Færsluflokkur: Bloggar

Þá fer ég að heiman

lýsti SÁ yfir í frekar höstugum fýlutón við kvöldmatarborðið þegar hann fékk því ekki að ráða því hvað yrði í kvöldmatinn annað kvöld.  Móðirin hafði sett fram tvo kosti og JA valdi annan þeirra en bróðir hans vildi fá eitthvað annað.

 Móðirin er frekar kaldlynd og lét sér ekki bregða við fréttirnar, brá ekki einu sinni svip þegar sonurinn endurtók fréttirnar um að hann færi að heiman OG tæki PS2 leikina með sér. 

Eftir litla stund ákvað strákur að taka sönsum, hætti við að fara að heiman og var sáttur við að mega ráða hvað yrði á matseðlinum á föstudagskvöldið.

Fimmtudagskvöld :  skyr með rjómablandi

Föstudagskvöld :  súpa með beikonbitum

Er að hugsa um að bjóða pabbanum að ráða laugardagskvöldinu, reyndar með því skilyrði að hann eldi líka  Halo   

 


Uppáhalds norska mágkona

á afmæli í dag.  W00t

Til hamingju með daginn mín kæra.  

kveðja frá átvöglum, vettlinganögurum og naggrísum í Grindavík


Ronaldo orðinn pabbi

Í dag, þriðjudaginn 03 febrúar varð Ronaldo stoltur faðir.  Félagi hans, Birgitta, eignaðist tvo unga.  þeir eru báðir sprækir og með rauð augu.  Ekki er vitað hvers kyns ungarnir eru en þeir hafa þegar verið nefndir, Rooney og Ryan Giggs.  Þeim verður endanlega gefið nafn þegar kynið kemur í ljós. 

P.S  Umrædd Ronaldo og Birgitta eru naggrísir.  Ungarnir að sjálfsögðu líka.


að fá það óþvegið

JA ákvað að hann langaði aftur að æfa fimleika.  Við kíktum við hjá þjálfaranum í gær og strákur mátti byrja strax.  Mamman ákvað að sitja og horfa á tímann.

Þetta er blandaður hópur, strákar og stelpur saman.  Börnin voru að gera kollhnís þegar ein daman snýr sér að mömmunni og segir í stríðnistón " far  þú kollhnís núna "  ég ætla að fara opna munninn og stynja upp einhverri afsökun þegar sonurinn grípur framm í  " hún getur það ekkert, hún er svo spikfeit "   Þá var það útrætt og sú stutta kom ekki fram með frekari kröfur.  ( Þó svo ég sé vissulega í yfirvigt og geti hvorki farið í splitt né spígat þá get ég vel farið í kollhnís )

Í kvöld stóð svo pabbinn uppi í stofusófanum ( var að loka glugganum ) og ákvað að hafa smá sýningu í leiðinni, enda var Eurovision undankeppnin í gangi.  Þá heyrist úr hinum stofusófanum ( JA ) " hætt essu pabbi, þú getur brotið sófann "  Ha sagði pabbinn, hvað meinarðu  ( grunaði svo sem hvað kæmi næst ) Já þú ert allt of feitur, sófinn gæti brotnað !

Við hjónin erum sem sagt búin að fá það óþvegið um helgina - og allur sunnudagurinn eftir Frown 

P.S  ætli ég verði ekki að baka eitthvað á morgun svo vesalings barnið hafi geti tekið nesti með sér í skólann og þurfi ekki að naga vettlingana sína meir


kreppa ?

Annar sonurinn hefur tekið upp á þeim leiða ósið að naga gat á vettlingana sína.  Frá áramótum eru allavega tvenn pör orðin útnöguð og götótt  Devil 

Sami sonur er heldur ekkert sérlega passasamur á fötin sín og 2-4 sinnum í viku fer ég inn í anddyrið á stofunni hans til að sækja vettlinga og húfur. ( og allt annað sem hann skilur eftir )  Í morgun verð ég samferða stráksa inn í stofu, hann fer að klæða sig úr og ég að leita í óskilamunum.  Hef eitt par af vettlingum upp úr krafsinu, útnagað. 

kennarinn sem er þarna staddur spyr " eru þetta ekki nýir vettlingar " ?  Ég jánkaði því og bætti við að þetta væri annað parið síðan um áramót sem hefði fengið svona "nagað útlit "

Þá heyrist í stráksa,  sem er að hengja upp úlpuna sína, með hneykslun í röddinni : " já ég fæ alltaf svo lítið nesti með mér  "  

Vesalings barnið sem fær ekki nóg að borða og þarf að naga vettlingana sína Blush 

 


íslensk tunga lærist víða

Ég sem mikill bókaormur hef gert töluvert af því  að lesa fyrir bræður og flest kvöld vikunnar er lesin saga fyrir svefninn.   Notaleg stund fyrir alla.  JA hefur alltaf verið duglegur að spyrja þegar hann heyrir orð sem hann ekki skilur.  í fyrradag var t.d. spurt, hvað er kúbein ? 

Hinn sonurinn hefur aldrei spurt. 

Bræður fengu mp3 spilara í jólagjöf og er óhætt að segja að spilararnir séu mikið notaðir, bæði til að hlusta á tónlist, leikrit og sögur.  Bara hamingja og allir ánægðir.   það er greinilegt að eitthvað síast inn því hinn sonurinn er nú farinn að spyrja, "mamma hvað er kvalinn ?  eða " hvað er að svífa " ?  Þetta er hið besta mál.

 íEn það er ekki allur fróðleikur jafn skemmtilegur  : JA sönglar hina ýmsustu lagstúfa þessa dagana og sá sem heyrist oftast er svona :

" stubbarnir syngja og dansa makarena, þúúúú ert belja með spena "    Ekki mjög skemmtilegt en þetta rímar Woundering    Annars ætla ég ekki að voga mér að segja eitt styggðaryrði um þennan lagstúf.  Sonurinn söng nefnilega "fullorðins" útgáfu af þekktri barnagælu í kvöld.

" afi minn og amma mín

út á bakka búa

afi girðir niður um sig

og amma ................... a "

Ég vil helst ekki heyra fleiri svona útgáfur Blush

JA var boðið í afmæli til bekkjarfélaga en SÁ var heima.  fékk að fara í PS2 tölvuna á meðan.    Svo kom JA heim úr afmælinu og bræður fóru að bera saman bækur sínar

"mér finnst óréttlátt að hann fékk kökur, nammi og kók meðan ég fékk ekki neitt "

" mér finnst óréttlátt að hann fékk að fara í PS2 tölvuna en ekki ég "

Það er stundum erfitt að vera til.

 


Er hér ennþá

hef samt enga sérstaka löngun til að blogga - kannski því mér finnst ekkert fréttnæmt í mínu lífi þessa stundina.

Slæmar fréttir um mótmælim, kreppu og illvíg veikindi allsráðandi í fjölmiðlum.  Finn að þetta dregur mann niður.  Held þó alveg haus en veit ekki um neinn sem þetta hefur ekki einhver áhrif á.  Við erum öll mannleg.

Janúar hefur haft frekar stífa dagskrá hjá mér, hin daglega vinna og umsjón með heimili og börnum tekur sinn tíma .  Svo þegar bræður eru komnir í rúm þá tekur heimavinnan ( bókhald sem ég færi heima ) við fram undir miðnætti.  Þetta er dáltítið stíft og í dag ákvað ég að gera ekki neitt.  Það þýðir akkúrat það.  Enda sést það á heimilinu. Blush  Meðan ég rembist við samviskubitið yfir því að gera ekki neitt reyni ég að hvíla mig.  Myndu karlmenn hugsa svona ?  nei - aldrei.  Ætli ég verði því ekki á harðaspani á morgun við þrif og tiltekt ? ekki ólíklegt.

Bræður eru í fínu formi - gengur vel í skólanum og sækja fótboltaæfingar samviskusamlega.  Hinir vikulegu vitnisburði kennara eru með mestu ágætum og sá sonurinn sem sækir aukatíma í lestri sýnir framfarir í hverri viku.  

Skólalóðin er að sögn bræðra harður heimur og öðru hvoru fæ ég að heyra sögur af illa innrættum krökkum sem hrinda, kasta snjóboltum og slá " bara út af engu ".  En að sögn eru bræður með geislabaug Halo og dytti ekki í hug að gera slíkt hið sama.  JA lenti í hremmingum í vikunni þegar "einhver stelpa hrinti honum og ætlað að kýla hann á einkastaðinn, í sprellann á mér "   Ég fór að spyrja hann nánar út í þetta og hvort þetta hefði verið stór stelpa  ?  " nei , lítil, einhver fyrsti bekklingur " svaraði strákur, frekar móðgaður yfir þessu virðingarleysi við ´hæstvirtan annars bekkjar nema. 

Bræður fóru í 2 afmæli í vikunni,  fyrst hjá einum varð 7 ára í desemberlok en heldur veislu fyrir vinina í janúar.  Svo daginn eftir var annar að halda upp á 8 ára afmælið sitt.  þetta var bara fjör, eina sem var svekkjandi var að þurfa að fara í betri föt.  OG að  mamman skyldi skikka þá til að fara í sturtu á föstudeginum fyrir afmælið þá.   

Fésbókin er tímaþjófur, vitið þið það ?      


Bloggleti og önnur leti

Nenni ekki að blogga - ætti kannski að eyða minni tíma á félbókinni

Nennti ekki að taka niður jólaskrautið fyrr en á föstudagskvöldið og jólatréð var ekki tekið niður fyrr en í gær Blush.  Útiserían er ennþá uppi.  EN - til að draga aðeins úr þá eru kassarnir með jólaskrautinu OG jólatrénu komnir á sinn geymslustað úti í skúr.

Sé fram á mikla vinnu á næstunni - alltaf nóg að gera hjá bókurum eftir áramót.  Þá dugar engin leti.

Bræður eru hundlatir þessa dagana - nenna ekki að vera byrjaðir í skólanum, nenna ekki að læra, nenna ekki að leika sér úti og nenna alls ekki að koma sér í rúmið á skikkanlegum tíma.   Ég var ekki í uppáhaldi hjá bræðrum í gær þegar kom að fyrsta heimalærdómnum á nýju ári.  Devil 

 SÁ skrapp til vinar síns í gær, sem býr í þarnæstu götu.  Hann átti að vera komin heim klukkan sex.  Hann nennti ekki að muna það. " æ mamma, getur þú ekki látið mig fá síma og hringt svo bara þegar ég á að koma heim "   Ég hélt nú ekki.  Klukkan 18,40 bankaði ég upp á hjá vininum og sótti kauða.  Auðvitað mundi hann ekki / eða nennti ekki að muna að hann ætti að koma heim.  

Hef ekki farið út fyrir hússins dyr í dag - hef þó fylgst með veðurspá og horft út.  Það verður kalt á morgun og hált að keyra.    Nenni ekki að blogga meira.  Góða nótt

 


Kung-fú eða tófú ?

 JA að horfa á teiknimyndina Kung-fú panda.

" mamma, hvað er tó fú , er það eitthvað svipað og kung-fú " ?

 


Helvítis fokking fokk

Horfðum á endursýninguna á áramótaskaupinu og þetta er eina atriðið sem bræður mundu eftir.    Þeim finnst þetta skelfilega fyndið og þurfa að rifja þetta upp öðru hvoru. 

Annars langar mig að helst að segja þetta líka - upphátt.  Bræður eru nefnilega ekki sofnaðir ennþá.  Ég vakti þá klukkan níu í morgun og þurfti að hafa fyrir því.   Ætla að vekja þá klukkan átta í fyrramálið og vona að þeir nái að sofna eitthvað fyrr annað kvöld.  Skóli samkvæmt stundaskrá byrjar klukkan átta á mánudagsmorguninn Pinch  Mig hlakkar ekkert sérstaklega til að vekja þá bræður á mánudagsmorguninn , sérstaklega þar sem þeir finnst ekkert tilhlökkunarefni að byrja aftur í skólanum.

Ég verð fegin þegar dagleg rútína kemst á aftur.  Verð fegin þegar ró kemst á bræður og þeir fara að fá útrás í íþróttum, verð fegin þegar stórsteikurnar víkja fyrir léttara fæði.   Mig hlakkar hins vegar ekki til að fara að smyrja nesti aftur. Whistling

Bakaði gasalega girnilegt maltbrauð í dag og smákökur (orkubombur) sem ég ætla að leggja fram á fjölskyldukaffiborð á morgun.   Þarf sennilega á róandi að halda eftir hádegi, er nefnilega búin að lofa öðrum syninum að fara í Smáralind og kaupa skyrtu.  Og útsölurnar nýbyrjaðar - úff það verður fjör.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

kona á besta aldri

120 dagar til jóla

Höfundur

Húsmóðir
Húsmóðir

Mál dagsins

Áttu kolagrill ?

Matarblogg

Uppskriftir og hugleiðingar um mat úr ýmsum áttum

  • Matarblogg
    www.mataraedi.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband