Færsluflokkur: Bloggar

Koma krabbar í mann þegar maður fær krabbamein ?

spurði SÁ við kvöldmatarborðið í kvöld ?  Hann hafði lagt eyrun við kvöldfréttunum þar sem umræðuefnið var hjólreiðamaður sem greindist með krabbamein fyrir nokkrum árum.

Ég gat svarað því neitandi ( meira að segja með alvörusvip á andlitinu ).  Annars er ekki skrítið að bræður spái í krabbamein þessa dagana - jafnaldri þeirra bræðra sem var með krabbamein var jarðsettur í gær. 

Við mæðginin drifum okkur í sund eftir hádegi ( það er gaman að fara í sund í rigningu ) og á leiðinni heim hittum við leikfélaga sem ákvað að koma með okkur heim.  Stuttu seinna bættist einn leikfélagi í hópinn í viðbót og strákar léku sér bæði úti og inni í góða stund.  Spurningin sígilda um leyfi til að fara tölvuna var að sjálfsögðu borin upp en var ( eins og venjulega ) svarað neitandi.   Þá ákváðu strákar að fara út og mér til undrunar fóru þeir út að leika sér - ekki heim til neins annars að fara í tölvu þar.   

Held að ég hafi fengið aukna tiltrú á "strákakynið" aftur - svei mér þá.

Bræður fengu að fara út eftir kvöldmat - verða væntanlega í betra skapi á morgun eftir góða útiveru í dag.  


Urr og Pirr - punktablogg

Var með "skrifræpu " og búin að skrifa heillangt blogg sem hvarf Devil  Svona er að gleyma að vista   Devil

En úrdrátturinn úr því er nokkurn veginn svona :

  • Pabbi er að veiða
  • Ég og bræður vorum í Reykjavík allan föstudaginn - fórum í búðir, nauthólsvík, Góða Hirðinn og heimsókn
  • keypti 6 bækur og legókubba í Góða Hirðinum fyrir 1200 kr - verð alltaf glöð þegar ég geri góð kaup.
  • Fór með Hárgreiðslufrænku og strákunum í bíó í dag - Kung Fu panda.  Ég er gömul og fornaldarleg mamma og hefði viljað sjá færri slagsmálaatriði og meiri söguþráð í myndinni.  Ég veit að Kung Fu er sjálfsvarnar/bardagaíþrótt en þetta var nú barnamynd.
  • Það er búið að rigna nánast í allan dag  - ef það verður rigning á morgun líka er líklegt að ég láti undan tveggja vikna suði um að horfa á Alvin og íkornanna.
  • Mamma undirbýr sig undir að eiga unglinga - bræður eru að verða efnilegir - fara seint að sofa ( sjaldnast sofnaðir fyrir ellefu ) og vakna seint. -

Ætlaði að tjá mig miklu meira en geri það þá bara næst


Gott framtak en virkar það ?

það er ekki nóg að bjóða upp á þetta í skólanum - barn sem ekki er vant að borða ávextir og grænmeti heima fyrir kemur ekki til með að borða það í skólanum.  

Þetta er verkefni sem þarf að byrja á heima fyrir.  Og við foreldrarnir ( fullorðna fólkið) gætum byrjað á því að vera góðar fyrirmyndir og borða ávexti og grænmeti sjálf.


mbl.is Reynt að sporna við offitu barna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fluttir að heiman ?

Ég hélt í dag að bræður væru fluttir að heiman.  Þeir mættu á fótboltaæfingu í morgun, meira að segja of seint þar sem það er gífurlega erfitt að vakna á morgnanna og bræður sjá ekki neina ástæður til að flýta sér, dorma áfram í rúminu, leika sér eða skoða bækur.

Eftir hádegismat fóru bræður út " megum við leika við A " var spurt og ég sagði já.  Klukkan varð tvö og klukkan varð 3 - ekki sáust bræður en hins vegar kom ein mamman að leita að syni sínum ( sem heitir ekki A ) Sagði að bræður ásamt fleiri vinum hefðu verið heima hjá henni en henni ofbauð hávaðinn og sendi hersinguna út. 

Klukkan varð 4 og klukkan varð 5 og hvorki sást tangur né tetur af bræðrum.  Ég hafði svo sem ekki stórar áhyggjur en samt - það er nú allt í lagi að stimpla sig inn heima hjá sér öðru hvoru.  Klukkan varð 6 og þá heyrðist kunnuglegt hljóð fyrir framan eldhúsgluggan - "skrans" á mölinni á bílaplaninu og svo einfalt fótatak í forstofunni.  Þar var SÁ einn á ferð og búinn að fara á eina 5 til 6 staði yfir daginn.   Hann hafði töluverðar áhyggjur af bróður sínum " sem væri búinn að vera svo agalega lengi í burtu" en ég kyrrsetti hann heima.  Hann var svo sendur til að sækja bróður sinn rétt fyrir 7 og bræður skiluðu sér í hús rúmlega 7.  Kvöldmaturinn farinn að kólna á borðinu Pouty

Bræður fengu svo að fara út eftir matinn og áttu að koma heim klukkan 9.  Annar þeirra skilaði sér heim rétt fyrir níu en hinn lét bíða eftir sér í klukkutíma í viðbót.  Ef ég hefði ekki verið svona upptekin að horfa á heimildaþátt á RÚV um þróun fjölburafóstra í móðurkviði þá hefði ég að sjálfsögðu löngu verið farin út að sækja kauða.  

Ég kann þetta ekki - vera ein heima á daginn.  Finnst þetta fínt í aðra röndina en hef ekki vanist þessu ennþá.

Annars fékk ég skemmtilega heimsókn í dag - eina mömmu og tvö börn sem voru bæði dugleg að spjalla og leika sér.   

JA átti eitthvað erfitt með að sofna í kvöld - þó svo hann væri dauðþreyttur.  Þetta gerðist stundum hjá honum þegar hann var lítill 2-3 ára.  Þá var oftast nóg að taka hann í fangið og láta fara vel um hann í mömmufangi, setjast í stofusófann og helst vefja hann inn í teppi.  Oftast sofnaði sá stutti í fanginu á mér eftir nokkrar mínútur. - Þetta ráð virkar enn  - í örlítið breyttri útfærslu.  Það er ennþá gott að koma fram og kúra undir teppi hjá mömmu, þó svo maður sé að verða 7 ára og meira en meter á lengd.  Við spjölluðum smá stund og strákur segir mér að honum langi til að eiga vekjaraklukku sem hann hafi inni í sínu herbergi.   Strákur varð glaður þegar mamma sagði að hann væri alveg nógu stór til að eiga vekjaraklukku fyrir sig og við urðum ásátt um að hann fengi vekjaraklukku þegar skólinn byrjaði í haust.  Einu kröfurnar sem hann gerir til vekjaraklukkunnar  - hún á að vera kringlótt.   - Það ætti að verða auðvelt að verða við því.

En nú er ég farin að sofa - dugar ekki að haga sér eins og unglingur og snúa sólarhringnum við  - þó svo maður sé í sumarfríi.

 

 


Erfiðir foreldrar

Enn og aftur fær maður þennan stimpil Pouty  frá afkvæmunum og enn og aftur er það út af tölvuleikjum.   JA skellti þessu framan í mig áðan þegar klukkan var komin 15 mínútum fram yfir leyfilegan útivistartíma í kvöld.   Þegar bræður voru ekki komnir heim fór ég út að leita og fann þá fljótlega í nálægum garði - ekki á trampolíninu samt.  Leikfélaginn þar þótti ég greinilega fullströng og spurði hvort þeir ætti virkilega að fara strax að sofa  Shocking.  Ég sagði að það væri ekki alveg svo strangt en að þeir ættu að koma heim núna.  " Af hverju ?" spurði leikfélagi.   "Af því ég segi það" sagði ég og honum þótti það greinilega nógu gott svar, allavega spurði hann einskins meira.

JA var hins vegar ekki alveg sáttur við svarið og fór að spyrja áfram.  Honum þóttu rökin " mamma ræður" ekki duga fullkomlega og tilkynnti mér að foreldrar væru erfiðir.  Reyndar ekki allir foreldrar " bara þið ".  Ég spurði hann hvort hann vildi þá ekki bara finna sér aðra foreldra og hann tók ágætlega í það - sagðist ætla að eiga heima hjá Rxxxxx vini sínum því þar fengi hann að ráða hvenær og hversu lengi hann færi í tölvuna W00t   Hann kom nú samt með mér heim og er sofnaður í sínu rúmi - ég spyr hann betur út í nýju foreldrana á morgun.

Áttum annars ágætan dag í dag - fórum í sund og svo í kaffi og kökur til ömmu.  Nammi nammi namm.  Fengum reyndar þær döpru fréttir að lítil hetja (bekkjarfélagi JA) hefði tapað baráttunni við krabbameinið sem hann glímdi við.  Kæri vinur - blessuð sé minning þín og megi Guð almáttugur styðja fjölskyldu þína og vini.  

Enduðum svo kvöldið á Jútúb - kíkjum stundum saman á Jútúb og horfum á skemmtilega tónlist eða eitthvað fyndið.  Þetta sló í gegn hjá bræðrum í kvöld.

Góðar stundir - húsmóðir í sumarfríi


Úti á kvöldin

Bræður eru glaðir og ánægðir með að vera í sumarfríi.  Kunna vel að meta það að vera ekki vaktir eldsnemma á morgnanna og dýrka það að fá að vera úti eftir kvöldmat.  Það er samt eins og þeir nái þessu ekki alveg, að vera í sumarfríi sko.   Á morgnanna er ég annaðhvort spurð að því hvort það sé skóli í dag eða hvort barnatíminn sé byrjaður.  Woundering 

Bræður fóru út eftir kvöldmat ( fisk og kartöflur )  pabbinn skellti sér í bað meðan mamman dormaði ( og sofnaði yfir sjónvarpinu )  Rétt fyrir kl 22 ákvað ég þó að fara út og leita að bræðrum - það væri kominn tími til að fara inn.  Þeir fundust hoppandi á tramplíni hjá kunningja í nálægum garði.  Voru ekki alveg tilbúnir að koma heim og SÁ tilkynnti að hann ætlaði að koma heim klukkan 12 Halo  Ég hélt nú ekki !  Þegar heim kom mölduðu bræður aðeins í móinn þegar mamma tilkynnti þeim að strákar maður fengi ekki bæði að vera lengi úti á kvöldin og kvöldsögu.  Þeir voru komnir upp í rúm rúmlega hálf ellefu og það liðu ekki margar mínútur þar til báðir voru sofnaðir.SleepingSleeping

Hávaði og læti framundan á morgun - það er nefnilega verið að skipta um járn á þakinu og þaðan hafa bæði borist hamarshögg og fótatak í dag.  Ekki mjög friðsælt.

Eigið góðan dag á morgun - ég stefni á það.  Fer kannski með bræður í sund ef ég nenni.

 

 


Kunna börn ekki að leika sér lengur ?

Eða eru það bara mín börn sem kunna það ekki ?

Ég er að lenda í vandræðum eða krísu sem ég veit ekki alveg hvernig ég á að bregðast við.  Eins og þeir sem standa mér nálægt vita á ég tvo spræka stráka sem kláruðu fyrsta bekk í grunnskóla.  Á heimilinu er ein borðtölva og svo PS2 leikjatölva sem pabbinn á heimilinu notar einna mest.  ( Tölvusjúklingur á gamals aldri Blush )

Í hugum sona minna er ég , að ég held, ágætis mamma og þeir eru  sáttir við kelluna að langmestu leyti NEMA þegar kemur að þeirra tíma í tölvunni.  Þar má ég alveg missa mín og er alls ekki samkeppnishæf við mæður margra leikfélaga.  Ég er nefnilega risaeðla með ótrúlega fornaldarlegar og heimskulegar hugmyndir um sjónvarpáhorf og þann tíma sem ég vil úthluta þeim í tölvunni.    Ég nefnilega ræð yfir sjónvarpinu, tölvunni og tímanum sem fer í slíkt tæki.  Devil  Og tíminn sem bræður hafa fengið að eyða við þessa tómstundaiðju hefur að mestu verið eftir mínum geðþótta.    Þetta hefur gengið nokkuð þokkalega þar til núna.  Við búum í litlu bæjarfélagi og bræður eru orðnir nógu "stórir" til að fara einir , hvort sem það er gangandi eða hjólandi , til þeirra vina sinna sem búa í næsta nágrenni.

Og þar liggur hundurinn grafinn  - þeir félagar sem virðast eiga sínar eigin leikjatölvur eða frjálsan aðgang að tölvum eru "vinsælastir"    Tala nú ekki um ef þeir eiga nýjustu leikina.  Ég sé ekki ástæðu til að setja út á eða gera mál út af því að sonur minn sat í tölvuleik hjá vini sínum í 3 tíma í gær og jafnvel á fimmtudaginn í síðustu viku líka.  Það er ekki málið.  En þegar sonur minn er kannski búinn að vera hjá þessum vini sínum á hverjum degi í viku og vera í tölvuleik 3-4 tíma á hverjum degi - þá fer það í taugarnar á mér.  Ég tala nú ekki um að nú er hásumar - gott veður og ég haldin þeirri hallærislegu og gamaldags kennd að á sumrin eigi börn að vera úti og leika sér. Shocking  Kannski er ég gangandi tímaskekkja en það verður þá bara  að hafa það - mér finnst þetta samt.

Það sem mér finnst kannski allra verst í þessu er að hér hafa nánast engir leikfélagar komið  það sem er af þessu sumri.  Hér komu tveir í dag og stoppuðu stutt - fyrst ekki mátti fara í tölvu þá var ekkert hægt að gera.  Hér eru leikföng úti og leikföng inni en það var varla snert.  Þeir fóru heim til annars félagans og þar tók við þriggja tíma tölvuleikur. 

Það má samt ekki taka því þannig að ég sé á móti því að börn leiki sér í tölvum.  Ég er bara á móti því að börn leiki sér ekki í neinu öðru en tölvuleikjum.  Það er til fullt af fróðlegum og skemmtilegum leikjum sem börn hafa bæði gagn og gaman af.  Dæmi um það eru leikirnir um innipúkann á www.us.is - algjör snilld.

 Nú veit ég að börn eru misjöfn  - hafa mis mikinn áhuga á tölvum og mis mikið úthald til að sitja lengi við þær.  Mín börn myndu sitja við mest allan daginn ef þau fengju að ráða.  Ég er nú reyndar að öllum líkindum búin að skjóta mig í fótinn að einhverju leiti með það að vera of ströng - "þörfinni" fyrir tölvuleiki er ekki svalað heima við svo þá leitar maður bara annað.  Þannig að næsta skref er að úthluta hvorum strák sér aðgangi að tölvunni og  www.netnanny.com kemur til með að sjá til þess að tímamörk haldi.   það hjálpar vonandi til þess að drengirnir mínir verði ekki eins og gráir kettir á heimilum þeirra félaga sinna þar sem aðgangur að tölvunum er frjálsari en hjá mér.

Kannski er þetta öðruvísi hjá stelpunum - ég veit það ekki.  Í kringum mig er þetta bara of algengt - þ.e.a.s strákar sem vilja helst ekkert annað gera en að vera í tölvuleikjum.    Mínir eru allavega gangandi dæmi um svoleiðis gaura og ég er ekki sátt við þessa þróun.  Ég veit heldur ekki alveg hvernig ég á að bregðast við henni - mér finnst eiginlega verst ef það vill enginn koma hér af því að tölvurnar eru ekki aðgengilegar.

Kv húsmóðir með tölvuáhyggjur

 

 

 


Raunveruleikinn er mættur

til leiks - þvo, þrífa og fara í búð. - en viti menn - þetta hefst allt saman.  Eldaði t.d. latabæjarsúpu í kvöld og ekki annað að sjá en að hún rynni bara nokkuð greiðlega niður í mannskapinn.  Þó svo hamborgarar, naggar, pizzur, spaghetti og franskar kartöflur hafi nú aðallega verið á matseðlinum á Spáni. ( hjá yngri kynslóðinni sko )

Það er ekki heilsusamlegt að vera íslenskur túristi á Spáni og borða 1-2 máltíðir á dag á veitingahúsum, mikið steikt og brasað og franskar kartöflur með ÖLLU.  En svona til að draga aðeins úr þá er nú yfirleitt líka salat með, úr fersku grænmeti.  Ég veit að ég var túristi á aðal túristastaðnum en ég hefði viljað sjá meiri spænskan mat og fjölbreyttari.  ég var komin með þokkalegan leið á þessu fæði en bræður og pabbi voru alsælir.  

Bræður eru búnir að mæta á tvær fótboltaæfingar síðan þeir komu heim og að sjálfsögðu í fullum skrúða.  Nýjum ( að sjálfsögðu spænskum ) takkaskóm, með nýjar legghlífar og nýja markmannshanska.  Engir smá töffarar.  Svo skiluðu nýju fötin ( gerfigrasbuxur og hettupeysa merkt Grindavík ) sér í hús meðan við vorum í burtu svo bræður mættu í öllu nýju á æfingu.  Algjörir töffarar.

Við fórum á ættarmót í Grímsnesið sl laugardag.  Kíktum bara yfir daginn, húsmóðirin nennti engan veginn að pakka í nýjar töskur og fara í útilega þegar ekki var búið að ganga frá úr ferðalaginu.  Eiginmaðurinn hefði alveg verið til í það en leyfði konu sinni að ráða enda voru þetta nú hennar ættingjar.  Hann var frekar feginn að komast í sitt rúm á laugardagskvöldið.  Bæði var veðrið ekki upp á sitt besta og þó svo það hafi verið rosalega gaman að hitta fólkið þá var hálfgerður losarabragur á þessu öllu, engin dagskrá og margir bara í sínu horni.

Bræður skemmtu sér vel - voru mikið í fótbolta - léku sér við ömmu og afa - fengu að fara í tölvuleik í Helguhúsi og höfðu nánast ótakmarkaðan aðgang að gosi, snakki og súkkulaðikexi.  Dagurinn endaði samt illa fyrir SÁ.  Hann ætlaði að hlaupa og kveðja ömmu sína en sá ekki stagið á tjaldinu og skarst eða brenndi sig á hálsinum þegar hann hljóp á það.  Nú skartar strákur 10-12 cm löngu sári á hálsinum - lítur út eins og einhver hafi bruðið hnífi á hálsinn.  Frown   Ég vona bara að það komi ekki varanlegt ör !

Bræður hafa ekki enn farið í fráhvörf eftir alla gosdrykkjuna úti.  Ekki pabbinn heldur eftir alla bjórdrykkjuna Blush  Ég ætlaði nú svei mér að drekka mun meira rauðvín en ég gerði en það bara gekk ekki upp.  - ætla til læknis og láta rannsaka mig.

Norski bróðir og norska mágkona verða bráðum herra Norski bróðir og Frú Norska mágkona.  Ætla ekki að gefa þeim kristalsglös í brúðargjöf.  Held þau yrðu ánægðari með gjafakort á Kentökkí Fræd Tjikken ( sem yrði þá að notast á Íslandi þar sem KFC er ekki til í Norge )

gott í bili - Húsmóðirin sem er komin í sumarfrí. 


Mikið djö...... er þetta erfitt

 

að koma sér í gang að gera eitthvað eftir svona frí.  Hefur alltaf verið svona erfitt að elda mat og þvo þvott.  Mér finnst ég verðskulda verðlaun og stórt klapp á bakið fyrir að hafa náð að þvo - og þurrka - þvott úr fimm þvottavélum í fyrradag.

Það eru töluverð viðbrigði að takast á við daglegt líf aftur þegar síðast hálfi mánuður hefur einkennst af letilífið á hæðsta stigi.  Erfiðustu ákvarðarnirnar á degi hverjum voru " hvað eigum við að gera í dag ?" og svo " hvar eigum við að borða í kvöld ? "

Þó svo bræður hafi skemmt sér vel undir spænskri sól þá voru þeir fegnir að komast heim aftur - sjá dótið sitt, leika sér við vini sína og síðast en ekki síst - fara út að hjóla.  Smile    Og svo var voðalega gott að horfa á barnatímann í sjónvarpinu Á ÍSLENSKU

Er farin að elda og þvo enn meiri þvott  *vorkenniðmérþettaersvoerfitt*

kv húsmóðirin sem var í virkilegu húsmæðraorlofi

 

 

 


Mætt aftur í bloggheima

Eftir hálfs mánaðar fjarveru frá nettengingu er ég komin heim aftur.  Agalega falleg með spænska sólbrúnku.

Nenni ekki að blogga  - ætla á ættarmót á morgun.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

kona á besta aldri

118 dagar til jóla

Höfundur

Húsmóðir
Húsmóðir

Mál dagsins

Áttu kolagrill ?

Matarblogg

Uppskriftir og hugleiðingar um mat úr ýmsum áttum

  • Matarblogg
    www.mataraedi.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband