Færsluflokkur: Bloggar

Strákurinn í gifsinu er svo duglegur

Það er ekki hægt að segja annað.  Geri bara orð barnalæknisins að mínum " þessi krakki er nagli "    Hann hleypur um með gifsið  ( eins og hægt er ) og hjólar eins og herforingi.  Eina  vandamálið er að klæða sig í sokk og gönguskóinn utan yfir gifsið.  Bróðir hjálpar honum við það á morgnanna.

Ég er farin að skilja aðeins betur af hverju það er svo spennandi að vera einn heima á morgnanna.  Það hefur nefnilega komið í ljós að bræður nota tækifærið og dekra við sig þegar afskiptasamir foreldrarnir eru ekki heima.  Fá sér sykur út á seriosið ( sem aldrei hefur verið gert á þessu heimili ) og skola morgunmatnum niður með pepsi max.   Ég reyndi nú að halda andlitinu þegar þeir kjöftuðu óvart frá þessu - fannst þetta bara fyndið.

Mér fannst hins vegar ekkert fyndið að koma að galopnu húsinu þegar ég kom heim í gær - bæði útidyr og millihurð galopin.  Sem betur fer voru innanstokksmunir allir á sínum stað og engin merki um að ferfætlingar hefðu gert sig heimkomna, hvorki til að éta né skíta.  

Það kom í ljós að JA hafði þurft að sækja sér hlífðarbúnað fyrir fótboltaæfingu og ekki hirt um að loka hurðinni.   Þetta gekk betur í dag enda voru leiðbeiningar og skilaboð hengd upp á viðeigandi stöðum.  Allavega kom ég að lokuðu húsi í dag.

Föstudagur á morgun  - það er ágætt.   

 

 


Kaldur hversdagsleikinn

tekinn við - hinu 7 vikna sumarfríi mínu er sem sagt lokið og ég var mætt í vinnuna rétt rúmlega 8 í morgun. - þótt það væri dálítið erfitt að vakna í morgun þá var nú samt gaman að hitta vinnufélagana og gera áhlaup á pappírshlaðana sem biðu á skrifborðinu.

Bræður sváfu vært þegar mamma fór í vinnuna.  3 pakkar af morgunkorni , diskar og skeiðar voru á eldhúsbekknum og mjólk í ísskápnum.   Svo var síminn á eldhúsborðinu og bæði símanúmer hjá mömmu og pabba.  Bræðrum finnst sport að vera einir heima.  Ekki stóð þó til að bræður yrðu einir heima þar til mamma kæmi úr vinnunni.  Þeir áttu að hjóla til ömmu þegar búið væri að klæða sig og borða morgunverð.  Gsm síminn minn hringdi rúmlega 9, JA var kominn á fætur og búinn að klæða sig en átti eftir að borða morgunmat.  Samtalið var þó ekki langt.    Tveimur  mínútum seinna hringdi síminn aftur - þá var það hinn sonurinn.  Það samtal var heldur ekki langt.    Það er spennandi að hringja sjálfur og algjör óþarfi að rétta símann á milli sín.

Eftir vinnu og viðkomu hjá hárgreiðslufrænku ( bræður voru komnir í pössun þangað ) komum við heim.  Morgunkornspakkarnir voru ennþá á borðinu, mjólkin ennþá á eldhúsborðinu , slatti af seriosi á gólfinu og töluvert af blautu seríosi í vaskinu.  Annar bróðirinn hafði samt rænu á að setja diskinn sinn í uppþvottavélinaHalo

Amma í rauða húsinu kemur til með að bjarga málunum þar til skólinn byrjar.  Kissing  Svo er óvíst hvernig staðan verður þegar skólinn byrjar.  Samkvæmt síðustu fréttum úr bæjarslúðrinu er ekki enn búið að fá starfsfólk til að sjá um Skólaselið ( gæslu eftir skóla )  Þó svo bræður séu ekki smábörn lengur þá eru Þeir heldur ekki nógu gamlir til að vera einir í tvo til þrjá tíma á dag.  Er urrandi fúl yfir þessu, sérstaklega þar sem fyrri starfsmenn voru alveg frábærar konur sem héldu utan um og önnuðust börnin með umhyggju og kærleika en samt góðum aga.  En það rætist vonandi úr því.

SÁ sem er búinn að haltra um í 3 vikur er kominn í gifs Frown  Fór í myndatöku fyrir helgi og niðurstöður komu í dag.  Sprunga í beini við ökklann.   " Hvers lags nagli er þessi drengur " ? spurði læknirinn í dag þegar hann hringdi með niðurstöðurnar.  Það er von að hann spyrji - strákur er og hefur alltaf verið harður af sér - nema þegar hann sér blóð , þá verður ástand og óhljóð eins og himinn og jörð séu að farast.

Skólinn byrjar eftir tæpar tvær vikur - bræðrum er slétt sama, vita að þá má maður ekki lengur fara út eftir kvöldmat. 


Hr og frú Sigurðarson

Uppáhalds norski bróðir og uppáhalds norska mágkona giftu sig mánudaginn 4 ágúst í sól og sælu í Bergen.  Var með þeim í anda og bíð spennt eftir myndum.  

Elsku krúttin mín - til hamingju með daginn, með að vera orðin herra og frú og svo að eiga hringa Heart  Þá eiga foreldrar mínir bara eitt barn sem lifir í synd Shocking ***bendiíáttaðhafnfirskabróður***.     Annars gifti ég mig eftir rúmlega 2 ára samband - Norski bróðir prufukeyrði nú sína (frú) í 12 ár eða svo áður en hann sagði JÁ.  Hafnfirski bróðir er enn að prufukeyra, um 20 árum eftir fyrsta reynsluaksturinn Blush  En það hlýtur að koma á endanum.  Langamma gifti sig á áttræðisafmælinu sínu. 

Annars mest lítið að gerast - sælunni/sumarfríinu er að ljúka.  Frúin skal mæta í vinnu á mánudagsmorgun.  Það verður fínt.  Þó svo ég hafi nóg að gera heima hjá mér þá verður líka fínt að hitta annað fullorðið fólk.  Ég er búin að ná fínni afslöppun í þessu fríi og er búin að njóta þess að vera heima með strákunum í sumar.  Er búin að vera í sumarfríi síðan um miðjan júní og það eru sko forréttindi sem ég er óskaplega þakklát mínum vinnuveitendum fyrir.

Bræður eru bara sáttir við lífið, svona að mestu leyti.  Væru til í að fá að vaka ennþá lengur á kvöldin ( eins og sé ekki nóg að vera sofnaðir um 11 leytið ) og óheftan aðgang að tölvukosti heimilisins.  Væri svo sem ekki verra að fá pening reglulega og geta keypt sér EM fótboltamyndir og EM tyggjó en það hafa ekki verið stórar kvartanir út af því ennþá.  Afi og amma komu með glaðning frá Noregi - dót, bækur og DVD.  Svo sendi frú Olla þeim nammi og blýanta.  Nammið vakti nú meiri lukku Kissing  Bræður horfðu hissa og glaðir á mömmu sína þegar hún sagði að þeir mættu ráða alveg sjálfir hvernær þeir borðuðu það - mættu borða allt í einu ef þeir vildu.  Ekki tímdu þeir því nú og nammið dugði í næstum sólarhring a.m.k hjá JA

Fótlama sonur haltrar enn um og hefur ekki komist á fótboltaæfingu í meira en tvær vikur.  Við fórum til læknis í gær sem sendi okkur í myndatöku í dag.  Við fórum líka í hjólabúð og keyptum nýtt afturdekk á hjólið hans JA - það er búið að "skransa" í næstum 4 mánuði stanslaust og dekkið gaf sig endanlega í morgun.  Við ætluðum að kaupa dekk á hjólið fyrir SÁ líka enda er það nánast jafn slitið og gamla dekkið hans JA var en þá átti búðin bara eitt dekk. Vonandi lifir dekkið samt fram yfir helgi.

Hér eru ekki merkileg plön fyrir helgina - ætlum ekki í útilegu - bóndinn ætlar að vinna í þakinu, ég ætla að þrífa húsið , draga fram saumavélina og jafnvel fara með bræður í sund.    Kemur í ljós hvort þessi plön verða að veruleika eður ei!

 


Sumt er betra en annað

nýsteiktar kleinur og ísköld mjólk er eitt af því.  Tengdamútta var svo elskuleg að líta eftir bræðrum í morgun meðan ég fór í yfirhalningu ( klippingu og litun/plokkun )

Þegar ég kem svo til að sækja bræður stóð tengdamútta ansi vígaleg úti á palli, búin að setja kleinupottinn út, og steikti kleinur af miklum móð.

Þetta var BARA gott InLove

 


Unglingar í dulargerfi ?

Er farin að halda að bræður séu unglingar í dulargerfi.  Finnst við hæfi að fara að sofa um ellefuleitið á kvöldin og ef þeir fengju að sofa að vild svæfu þeir yfir sig á fótboltaæfingar sem byrja kl 10.45 á morgnanna.   Annars er SÁ í fríi frá æfingum vegna meiðsla, hann haltrar um og hjólar eins og herforingi en ekki fótboltafær ennþá enda mælti læknir með hvíld frá æfingum í einhvern tíma.

Þar sem halti haninn var svo seinn á fætur í morgun fékk hinn bróðir lúxusmeðferð  - var skutlað á æfingu.  Annars reyni ég að gera sem minnst af því - hjóla frekar með þeim ef þarf að fara yfir margar umferðargötur.  Ég fær þá hreyfingu út úr því líka.

SÁ tilkynnti að hann ætlaði út að hjóla þegar búið var að skutla bróður á æfingu og fara í innkaupaleiðangur.  Þá var klukkan um hálf tólf.  Hann hefur ekki sést síðan.  Ég efast samt stórlega um að hann sé úti að hjóla ennþá - líklegra er að hann finnist heima hjá "leikfélaga" sem er með Play Station inni í herberginu sínu.  Það fer samt í taugarnar á mér þegar börn eru ekki send heim í hádeginu.  Ef það er leikfélagi hér á matartíma (hádegi eða kvöld) þá sendi ég viðkomandi heim og segi að hann skuli koma aftur þegar hann sé búinn að borða.  Ekki það að ég vilji ekki eða tími ekki að gefa barni að borða - ég gef mér það að foreldri eða forráðamaður vilji vita hvar barnið er.

JA átti erfitt með að sætta sig við að bróðir sinn væri ekki heima - borðaði smávegis og var svo rokinn út áður en ég gat stoppað hann af ( finnst alveg lágmark að gefa fólki frið í matartíma ) og situr alveg örugglega við hlið bróður síns og horfir á Play Station.  

Það styttist í sumarfríslok - síðasta vikan í sumarfríi.  Verður fínt að koma sér í gírinn aftur en svo hefst sama vandamálið " hvað á að gera við bræður þar til skólinn byrjar"  ?    Kannski bara að galopna aðgang að báðum tölvum heimilisins, efast ekki um að bræður yrðu mjög sáttir Shocking 

 

 


Ætli maður hafi ekki grætt á því að vera fátækur ?

Er eiginlega í sjokki eftir að horfa á þetta ?  Er þakklát fyrir að hafa ekki farið út í fjárfestingar.

 


Snemma byrjar það - fótboltameiðsl

Annar sonurinn fékk spark í "kúluna" á ökklanum í fyrradag og búinn að vera hálf fótlama síðan.  fórum til læknis í gær og stráksi er bæði marinn og svo einhver tognun Pouty  Hann er þó farinn að staulast um og getur meira að segja hjólað þó svo hann sleppi því að fara á "stökkpallinn" sem nokkrir framtakssamir ungir menn komu fyrir í enda götunnar og er töluvert mikið notaður.

bóndinn búinn að lofa sér í vinnu um helgina ( fær aðstoð við smíðavinnu á þakinu í staðinn ) svo ekki verður um útilegu að ræða þessa helgina. 

Dreymdi mágkonu með stóra bumbu í nótt og svo bílveltu með 4 spariklæddum strákum (ca 8- 10 ára)  og væntanlega bílstjóra líka þó svo hann hafi lítið komið við sögu í draumnum.   Sem betur fer urðu engin slys á fólki.  Þið megið giska hvor draumurinn var skemmtilegri.  En kæra mágkona - af hverju átti ég að þegja um stóru bumbuna ?

Bakaði bananamöffins í fyrradag - bræðrum fannst þær góðar.  Ég get þó sagt að ég notað hluta sumarfrísins til að baka - við skulum hins vegar ekkert ræða um hversu stór eða lítill sumarfrísins var notaður til þess ! 


Átvögl

Frá því að bræður fengu fyrstu grautarskeiðina nokkurra mánaða gamlir hafa þeir haft góða matarlyst.  Annar bróðir þó sýnu betri en hinn. Svoleiðis er það enn.  kraftmiklir og fjörugir bræður með mikla orku og hreyfiþörf þurfa gott fóður og töluvert mikið af því á nokkurra tíma fresti svo hægt sé að komast yfir öll þau verkefni sem lífið býður upp á.  Bræður stækka og magnið sem þeir innbyrða eykst að sama skapi.  Okkur foreldrum þykir meira að segja stundum nóg um.

Ég hef stundum tautað yfir því að ég geri ekki annað í sumarfríinu mínu en að kaupa mat - ég er alltaf í búðinni.  Þetta eru viðbrigði frá daglegu lífi þar sem ég útbý einungis morgunmat og svo kvöldmat virka daga.  ( Nestispakkar bræðra eru efni í annan pistil )

Ekki nóg með að það bætist við þetta nokkrar máltíðir á hverjum degi heldur hefur það verið einkennandi fyrir bræður að það er ekki nóg fyrir þá að borða kvöldmat - þeir koma inn klukkan níu á kvöldin og eru þá oftast að sálast úr hungri. - þar er komin ein máltíð í viðbót.

Eftir kvöldmat í gær - nautakjöt og kartöflur sem bræður borðuðu ágætlega af - fóru þeir út að leika.  Þeir komu inn klukkan níu eins og venjulega og voru ekki komnir úr skónum þegar kunnuglegur söngur heyrðist úr forstofunni " ég er svo svangur "  ég bauð bræðrum meira kjöt  - sem þeir þáðu W00t  Þá vissi ég að þeir væru í alvöru svangir en þegar í ljós kom að kartölfur höfðu klárast þá breyttist matseðillinn í hafragraut ( skyndigraut frá Ora með eplum og kanil )  Bræður þáðu það og kláruðu það.  En það var ekki nóg svo strákar fengu sér sitthvora tvo bananana í eftirmat.  Þegar hr matargat gerði sig líklegan til að fá sér þriðja bananann þá sagði ég stopp.   Það var ok - allavega grét barnið ekki úr hungri þegar hann fór að sofa.

Hafragrauturinn bragðaðist það vel að hr matargat bað um hann í morgunmat í morgun. Smile  Gott mál.

 


Að éta ofan í sig og jafnvel biðjast afsökunar !

Þó það geti verið dálítið erfitt þá verð ég eiginlega bara að éta hluta af síðasta bloggi ofan í mig Sick  Átti  frábæra útileguhelgi á frábæru tjaldstæði í frábæru veðri með frábæru fólki.  Það er ekki hægt að fara fram á meira.

Helginni var sem sagt eytt á tjaldstæði við Kirkjubæjarklaustur með aðalveiðiviðhaldi bóndans og fjölskyldu hans.  Tjaldstæðið er ekki stórt en alveg afskaplega vel staðsett með tilliti til veðursældar og náttúrufegurðar.  Salerni voru hrein og snyrtileg og greinilega vel hugsað um þau.  Leiktæki fyrir börn samanstóðu af tveimur rólum og einu sýnishorni af sandkassa.  Það skipti nú ekki miklu máli - lækurinn og fossinn við hliðina á tjaldstæðinu hafði miklu meira aðdráttarafl. 

það sem ég þarf að éta ofan í mig vegna síðustu bloggfærslu er um flottræfilshátt íslendinga sem ekki geta farið út fyrir borgar/bæjarmörkin nema í nýjustu og dýrustu týpu af fellihýsi/hjólhýsi/húsbíl.   það eru í alvöru til íslendingar sem fara í útilegu með tjald, breiða teppi á jörðina og borða nestið sitt úti, svei mér þá.    Miðað við öll börnin sem maður sá á svæðinu þá hafa þau ekki verið mörg, ef það voru einhver, sem voru að horfa á dvd eða í tölvuleikjum.    Þeir sem telja sig hafa verið ranglega ásakaða um flottræfilshátt í síðasta bloggi eru hér með beðnir afsökunar.

Hvað varðar sjónvarp í svona ferðagræjum þá finnst mér ekki sama hvort um er að ræða barnafjölskyldu í helgarútilegu eða hjónafólk sem er fætt um miðja síðustu öld í 3 vikna ferðalagi.   Ef ég og mín fjölskylda getur ekki farið í útilegu yfir helgi án þess að hafa sjónvarp meðferðis þá er eitthvað að.     Ef foreldrar mínir ætla í 3 vikna ferðalag um landið og verða að horfa á sjónvarpið á hverju kvöldi þá er eitthvað að.

Gerðar voru tvær tilraunir til að veiða  - annars vegar við Víkurflóð þar sem strákar fengu nokkra smátitti  -  JA var glaður með að hafa fengið 3 fiska en "það hefði verið skemmtilegra ef það hefði verið hægt að borða þá "   Á heimleið var stoppað við Þakgil ( rétt við Vík ) en veiðipabbar gáfu þeim stað ekki háa einkunn.  Strákar gátu þó kastað nokkrum sinnum og það var ljúft að sitja úti - drekka kókómjólk og borða brauð með osti í góðu veðri.

Veðrið varð minna og minna gott eftir því sem styttist á höfuðborgarsvæðið.  Það var pissustopp á Hvolsvelli og það datt út úr mér að við skyldum kaupa eitthvað þar til þess að borða.  Þegar á reyndi var svo skelfileg biðröð þar að ég sagði við SÁ sem var með mér að við skildum stoppa á næsta stað.  Hann samþykkti það þrátt fyrir að vera að vera svangur ( að eigin sögn, þeir sem þekkja þenna son minn vita að honum þykir gott að borða og gúmmulaði hverskonar gengur yfirleitt vel ofan í hann.  )  

Í Nestiskassanum fannst hins vegar afgangur af súkkulaði og köku og ég bauð þeim bræðrum það þegar við vorum lögð af stað.  "Nei ég vil ekki sagði SÁ " en bróðir hans þáði hins vegar bita.   Mér fannst þetta ótrúlegt og bauð stráksa aftur stuttu seinna.  " Nei ég vil ekki neitt óhollt sagði stráksi frekar höstuglega, mig langar í venjulegan mat "  

Ef ég hefði verið við stýrið hefðum við lent utan vegar því mér brá svo við þetta svar.  Að þessu drengur vilji ekki óhollt   W00t   Something must be wrong !  Þegar ég var hætt að gapa og var búin að ná andanum aftur var ákveðið að borða í Reykjavík.  Allir voru sáttir við það og þegar nær dró fór ég að spyrja bræður ( og pabba ) hvert við ættum að fara.  Eftir nokkrar uppástungur stakk pabbi upp á KFC og bræður samþykktu það með gleði.  Ég myndi seint flokka KFC sem venjulegan mat en......................  svona er það.

Nánast búið að rigna stanslaust síðan við komum heim í gær - bræður fóru á fótboltaæfingu í dag og fengu góðan tíma í leikjatölvunni eftir hádegi.  Er búin að lofa sýningu á Alvin og íkornunum á morgun.    

 


Útilegumenning eða ómenning ? Varúð þetta flokkast sennilega sem nöldurblogg

Það er útilega framundan - með veiðistangirnar að sjálfsögðu.  Á þessu heimili þýðir útilega næstum það sama og veiðiferð og allir sáttir við það.

Við vorum ekki dugleg að fara í útilegu fyrr en við keyptum okkur gamlan tjaldvagn fyrir rúmum tveimur árum.  Fórum í nokkrar útilegur og svo ferðalag um landið í fyrra en höfum ekkert farið á þessu ári.   Bætum úr því fljótlega.   

Útilegumenning ( eða ómenning ) íslendinga er dálítið fyndin.  Fyrst og fremst er það útbúnaðurinn - Ef það er tjald á tjaldstæðinu þá eru 99,6% líkur á að tjaldbúar séu erlendir.  Á þeim tjald- eða afþreyingarsvæðum á suðvesturhorninu ber að sjálfsögðu mest á nýjum, fínum, og stórum íverustöðum sem mörg hver eru með sjónvarp, tölvur og öll nauðsynleg heimilistæki. ( Eins og hárþurrkur og bakaraofna sem eru bráðnauðsynleg í útilegur )  

Ekki misskilja mig - ég hef ekkert á móti því að fólk eigi flottan útbúnað og vonandi er hver og einn ánægður með það sem hann á.   Sjálf er ég hæstánægð með minn gamla tjaldvagn.   En eins og íslendinga er siður og tíska þá verður allt að vera stærst, dýrast og flottast.  Spurning hins vegar hvort það þjónar einhverjum tilgangi öðrum en að vera flottari en fúll á móti.

  Við hjónakornin höfum sagt frá atviki sem henti okkur á stóru tjaldsvæði sl  sumar sem kannski útskýrir betur hvað ég er að fara :

Það var langt liðið á daginn, við búin að tjalda bæði vagni og fortjaldi, settum borð og stóla hins vegar út þar sem veðrið var mjög gott.  Bræður voru staðnir upp enda búnir að borða og voru að leika sér.  Við hjónin sátum hins vegar ennþá og snæddum í rólegheitum.  Þá heyrast drunur og dimmir yfir svæðinu.  Þetta var ekki þrumuveður heldur komu 3 farartæki akandi inn á svæðið,  það stærsta heljarstórt hjólhýsi sem var dregið af heljarstórum "pikköpp" jeppa.   Þessir aðilar voru greinilega í samfloti og mynduðu U þegar búið var að leggja.

Ferðalangarnir byrjuðu á því að sækja 2 "borð" ( samfast bekkir og stólar úr tré sem voru á tjaldsvæðinu og ætluð almenningi ) og færa þau inn í Uið .  ( Þegar maður kaupir nokkurra milljón króna hjólhýsi þá er ekki til afgangur fyrir útileguborði og stólum, það vita það nú allir GetLost )   Síðan hófst liðið handa við að tengja sig í rafmagn og það gekk að lokum.   Svo spáðum við ekkert meira í það.  Um klukkutíma seinna tökum við eftir að tveir af ferðalöngunum eru að skoða rafmagnatenglana, svo koma þeir til okkar og spyrja hvort sé í lagi með rafmagnið hjá okkur.  Við vorum búin að setja tengilinn í samband en ekki búin að kveikja á hitaranum ( enda var hann aðallega notaður rétt fyrir háttatíma til að hita svefntjaldið )  Þeir segja að rafmagnir hafi slegið út og eru að spá af hverju " Það eina sem er í sambandi er eitt sjónvarp og ein hárþurrka " ?  

Það kom reyndar í ljós seinna að rafmagnið hafði bilað á öllu svæðinu en Halló  - Þetta fólk var búið að vera á svæðinu í rúman klukkutíma - fyrir utan að það var angandi kaupstaðarlykt af blessuðum mönnunum  -  horfa á sjónvarp og þurrka á sér hárið.    Kannski var blessað fólkið að koma í Ásbyrgi í  34 skiptið og langaði ekkert að skoða umhverfið eða sitja úti og njóta góða verðursins.   Af hverju var það þá ekki bara heima hjá sér - að drekka áfenga drykki, horfa á sjónvarpið og þurrka sér um hárið.

Ég heyri að margir hundsa ákveðin tjaldsvæði þvi þar " er ekkert við að vera "   Heyrði af hópi fólks sem er að skipuleggja ættarmót ( útilega ) og margir setja það sem algjört skilyrði að þar séu leiktæki og eitthvað um að vera fyrir börnin.   Við skulum nú passa okkur á því að kynna náttúruna fyrir börnunum og setja þau í  annað umhverfi þar sem þau mögulega gætu þurft að leika sér sjálf.  Í versta falli gætum við þurft að gera eitthvað með þeim sjálf GetLost 

Þegar ég fer í útilegu þá finnst mér salernisaðstaða eiginlega nauðsyn en maður kemst af án þess. - rafmagn er munaður en gasið dugar líka alveg.   Ég þarf ekki að fara í sturtu daglega og ekki í búð.  Ég versla inn og undirbý mig fyrirfram, bý til nesti og grilla eða elda á gasi.  Ég vil ekki hafa verslun eða veitingastað á tjaldsvæðinu og alls ekki pöbb.  Best er að vera úti í, eða nálægt náttúrunni og það er algjör toppur ef það er lækur eða einhver spræna nálægt sem börnin geta leikið sér í  - vaðið eða hoppað í, búið til stíflur og skurði nú eða bara hent steinum út í.  Ég reyni að taka með nóg af fötum til  skiptana en skítastuðullinn á fatnaði er allt annar í útilegum en heima við.   Ef um lengra ferðalag en 5-6 dagar er að ræða þá er rosalega gott að geta sett í eina þvottavél.  Sundlaugar eru alls staðar svo það er ekki vandamál að þrífa sig þegar þörf er á.

Jæja, nóg nöldur í bili - er farin að hlakka til að sofa í tjaldvagninum

P.S  SÁ dreymdi illa síðustu nótt og kallaði á mömmu sína.  Þegar ég kom inn í herbergi til hans sat hann uppi í rúminu sínu og sagði mér að hann hefði dreymt ljótan draum.  " það var krókódíll að borða mig og hann bítti mig hérna " sagði stráksi og benti á mjöðmina á sér " En ég dó samt ekki " bætti hann svo við.  Lífið var svo betra þegar mamma var búin að hugga hann og knúsa, breiða yfir hann, kveikja ljósið á lampanum  og minna hann á að ljóti draumurinn væri farinn.  Strákur sofnaði fljótlega eftir það.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

kona á besta aldri

118 dagar til jóla

Höfundur

Húsmóðir
Húsmóðir

Mál dagsins

Áttu kolagrill ?

Matarblogg

Uppskriftir og hugleiðingar um mat úr ýmsum áttum

  • Matarblogg
    www.mataraedi.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband