Kunna börn ekki að leika sér lengur ?

Eða eru það bara mín börn sem kunna það ekki ?

Ég er að lenda í vandræðum eða krísu sem ég veit ekki alveg hvernig ég á að bregðast við.  Eins og þeir sem standa mér nálægt vita á ég tvo spræka stráka sem kláruðu fyrsta bekk í grunnskóla.  Á heimilinu er ein borðtölva og svo PS2 leikjatölva sem pabbinn á heimilinu notar einna mest.  ( Tölvusjúklingur á gamals aldri Blush )

Í hugum sona minna er ég , að ég held, ágætis mamma og þeir eru  sáttir við kelluna að langmestu leyti NEMA þegar kemur að þeirra tíma í tölvunni.  Þar má ég alveg missa mín og er alls ekki samkeppnishæf við mæður margra leikfélaga.  Ég er nefnilega risaeðla með ótrúlega fornaldarlegar og heimskulegar hugmyndir um sjónvarpáhorf og þann tíma sem ég vil úthluta þeim í tölvunni.    Ég nefnilega ræð yfir sjónvarpinu, tölvunni og tímanum sem fer í slíkt tæki.  Devil  Og tíminn sem bræður hafa fengið að eyða við þessa tómstundaiðju hefur að mestu verið eftir mínum geðþótta.    Þetta hefur gengið nokkuð þokkalega þar til núna.  Við búum í litlu bæjarfélagi og bræður eru orðnir nógu "stórir" til að fara einir , hvort sem það er gangandi eða hjólandi , til þeirra vina sinna sem búa í næsta nágrenni.

Og þar liggur hundurinn grafinn  - þeir félagar sem virðast eiga sínar eigin leikjatölvur eða frjálsan aðgang að tölvum eru "vinsælastir"    Tala nú ekki um ef þeir eiga nýjustu leikina.  Ég sé ekki ástæðu til að setja út á eða gera mál út af því að sonur minn sat í tölvuleik hjá vini sínum í 3 tíma í gær og jafnvel á fimmtudaginn í síðustu viku líka.  Það er ekki málið.  En þegar sonur minn er kannski búinn að vera hjá þessum vini sínum á hverjum degi í viku og vera í tölvuleik 3-4 tíma á hverjum degi - þá fer það í taugarnar á mér.  Ég tala nú ekki um að nú er hásumar - gott veður og ég haldin þeirri hallærislegu og gamaldags kennd að á sumrin eigi börn að vera úti og leika sér. Shocking  Kannski er ég gangandi tímaskekkja en það verður þá bara  að hafa það - mér finnst þetta samt.

Það sem mér finnst kannski allra verst í þessu er að hér hafa nánast engir leikfélagar komið  það sem er af þessu sumri.  Hér komu tveir í dag og stoppuðu stutt - fyrst ekki mátti fara í tölvu þá var ekkert hægt að gera.  Hér eru leikföng úti og leikföng inni en það var varla snert.  Þeir fóru heim til annars félagans og þar tók við þriggja tíma tölvuleikur. 

Það má samt ekki taka því þannig að ég sé á móti því að börn leiki sér í tölvum.  Ég er bara á móti því að börn leiki sér ekki í neinu öðru en tölvuleikjum.  Það er til fullt af fróðlegum og skemmtilegum leikjum sem börn hafa bæði gagn og gaman af.  Dæmi um það eru leikirnir um innipúkann á www.us.is - algjör snilld.

 Nú veit ég að börn eru misjöfn  - hafa mis mikinn áhuga á tölvum og mis mikið úthald til að sitja lengi við þær.  Mín börn myndu sitja við mest allan daginn ef þau fengju að ráða.  Ég er nú reyndar að öllum líkindum búin að skjóta mig í fótinn að einhverju leiti með það að vera of ströng - "þörfinni" fyrir tölvuleiki er ekki svalað heima við svo þá leitar maður bara annað.  Þannig að næsta skref er að úthluta hvorum strák sér aðgangi að tölvunni og  www.netnanny.com kemur til með að sjá til þess að tímamörk haldi.   það hjálpar vonandi til þess að drengirnir mínir verði ekki eins og gráir kettir á heimilum þeirra félaga sinna þar sem aðgangur að tölvunum er frjálsari en hjá mér.

Kannski er þetta öðruvísi hjá stelpunum - ég veit það ekki.  Í kringum mig er þetta bara of algengt - þ.e.a.s strákar sem vilja helst ekkert annað gera en að vera í tölvuleikjum.    Mínir eru allavega gangandi dæmi um svoleiðis gaura og ég er ekki sátt við þessa þróun.  Ég veit heldur ekki alveg hvernig ég á að bregðast við henni - mér finnst eiginlega verst ef það vill enginn koma hér af því að tölvurnar eru ekki aðgengilegar.

Kv húsmóðir með tölvuáhyggjur

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Ágústa Bjarnadóttir

hæ hæ, mig langar aðeins til að segja frá því að á okkar heimili eru strangar reglur með tölvuleiki og tímann sem fer í að sitja við tölvuna,og það kemur nokkuð oft upp á síðkastið að því sé mótmælt,og oft þegar vinir eða vinkonur eru með,það er yfirleitt spurt má ég eða við fara í tölvuna ? en nei er svarið,þið getið verið úti eða verið með allt þetta dót sem er til,það er gott veður úti og það er sumar,en sem betur fer þá er dóttirin mikið fyrir að vera úti við en það mæðir mikið á mömmuni þegar vinir og vinkonur koma með heim,en það eru ekki allar vinkonur dóttur minnar sem hvísla,eigum við að fá að fara í tölvuna,´hún á eina frænku sem ég veit um að þar gilda líka reglur um tölvunotkun,svo þú Birgitta mín ert ekki sú eina sem hefur áhyggjur af sívaxandi tölvunotkun barna,langaði bara að segja frá okkar reynslu

kv frá fjölsk

Anna Ágústa Bjarnadóttir, 3.7.2008 kl. 08:55

2 Smámynd: S Kristján Ingimarsson

Mín skoðun er að það sé gott að takmarka tölvunotkun hjá börnum og þó að krökkum kunni að finnast þetta óréttlátt, þá verða reglur sem þessar og agi innan skynsamlegra marka til þess að afla foreldrum virðingar þegar fram í sækir.

S Kristján Ingimarsson, 3.7.2008 kl. 22:57

3 identicon

Stelpur eru ekkert skárri skal ég segja þér :) hef reynsluna :) og hvað varðar playstasion þá takmarka ég tímann hjá mínum krökkum :) ég keypti ekki þessa tölvu handa þeim og hún væri sennilega ekki til á mínum bæ ef ég hefði fengið að ráða en þú getur verið alveg róleg ef að frændur mínir koma til mín þá mun ég passa uppá tölvutímann er svooo sammála þér þú ert ekki eina grýlan he he við erum fleiri með þessi vandamál takk fyrir kaffið í gær :)

Lillý (IP-tala skráð) 3.7.2008 kl. 23:25

4 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Oh my god hvað ég skil þig. Já, krakkar kunna ekki að leika sér eins og við gerðum, í skotbolta, "teyjó", fallinni spýtu, við kofabyggingar, kíló og allt það, en ætli við hefðum verið svona dugleg við úti-iðju ef svona spennandi hlutir eins og tölvur, leikjatölvur, DVD, internet og annað hefði verið til þegar við vorum lítil? Það var ekki einu sinni til video heima hjá mér og RÚV var ekki með útsendingar allan júlímánuðinn...... svo það var lítið annað að gera svo sem.

Hins vegar þekki ég þetta vandamál frá syni mínum, hann og vinir hans geta setið endalaust yfir PlayStation á veturna, en sem betur fer eru þeir líka fótboltafrík, svo mestur tíminn á sumrin er nýttur utandyra á fótboltavöllum ÍR..... sem betur fer því það er komin svolítil "hrútalykt" af þessum gæjum á þessum aldri.... 

Lilja G. Bolladóttir, 4.7.2008 kl. 08:42

5 identicon

Ekki gefast upp á þessu....vertu ströng með tölvunotknunina fram í rauðan dauðann.... Tölvubörn verða lin og pirruð og félagslega bæld og ég þekki því fjöldamörg dæmi því miður....

Hang in there!

Norska mágkonan (IP-tala skráð) 4.7.2008 kl. 15:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

kona á besta aldri

31 dagur til jóla

Höfundur

Húsmóðir
Húsmóðir

Mál dagsins

Áttu kolagrill ?

Matarblogg

Uppskriftir og hugleiðingar um mat úr ýmsum áttum

  • Matarblogg
    www.mataraedi.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband