð í 2 löndum !
með húsmóðurkveðju
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.12.2007 | 09:58
Ekki hætt að blogga
Ég er ekki hætt að blogga - er bara önnum kafin útivinnandi kona og (hús)móðir sem er að kafna úr jólastressi
Jólakortin eru óskrifuð og ósend ennþá - er samt ekki búin að útiloka að koma frá mér einhvers konar jólakveðju ennþá.
Er samt búin að kaupa skó á strákana Lagði það á bæði mig og þá að fara í Kringluna seinnipartinn í gær og ótrúlegt en satt þá fundum við skó í fyrstu búðinni sem við fórum inn í. Mér þykir það vel af sér vikið þar sem ekki var möguleiki að finna tvö pör af strákaskóm á öllum Suðurnesjunum.
Núna er Ikea uppáhaldsmatsölustaðurinn minn - tvær barnamáltíðir og ein fullorðinsmáltíð + 3 glös af gosi kostuðu 1340 kr
Ætla að halda áfram að vinna.
kv (hús)móðirin
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2007 | 22:32
Kvöldblogg
Morgunbloggið gafst ágætlega en í þetta skiptið var beðið eftir því að börnin sofnuðu. Þetta er því kvöldblogg.
Bræður eru spenntir þessa dagana - vilja helst fara eldsnemma að sofa og rífa sig á fætur fyrir allar aldir. Ástæðan ; einn gúmmískór og einn íþróttaskór sem hafa staðið í gluggakistunni á barnaherberginu í nokkra daga. Jólasveinarnir eru sko komnir til byggða og Þvörusleikir kemur í kvöld. Bræður eru sko með þetta allt á hreinu. Annar sonurinn var sofnaður rúmlega hálf átta í kvöld en spenningurinn hélt vöku fyrir hinum sem sofnaði ekki fyrr en rúmlega hálf tíu. Þá var hann búinn að nefna svona 15 sinnum " ætli Þvörusleikir sé kominn " ?
Vegna veðurs hefur ekki verið hægt að vera mikið úti undanfarið og það leynir sér ekki að þráðurinn í bræðrum er orðinn frekar stuttur ! Mamman settist niður með bræðrunum smá stund í dag til að föndra - stinga negulnöglum í mandarínur. SÁ nennti því nú ekki, náði sér í bók og settist við eldhús borðið hjá mér og bróður sínum sem var alveg til í að föndra. Sköpunargleðin var frjáls og óheft og það mátti bara gera eins og maður vildi.
Mandarína nr 1 var eins og rokkari - með augu, munn og hanakamb ( munstur úr negulnöglum)
Mandarína nr 2 var skrýmsli - með mikið skegg en nauða sköllótt.
Mandarína nr 3 var slím eitthvað - en með bólu á hausnum
Fjórða og síðasta mandarínan var Tröllið sem stal jólunum
Jólaþemanu bregður þvi fyrir í mýflugumynd. En lyktin af þessu er góð og við mæðgin höfðum gaman af þessu.
Veðrið hefur verið kröftugt í dag - ég mætti í vinnu í dag en fór heim milli hviða - skóla og leikskóla var lokað og lítið annað að gera en að taka því rólega heima. Sjálfsagt hafa margir foreldrar verið á sama róli. Einhverjir hafa nú samt fundið sér annað að gera í óveðrinu eins og þessir hérna
http://www.visir.is/article/20071214/FRETTIR01/71214036
Ef þetta er ekki borðleggjandi í næsta Spaugstofuþátt þá veit ég ekki hvað.
Ég keypti tvær tegundir af tilbúnu smákökudeigi í dag - það kemur allavega bökunarlykt í húsið EF ég verð svo dugleg að skera rúllurnar í hæfilega bita og setja þá á bökunarplötu.
kveð í bili
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.12.2007 | 10:14
Morgunblogg
Best að gera tilraun að blogga meðan barnatíminn er. það er greinilegt að jólin eru farin að setja mark sitt á börnin á bænum - það er erfitt að sofna og svo vakna menn fyrir allar aldir. Mér finnst að það ætti að vera ólöglegt að vera komin á fætur fyrir klukkan 7 á sunnudagsmorgni - allavega þegar börnin eru orðin 6 ára! En pakkadagatalið sem hangir á veggnum í eldhúsinu hefur órtúlega mikið aðdráttarafl og sér til þess að heimilisfólkið sofi ekki of lengi - allavega um helgar. !
Sú var nú reyndar tíðin að maður var útsofinn ef maður fékk að sofa til klukkan 7. Þá var maður búin með hin ymsustu morgunverk fyrir klukkan 8 á morgnanna, skipt á og klæða tvo grislinga, gefa þeim morgunmat, taka úr uppþvottavél, setja í eina þvottavél, hengja upp úr henni og setja í aðra.
Nú er maður að nálgast það skref að börnin fái sér morgunmatinn sjálf og maður fái bara að sofa eins lengi og maður vill !
Jólastress eða ekki ? Veit það ekki. Getur maður ekki ráðið því svolítið sjálfur ? Nú eru 15 dagar þar til aðfangadagur rennur upp og ef ég set mér mjöööög mööööö og frekar óraunhæf markmið sem ég ætla að ná á þeim tíma þá get ég verið í stanslausu stresskasti í 15 daga. Sé miðað við að ég fer að heiman klukkan átta á morgnanna og kem heim um klukkan 4 á daginn og að ég vinn líka við bókhald heima við sem getur verið frá 6-12 tímar á viku. Aukavinnan vinnst eingöngu á kvöldin og þá er mjög óraunhæft að ætla sér að :
þrífa húsið hátt og lágt - allir gluggar og skápar innifaldir. Taka til í bílskúrnum og þvottahúsinu - fara í gegn um fataskápana og sjá henda/gefa þann fatnað sem heimilisfólk er hætt að nota. baka lágmark 5 smákökusortir. föndra 50 jólakort. Versla 12-15 jólagjafir og jólaföt á heimilisfólkið. Fara á tónleika og jólahlaðborð og helst að sjá eins og eitt barnaleikrit .Mála allt húsið - að innan ! Hengja upp jólaskrautið
meðfram þessu öllu sinnir maður svo börnum og heimili- sér til þess að börnin læri - skutlar og sækir á æfingar, þvær þvott og eldar mat og helst að gefa sér tíma til að föndra með þeim .
Hvernig ætli jólin yrðu á þessum bæ eftir svona törn ?
Ég ætla mér að fækka þessum möguleikum eitthvað - húsið verður hreint og fínt en ekki sótthreinsað. Bílskúrinn er alveg ágætur og þegar ég verð búin að fara með í endurvinnsluna og skúra í þvottahúsinu þá verður það hreint og fínt. Tiltekt í fataskápunum bíður þar til eftir jól. Smákökurnar fást í Nettó - verð mjög ánægð ef mér tekst að skrifa á jólakort ( gerði það ekki í fyrra ) Ætla að gefa mér betri tíma til að hugsa um og ákveða jólagjafirnar áður en ég fer að troðninginn í verslunum landsins með öllum hinum ofurjólastressuðu húsmæðrum. Fyrst ég er ekki búin að fara á tónleika og leikhús ( fór reyndar í jólahlaðborð með vinnunni um daginn ) þá verður það bara að bíða betri tíma. Það verður líka gaman að fara á tónleika í febrúar. Málarinn er búinn að LOFA því að hann komi á miðvikudag eða fimmtudagskvöld og ég er farin að hallast að því að trúa honum - sérstaklega þar sem hann þarf að notfæra sér þjónustu píparans/eiginmannsins mjög fljótlega.
Það stóð til að láta mála allt en stofan og holið verður látið nægja. Eiginmaðurinn ætlar að mála yfir litaprufurnar á eldhúsveggnum svo hann verði hvítur en ekki köflóttur. Restin af eldhúsinu verður máluð eftir jól. Þegar verður búið að mála - þá fer jólaskrautið upp.
Erfiðast af þessu verður að fara með drengina í verslunarleiðangur til að kaupa skó og skyrtur Annar sonurinn þolir ekki svona leiðangra - vill bara fara heim eftir 5 mínútur meðan hinn virðist fá adrenalínsprautu við það eitt að koma inn í verslunarkjarna eða verslunarmiðstöð. Hann umturnast gjörsamlega og varla möguleiki að fá hann til að líta á flík, hvað þá að máta hana.
Eiginmaðurinn hefur ekki verið mikil hjálp við undirbúning hingað til - hefur verið í bullandi aukavinnu undanfarið og hefur ekki átt frídag síðustu 3 vikur.( lesist = unnið allar helgar ) Mér skilst reyndar að þetta sé síðasti dagurinn í aukavinnu en búin að vera gift iðnaðarmanni í rúm 7 ár þá er alltaf spurning hvort sé hægt að treysta því sem iðnaðarmenn segja ( ég geri skil á milli vinnu og einkalífs )
Morgunbloggi er lokið - best að taka til hendinni og koma einhverju í verk - erum nefnilega að fara í fjölskylduboð á eftir og þar gerir maður ekki mikið annað en að borða!
kv húsmóðirin sem gaf fólkinu sínu eintómt ruslfæði í gær !
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
kona á besta aldri
116 dagar til jóla
Mál dagsins
Færsluflokkar
Tenglar
Þetta les ég stundum
vinir og vandamenn
- Norski bróðir
- Sparnaðarráð hinnar hagsýnu húsmóður
- Heiðar
- Bærinn sem ég bý í
- Bærinn sem ég fæddist í
- Hristingsmælingar
- Dr Gunni
Matarblogg úr ýmsum áttum
- Flott og gott Skemmtileg síða sem ég rakst á fyrir tilviljun
- Eva Laufey Kjaran
- Matur sem vinnur gegn krabbameini
- Eldhússögur úr Kleifarseli Svakalega girnilegt
- Síðan hans Axels hjartalæknis
Matarblogg
Uppskriftir og hugleiðingar um mat úr ýmsum áttum
-
Matarblogg
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (30.8.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 1613
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar