Færsluflokkur: Bloggar
14.4.2009 | 17:08
versti dagurinn
í gær var versti dagur lífs míns sagði JA í morgun, alvörugefinn á svip. Ég forðaðist að horfa framan í drenginn, mömmur eiga ekki að hlægja að svona athugasemdum sem 7 ára strákar setja fram í fyllstu alvöru. Mér fannst þetta fullmikið drama.
Seinnipartinn í gær fékk strákur nefnilega högg frá golfkylfu í andlitið Bróðir hans sem ætlaði aldeilis að sýna færni sína í golfi var svo óheppinn að slá bróður sinn í andlitið. Betur fór en á horfðist og eftir góða kælingu virðist höggið ekki hafa önnur eftirköst en bólgna og marða kinn. En raunum stráksa var ekki lokið. Þegar verið var að gera sig kláran fyrir svefn kom í ljós að strákur var með flís í hendinni. Eftir nokkrar stungur og misheppnaðar tilraunir við að ná flísinni voru tárin
farin að spýtast úr augunum á stráksa og var ákveðið að setja bara plástur á og fara að sofa. Strákur var fljótur að samþykkja það, skreið upp í rúm og var sofnaður áður en var hægt að telja upp að tíu.
Fyrri hluti dagsins var nú ekki svo slæmur. Bræður horfðu á teiknimyndir fram að hádegi - klæddu sig seint og um síðir, fóru svo út og voru búnir að afreka ýmislegt fyrir óhapp, fara í fótbolta á sparkvellinum, leika við frænda og eflaust fleiri vini, príla inn í garða hjá ókunnugu fólki og upp á þak hjá Hárgreiðslufrænku og nágrönnum hennar
Bræður þurftu svo að vera einir heima fram að hádegi. þeim fannst það ekkert leiðinlegt, voru komnir á fætur um hálf átta, sátu við að borða morgunverð þegar ég fór í vinnuna um kl átta en voru komnir í tölvuleiki fljótlega eftir það og sátu ennþá við tölvuna þegar pabbi kom heim í hádegismat. Tóm hamingja.
En nú er páskafríi lokið og skóli á morgun. Bræður eru ekkert allt of ánægðir með það. Geta þó glaðst yfir því að það eru ekki miklar líkur á að þurfa að fara aftur í stígvélum í skólann.
Mér fannst dálítið erfitt að vakna í morgun - hef ekki sofið svona mikið síðan á síðustu öld. Er reyndar líka búin að viðra mig og hjólið aðeins. Meðan móðir mín elskuleg snurfusaði húsið að innan var karl faðir minn í bílskúrnum og lagfærði bæði fullorðinshjólin svo nú getur bæði yngra og eldra settið á heimilinu farið út að hjóla.
Fékk smá dugnaðarkast í gær, tók fram saumavélina og stytti einar strákabuxur, ætlaði að stytta aðrar en strákur gat ekki með nokkru móti staðið í þeim stórræðum að máta TVÆR buxur sem hann ætlaði sér ekki einu sinni að vera í. Ég fæ hann vonandi til að máta þær á morgun.
Bakaði líka smávegis og ef græðgin í karlkyninu á heimilinu fer ekki á yfirsnúning þá verður eitthvað til í nestisboxin hjá bræðrum á miðvikudag.
ætla ekki á Hammondhátíð - tímasetningin ekki hentug en stefni ótrauð á næsta ár.
Sparnaðarkjötbollur í matinn á eftir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.4.2009 | 10:49
Lyklabörn, páskar, ferming og allt hitt
Bræður eru orðnir lyklabörn, eða svona næstum því. Búið er að stytta tímann í skólagæslunni og nú þurfa bræður að labba sjálfir heim, eða á íþróttaæfingu eftir skóla. Búið að leggja bræðrum lífsreglurnar með útidyralykilinn, hvar og hvernig eigi að geyma hann í skólatöskunni og taka nokkrar kennslustundir í að kenna þeim að nota lykilinn. Hurðin getur nefnilega verið dálítið stíf.
Bræður voru einungis lyklabörn í tvo daga og svo kom langþráð páskafrí. Bræður hafa verið svo hamingjusamir yfir því að vera páskafríi að þeir hafa ekki getað hugsað sér að eyða því í svefn. Hafa fengið að vaka til 10 hvert einasta kvöld en hafa yfirleitt verið vaknaðir um klukkan 7 á morgnanna, foreldrum til ómældrar gleði. Afi og amma að austan voru hjá okkur fyrir páskana og sáu til þess að foreldrar gætu stundað sína vinnu ótrufluð. Bræðrum fannst það nú ekki leiðinlegt og fannst hálf fúlt að þau skyldu voga sér að vera á höfuðborgarsvæðinu í 3 daga og EKKI gista heima hjá okkur.
Fótboltafrænka staðfesti skírn sína á pálmasunnudag (les=fermdist) og var ættingjum og vinum boðið til veislu af því tilefni. Bræður voru nú ekki alveg á því að fara til kirkju en létu sig hafa það ( enda ekki völ á öðru ) og þótt það væri erfitt að sitja kyrr svona lengi þá tókst það og var hegðunin alveg innan velsæmismarka. Fótboltafrænka var ofboðslega falleg í kjólnum sínum og veislan var akkúrat að mínu skapi. Góður matur ( mjög mikilvægt ) - notalegt og afslappað andrúmsloft og alveg sérstaklega skemmtilegir gestir . (Verð að taka það fram þar sem ég átti svo marga ættinga í salnum ) Veislan á næsta ári lofar sem sagt góðu
Afar og ömmur gáfu ekki páskaegg þetta árið, en gáfu páskagjafir í staðinn. Í staðinn fyrir ómælt magn af súkkulaði eiga rúmlega 7 ára strákar nú síma og fótboltamöppur og eru alsælir með það. Nokkrum dögum fyrir páska fengu bræðurnir síma sem hafa nánast verið grónir við hendina. Þeir eru orðnir snillingar í leikjunum og í staðinn fyrir að taka bækur með sér í rúmið þegar á að fara að sofa þá eru spilaðir tölvuleikir. Sérstaklega spennandi.
Hitt afa og ömmu settið kom í heimsókn áðan með dýrindis fótboltamöppur í stað páskaeggja. Bræður voru alsælir og alveg sammála um að möppurnar væru betri en páskaegg. Með möppunni fylgdu myndir og búið er að raða öllum Liverpúl köllunum saman, öllum Manchester köllunum saman, öllum Chelsea köllunum saman og svo framvegis. Morgunmaturinn ( páskaegg) hefur verið snæddur í rólegheitunum í morgun yfir teiknimyndum og nú ætla feðgar að toppa rólegheitin með þvi að horfa á Indiana Jones. Veit ekki hvað ég geri - er búin með allt lesefnið sem ég sankaði að mér fyrir páska
Tölvan mín í lamasessi - komin með nýtt vinsluminni og búið að vírushreinsa og laga til en dugar samt ekki þarf að heimsækja tölvukallana áftur eftir helgi.
Hef sofið alveg ótrúlega mikið og vel yfir páskana en gæti samt sem áður skriðið upp í rúm og lagt mig núna. Geri það kannski meðan feðgar horfa á Indinana Jones. Hef lítið annað að gera þar sem elskuleg móðir mín tók sig til og þvoði þvott, þurrkaði ryk tók til svo ég gæti haft það gott um páskana. Enginn smá lúxus. Best að njóta þess í botn þar sem páskafríið er farið að styttast töluvert í annan endann.
Bið að heilsa í bili - húsmóðirin sem sefur og sefur........
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.3.2009 | 23:48
kreppa í Ikea ?
Ég sem ætlaði að blogga heil ósköp um skemmtilega helgi en gamalt fólk eins og ég þarf sinn svefn svo þetta verður nánast ör-blogg.
Fjölskyldan var á faraldsfæti um helgina og gisti m.a í Hafnarfirði. Á annars þéttskrifaða dagskrána kom óvænt ferði í Ikea. Það átti annars ekki að kaupa neinn óþarfa - bara glös. En um leið og við fórum fram hjá Ikea restaurant urðu allir fjölskyldumeðlimir mjög svangir og ákveðið var að fá sér að borða. Sérlega hagsýn ákvörðun þar sem matur fyrir yngri en 10 ára var ókeypis þessa helgina. Málsverður fyrir 4 ( með gosi ) kostaði 1.570 krónur og enginn fór svangur út. Gott verðlag í kreppunni enda voru nánast flest sæti upptekin og nóg að gera.
Fjölskyldan gekk hratt með húsbóndann í fararbroddi - ég dróst aðeins aftur úr - var að skoða rúm í barnadeildinni en stefnan er að bræður fái ný rúm fyrir haustið. JA sem var með mér leit á verðmiðann á einu rúminu" tuttuguogsexþúsundsjörhundruðfjörutíu" las hann nokkuð örugglega af verðmiðanum. Svo stikuðum við áfram til að ná pabba og bróður sem voru komnir nokkuð á undan. Strákur var enn með hugann við rúmið " Vá hvað þetta er dýrt sagði hann og spurði svo : kosta rúm svona mikið ?" ég hélt það nú og strákur þagnar. Rétt á eftir heyrist taut í mínum #djöfu**** kreppan "
Ég er handviss um að hann átti ekki við verðlagið á matnum !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.3.2009 | 22:39
Ný kona keypt fyrir Rónaldó
Það verða sko stígvél á morgun, bræðrum ekki til neinnar sérstakrar hamingju. Búið að sjóa í dag og snjórinn situr sem fastast. En svona er lífið. Stundum erfitt og stundum ekki.
JA fannst það allavega erfitt um daginn þegar hann þurfti að taka út refsingu - eins dags tölvubann. Honum þótti frekar súrt að horfa á eftir bróður sínum inn í herbergið þar sem leikjatölvan er geymd og kreisti fram nokkur krókódílatár í fangi mömmu. " uhu uhu - þetta er svo leiðinlegt líf " Vesalings barnið.
Rónaldó ( hamstur ) var lukkunnar pampíll á laugardaginn þegar hann losnaði við klefafélagann sem reyndist eftir allt vera karlkyns - og nýr klefafélagi - kvenkyns í þetta skiptið - kom í staðinn. Húsbóndinn sem var að leika sér í Reykjavík á laugardaginn kom við í hamstrabúð á heimleiðinni og keypti nýja konu fyrir Rónaldó. Rónaldó var bæði glaður og gxxður að sjá nýja klefafélagann og bræðrum fannst undarleg öll þessi "slagsmál" sem áttu sér stað í búrinu þegar naggrísirnir voru að kynnast.
Var ekki ofurhúsmóðir í dag - bakaði þó smávegis og þvoði slatta af þvotti. Fór varla út úr húsi um helgina - rétt í búðina og svo út í bílskúr til að heilsa upp á hina nýju frú Rónaldó sem fær sennilega að halda Rósunafninu.
Styttist í skattaskýrsluna - klára hana í vikunni.
Ægileg hamingja með hunangsseríosið -
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2009 | 23:39
Ohhhh þá er ekki hægt að vera í skóm
sagði hundsvekktur sonur við kvöldmatarborðið þegar hann sá hvítu kornin sem fuku til og frá. Meðan sumir landshlutar hafa verið við það að kaffærast í snjó hafa bræðurnir verið alsælir því þessa vikuna hafa þeir geta farið á venjulegum íþróttaskóm í skólann. Strákar eru orðnir hundleiðir á því að vera í kuldastígvélum og geta hvorki hlaupið almennilega né klifrað. En þegar er miður mars er ennþá vetur og þegar er ennþá vetur þá má alltaf eiga von á snjó.
Foreldrarnir hafa tekið ákvörðun um að stytta viðverutíma bræðra í skólagæslunni allverulega. Sú breyting tekur gildi 1 apríl. Nú þurfa bræður að labba sjálfir heim - koma sér á æfingar og svo koma dagar þar sem þeir þurfa að vera einir heima í smá stund. Þeir bíða spenntir og eiga erfitt með að skilja að þetta geti ekki tekið gildi strax. Mamman er dálítið stressuð yfir þessu - aðallega vegna þess að þeir þurfa að fá sitthvorn húslykilinn og spurning hvað líður langur tími þar til lyklum verður tínt Það er heilmikið þroskastökk fyrir mig að hætta að vera bómullarmamma og ætla að fara að treysta bræðrum í að sjá um sig sjálfir og hafa lykil um hálsinn. Úff.
Styttist í Kardimommubæinn - held að ég eigi erfiðast með að bíða. Bræður eru allavega pollrólegir ennþá. Svo eru boðskortin fyrir fertugsafmælin farin að streyma inn. Nóg framundan í þeirri deildinni. Einnig á frúin 20 ára stúdentsafmæli í júní og þar er búið að skipuleggja 4 daga veisluhöld. Daginn eftir að þeim veisluhöldum lýkur er komið að 3 daga fótboltamóti. Hvernig á háaldrað fólk eins og ég að hafa orku í allt þetta ?
Annars er allt og ekkert að frétta. Allir eru í fínu formi. Einn sonur ætlar að horfa á fótbolta á morgun - pabbinn ætlar að leika sér við vin sinn í Reykjavík. Veit ekki hvað hinn sonur gerir. Reikna með að ég skemmti mér hér heima við að þrífa og þvo
P.S Bæði eiginmaður og synir verða afskaplega hamingjusamir í fyrramálið. Aldrei þessu vant keypti ég hunangsserios - Verð örugglega kosin besta eiginkonan og besta mamman. Ekki spurning.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.3.2009 | 13:22
Stundum...............
Smá speki - sem ég stal af öðru bloggi
Stundum....
Stundum þegar þú grætur sér engin tárin.
Stundum þegar þér er illt, sér enginn að þér sé illt.
Stundum þegar þú hefur áhyggjur, sér engin þín áhyggjuefni.
Stundum þegar þú ert hamingjusamur, sér engin að þú brosir.
En rektu við bara einu sinni og allir vita það.
Þarna plataði ég þig! Þú hélst að þetta væri ein af öllum þessum sorlegum sögum mhúhahaha!!
sá þetta hérna og varð að deila þessu með fleirum
Eigið góðan dag
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.3.2009 | 18:02
Engar fréttir eru góðar fréttir
kannski þess vegna sem frúin finnur ekki hjá sér neina þörf eða löngun til að blogga. það er allt við það sama - við erum svo stálheppin að fara til vinnu á hverjum morgni og að mestu leyti það heilsuhraust að geta stundað okkar vinnu sómasamlega. Fyrir það erum við líka mjög þakklát.
Eins og venjulega eru bræður í fínu formi - annar þeirra er reyndar með hor í nos en ég hef trú á að það verði ekkert meira úr því. 7-9-13 Kennararnir eru flestir sáttir við þá bræður fyrir utan íþróttakennarann sem segir JA í hópi þeirra sem ekki virði hegðurnar og umgengnisreglur. ( lesist = óhlýðinn og dónalegur í tilsvörum ) Þetta er reyndar bara einangrað tilvik og á eftir að koma í ljós hvort framhald verður á óhlýðninni.
Blóma og býfluganfræðslan hefur ekki átt sér stað ennþá. Ég er aumingi. Þetta bíður því betri tíma og ég verð örugglega fyrirtaks foreldri þegar rétti tíminn kemur.
Efast ekki um það.
Um síðustu helgi fórum við hjónakornin á árshátíð með vinnunni minni. Bóndinn kom með síðbúna konudagsgjöf í því tilefni - nótt á hóteli. Skemmst frá því að segja að við áttum stórkostlegt kvöld og við skemmtum okkur bæði mjög vel. Kom mér á óvart hvað ég átti skemmtilega vinnufélaga
Við skemmtum okkur það vel að heilsufarið daginn(dagana) á eftir var skemmtunarinnar virði. Og þá er nú mikið sagt.
Bræður kepptu nokkra æfingaleiki við Keflvíkinga í síðustu viku og gekk vel - unnu einhverja leiki en töpuðu einhverjum. Allt voru þetta flottir strákar sem hefur farið mikið fram. Gaman að sjá tæknilegu framfarirnar en ekki síður það sem snýr að þroska og viðmóti hvers og eins. Það hefði mátt halda að ég ætti 15 stráka á vellinum en ekki 2, ég var svo stolt. Sama dag var svo hið mánaðarlega opna hús hjá flokknum. Þó svo ég sé tiltölulega ný í fótboltamömmuhlutverkinu þá held ég að yngri deildir fótboltans í umfg séu sérlega heppnar með þjálfara. Hann er ekki bara að byggja upp boltatækni hjá strákunum heldur leggur hann mikla áherslu að skapa góðan anda og liðsheild.
Við bræður fórum í Bónus í gær og ákváðum að heimsækja Skessuhellinn að því loknu. það fór eitthvað lítið fyrir karlmennskunni hjá þeim bræðrum og þeir þorðu ekki mörg skref inn í hellinn.
Foreldrarnir eru að taka sig taki í því að drekka meira vatn. Í því skyni hefur vatnsflöskum í ísskápnum fjölgað og SÁ spurði af hverju það væru svona margar flöskur í skápnum. Mamman sagði - nokkuð ánægð með sig- að hún og pabbi ætluðu að reyna að drekka meira vatn og minna kaffi. Vatn væri hollt og kaffi væri óhollt. Sá stuttu var bara ánægður með foreldrana en bætti svo við " þá verðið þið líka mjóari " Mér fannst þetta algjör óþarfa komment
Rólegheitadagur í dag - alltof kalt til að fara út en sá stóri lét sig hafa það og vann við bílskúrsþakið í tæpa tvo tíma. Bræður bjuggu til hús úr teppum, koddum og dýnum, flugust á og gerðu leikfimisæfingar. Fengu svo að fara í tölvuna í góða stund en hanga núna fyrir framan sjónvarpið. Mamman búin að þvo og ganga frá haug af þvotti, snurfusa eldhúsið, gera við slatta af saumsprettum og baka smávegis svo eitthvað verði til í nestisboxin næstu vikuna. Pabbinn verðlaunaði sig eftir smíðina með því að skreppa í heimsókn og horfa á fótboltaleik.
Ætli ég fari ekki að elda eitthvað núna - einhvers konar kúrekakássu úr hakki og bökuðum baunum. kemur í ljós hvernig hún verður. kv í bili - húsmóðirin
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2009 | 23:43
þetta með blómin og býflugurnar..........
Nú er það skemmtilega verkefni framundan ( eða þannig ) að útskýra fyrir bræðrum þetta með blómin og býflugurnar. Þetta er svona eitt af þeim verkefnum sem maður hefur hummað fram af sér í einhvern tíma en samkv skilaboðum sem ég fékk úr skólanum í dag þá er tíminnn runninn upp. Ég spurði vinnufélaga að þessu einhvern tímann, 4 barna móður, hver væri besta leiðin til að koma þessum fróðleik á framfæri við börnin . "iss þetta er ekkert mál " sagði hún, maður segir bara, spurðu pabba þinn
Þetta verður frólegt.
Bakaði ekki bollur, bakarinn er hvort eð er miklu flinkari við það en ég. Ætla heldur ekki að elda saltkjöt og baunir - vinn með fólki sem er með gráður í svoleiðis stússi. Svo finnst mér þetta heldur ekki gott.
Reyndi að kenna öðrum syninum tillitsemi í kvöld - þegar hann var að tala um hvað mamma sín væri spikfeit. Mömmu þætti leiðinlegt þegar hann væri að segja svona við sig. Strákur horfði á mig með skilningsleysi í svipnum " en mamma þú ert það, þú ert spikfeit " Ég horfi nú alveg í spegil og veit að ég er í yfirþyngd en samt........... stráksi þarf greinilega á öðrum tíma í tillitssemi að halda.
" mamma hvað ertu alltaf að skoða á þessu feisbúkk " ? - þýðir það að maður ætti að róa sig aðeins á fésbókinni ?
kv húsmóðirin sem er að fara að smyrja nesti fyrir morgundaginn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.2.2009 | 22:07
Loksins blogg
eða hvað.
Frúin er allavega sest fyrir framan maskínuna og ætlar að sjá hvort eitthvað af viti kemur fram. Er nú ekkert viss um að svo verði. Löngunin til að blogga lætur eitthvað á sér standa. það er greinilegt að frúin er farin að eyða of miklum tíma inni á fésbókinni
Engar fréttir eru góðar fréttir segir einhvers staðar. Hef ekki haft löngun til að blogga enda ekki frá neinu að segja. Gamla settið vinnur, borðar og sefur meðan yngra settið lærir, stundar fótbolta og fimleika , borðar og sefur.
Hr Rónaldó(naggrís) er kominn með nýja konu - Birgitta (naggrís) er dáin Rónaldó var nú nokkuð sama og æstist allur upp við nýju konuna ( hana Rósu ) sem er bæði yngri og grennri en fyrrverandi. Húsbóndinn á mínu heimili gerðist því nýja mamman þeirra Rooney og Ryan Giggs ( naggrísabarna ) og stendur sig með sóma. þeir drekka mjólk úr sprautu 2-3 á dag og fá þar að auki þurrmat og grænmeti.
Bræður eru nokkuð duglegir að aðstoða við naggrísina og hafa það hlutverk að gefa grænmeti einu sinni á dag.
Bræður hafa greinilega töluverða trú á tungumálahæfileikum móður sinnar og hafa m.a. spurt hvort hún tali "ítalensku" (ítölsku) "frakklensku" (frönsku) og nú í kvöld "rússlensku" (rússnesku ) SÁ varð hálf dapur yfir því að mamma sín talaði ekki "rússlensku" því þá gætum við ekki farið til Rússlands. það glaðnaði þó yfir honum þegar ég sagði að margir sem búa í Rússlandi tali líka ensku svo að tungumálaörðugleikar ættu ekki að standa í vegi fyrir því. Reyndar veit ég ekki af hverju honum datt í hug að ferðast til Rússlands. Hef hann helst grunaðan um að langa til Moskvu með Jóhönnu Guðrúnu og horfa á Evrovision
Veðurfarið hefur verið í blautara lagi undandanfarna daga. í gær tók ég loksins Stiga-sleðana sem stóðu við húsvegginn ( við hliðina á reiðhjólunum ) og setti þá inn í bílskúr. það passar, það fer að kólna og snjóa mjög fljótlega. Eftir nokkra daga get ég örugglega skipt aftur - sett hjólin inn í bílskúr og tekið sleðana út aftur.
Bræður voru sofnaði óvenju snemma í kvöld. kannski ekki skrítið, þeir voru vaknaðir um klukkan 6, foreldrum til takmarkaðrar gleði. Svo á mánudagsmorguninn hefst svo streðið við að vekja og koma þeim á fætur. Merkilegt með foreldra samt, þeir eru aldrei ánægðir.
Fyrstu árin kvarta þeir og kveina yfir því að þurfa að fara á fætur klukkan 5 og 6 á morgnanna. Svo kemur söngurinn ( sem ég er að syngja núna ) yfir því að það sé svoooo erfitt að koma þessum krökkum á fætur í skólann. Að lokum er svo kveinað yfir unglingunum sem vaka á nóttunni og sofa á daginn.
Aukavinnan hefur tekið sinn tíma undanfarið en gengur vel. þessi tími er álagstími hjá þeim sem vinna við bókhald en ég finn hvað mig vantar sárlega tíma fyrir mig. Stunda hobbý, heimsækja vini og hreyfa mig aðeins. En - það hlýtur að koma að því. Allavega fékk ég smá tíma til að blogga núna
Bið að heilsa í bili - húsmóðirin sem bakaði bæði maltbrauð og muffins um síðustu helgi. Baka kannski meira á morgun
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.2.2009 | 16:05
Fyrir hagsýnar húsmæður og aðra nískupúka
Ekki taka þessu bókstaflega samt !
"Mæta í mat til mömmu og láta hana passa meðan þú ferð í bíó-sem þú nota bene lætur hana borga líka....
Stela glösum af fólki á skemmtistöðum í staðinn fyrir að kaupa þér þitt eigið bús.
Gramsa í tunnuni hjá nágrönnunum.
Stela klósettpappír á almenningssalernum og fara með heim.
Fylla á sápubrúsann í sturtunni í sundlauginni/líkamsræktinni.
Stela blómum æi garðinum hjá nágrönnunum þegar þú þarft að fara í boð og færa einhverjum blóm.
Hringja í fólk og skella á áður en það svara-það hringir svo í þig tilbaka þar sem flestir eru með númerabirtir.
Falsa skiptimiðann í strætó(eru ekki ennþá skiptimiðar annars-svo langt síðan ég hef farið í strætó...)
Sofa allan daginn-þá borðar maður ekkert á meðan.
Skeina sér á fréttablaðinu þar sem það er ókeypis. Líka hægt að notast við einhverjar leiðinlegar bækur sem þú hefur lesið eða nennir ekki að lesa.
Þetta er svona það fyrsta sem mér dettur í hug-er annars ekkert góð í að spara...sorrí... "
"Spara... ég kann leiðir til þess. Ég fer alltaf með konuna og börnin með mér ef ég veit af matarkynningum í Hagkaup, Nóatúni eða öðrum búðum. Búinn að kenna stelpunum að labba alltaf einn hring og fara svo og fá sér aftur, konurnar sem eru að kynna þekkja þær hvort sem er ekki aftur. Annað sem við gripum til, til að spara, var að láta stelpurnar leika sér við þá vini sem matar var von hjá í kringum matmálstíma. Það hefur gefist vel. Síðan er eitt ráð alveg brilljant til að spara í mat, fyrir þá sem búa á Reykjavíkursvæðinu að fara í allar erfidrykkjur sem hægt er að komast í. Þar er alltaf flott bakkelsi og nóg af því og ef vel er borðað þarf ekkert nema ómerkilegt snarl í kvöldmatinn.
Nú, varðandi bílinn, þá seldum við hann. Höfum komist vel af með bílinn hans tengdó og annarra velviljaðra ættingja. Og það sem meira er, þú færð bílinn lánaðan með bensíni og skilar honum svo aftur tómum. Og ekki er nú bensínið ókeypis eða ég tala nú ekki um tryggingarnar. Svo til hvers að vera að eyða í svoleiðis óþarfa ef hægt er að spara sér það?
Fleiri leiðir eru til að spara en ég læt þessi ráð duga að sinni."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
kona á besta aldri
120 dagar til jóla
Mál dagsins
Færsluflokkar
Tenglar
Þetta les ég stundum
vinir og vandamenn
- Norski bróðir
- Sparnaðarráð hinnar hagsýnu húsmóður
- Heiðar
- Bærinn sem ég bý í
- Bærinn sem ég fæddist í
- Hristingsmælingar
- Dr Gunni
Matarblogg úr ýmsum áttum
- Flott og gott Skemmtileg síða sem ég rakst á fyrir tilviljun
- Eva Laufey Kjaran
- Matur sem vinnur gegn krabbameini
- Eldhússögur úr Kleifarseli Svakalega girnilegt
- Síðan hans Axels hjartalæknis
Matarblogg
Uppskriftir og hugleiðingar um mat úr ýmsum áttum
-
Matarblogg
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar