Skóli á morgun

og mamman fegin að fá rútínuna í gang aftur.  Þó svo fríið hafi verið ljúft og gott þá finn ég samt að bræður eru farnir að sakna félagsskaparins úr skólanum og þurfa orðið að fá smá útrás !  Ætti að verða í lagi á morgun - bæði leikfimi í skólanum og svo fótboltaæfing. Joyful

Það eina neikvæða við skólann á morgun eru nestisboxin 4 sem ég á eftir að fylla Frown

JA var í heimspekilegum hugleiðingum við kvöldmatarborðið:

"Ef besti vinur manns deyr þá langar manni bara að gráta "  Já mamma var alveg sammála því.

" ef frænka manns, sem manni þótti skemmtileg, deyr þá langar manni líka til að gráta "  Já ég gat alveg samsinnt því líka.    Mömmur eiga ekki að vera með kaldhæðni þegar 6 ára heimspekingar velta hlutunum fyrir sér en mig langar óskaplega að vita hvort tárin koma bara ef frænkurnar hafa verið skemmitlegar.............

Bræður voru í góðu yfirlæti hjá ömmu í dag og fara þangað aftur á morgun.  mamman þarf að leita sér lækninga í höfuðborginni svo amma ætlar að bjarga málunum frá því að skólagæslan er búin og þar til pabbinn er búinn að vinna.  Mamman ætlar ekki að flýta sér heim þegar læknisheimsóknin er búin heldur heimsækja verslunarmiðstöðvar og athuga hvort henni tekst ekki að nota gjafabréfin sme hún fékk í jólagjöf.  ( Ef þetta er ekki lúxusvandamál þá veit ég ekki hvað, er búin að eiga rúmlega 20 þúsund í gjafabréfum síðan um jól en ekki komist barnlaus til þess að versla )

Er að hugsa um að koma aftur með sparnarráð hinnar hagsýnu húsmóður - miðað við þróunina í fjármálum þjóðarinnar þá sýnist mér ekkert veita af því.

´Góða nótt - húsmóðirin sem er að fara að búa til nesti. 


Fékk vöfflur í dag

hjá ömmu sem á 4 ömmubörn og það fimmta er væntanlegt eftir mánuð.   Eina sem er forvitnilegt við þetta er að amman er nýbúin að halda upp á fertugsafmælið sitt.

en vöfflurnar voru rosalega góðar Smile

Vinnudagur á morgun en skóladagur hinn daginn.  Amma í rauða húsinu verður engill og bjargar málunum. 

 


Ég var búin að gleyma

gæsahúðinni sem ég fékk þegar ég heyrði Magna syngja þetta fyrst.

Ný hjól,nýjar útihurðar, páskaegg, hreindýrafille og rauðvín.

Er ekki lífið bara gott ? Grin

Eins og búið var að lofa strákunum þá var haldið í hjólabúð í Reykjavíkinni í gær.  Við vorum örlítið stressuð fyrir því hvort yrði opið (þótt svo starfsmenn búðarinnar væru búnir að segja það ) þar sem enginn svaraði símanum en ákváðum svo að treysta orðum starfsmanna.

Búðin var opin, mikið að gera og starfsmenn greinilega höfðu nóg að gera fyrir utan að svara í símann.  Við fengum samt sem áður góða þjónustu, keyptum fín hjól og drifum okkur heim aftur.  Bræðrum lá nú á að komast heim og reyna gripina.  Vegna veðurs ( skítakuldi á góðri íslensku ) var nú ekki mikið um hjólreiðar í gær en úr því hefur heldur betur verið bætt úr í dag. Wink  Mamma gamla búin að þurrka rykið að hjólahjálminum sínum og fara í tvo hjólatúra í dag.

Smiðurinn mætti í gærmorgun eins og um var samið og með aðstoð eiginmannsins voru nýjar útihurðar settar bæði í forstofu og þvottahús.  Reyndar er töluverð vinna framundan við frágang og svo á að mála líka, bæði forstofu og þvottahús.  þannig að hér verður ryk og umrót einhverja daga í viðbót.

Bræður fengu páskaegg í morgun og eru komnir langleiðina með að klára þau.  Enda hefur lítið matarkyns farið inn fyrir þeirra varir í dag.   Úr því verður þó bætt fljótlega þar sem hreindýrafille a la bóndinn er að verða tilbúið Joyful  Bræður verða þó að láta sér nægja malt og appelsín, ég tími ekki að deila rauðvínsflöskunni með þeim :

Gleðilega páska allir saman.

 


Það er laugardagur í dag

tilkynnti SÁ rétt áðan.  Grin  Laugardagur er yfirleitt góður dagur því þá er barnatími um morguninn, frí í skólanum OG það mikilvægasta " ís í eftirmat" um kvöldið.  

Þessi laugardagur er samt sérstakur - það er reyndar barnatími ( eins og í gær og fyrradag) það er páskafrí, það verður ís í eftirmat en í dag : þá ætlum við að fara og kaupa hjól WizardGrinW00t   það er mikil tilhlökkun í gangi .

Eina sem getur mögulega skyggt á daginn er sú staðreynd að það er kominn smiður til að setja upp nýjar útihurðar ( bæði í þvottahús og forstofu ) og það gæti þurft að bíða fram yfir hádegi.  Það verður ekki auðvelt.

Svo á eftir að kaupa páskaegg en bræður vita ekki af því.

Eigið góðan dag í dag .  Húsmóðirin


að vaka lengi

Bræður fengu að vaka óhemjulengi í kvöld.  Þeir vissu nefnilega að "Spæderman" 2 yrði á dagskrá sjónvarpsins í kvöld og voru harðákveðnir í að sjá hana.  Foreldrarnir voru ligeglad á því og ákváðu að leyfa bræðrum að horfa enda allir komnir í páskafrí.   Bræður áttu nú samt pínu erfitt með að halda sér vakandi og fannst myndin um ballettskóna sem var á undan ekkert mjög spennandi.  En - bræður hresstust aðeins við að fara í náttföt og bursta tennur og svo ákvað mamman að það væri alveg ástæða til að koma herberginu í betra horf áður en stórmyndin byrjaði.  Það kom nú reyndar dálítið babb í bátinn þegar þulan tilkynnti að atriði í myndinni væru ekki við hæfi ungra barna. 

JA stóð strax upp, dæsti af vonbrigðum og fór inn í rúm þar sem hann grúfði sig ofan í koddann.  Foreldrarnir , sem ekki höfðu orðað það að hann mætti ekki horfa á myndina, fóru á eftir stráksa sem hélt áfram að grúfa sig niður í koddann og var afar sár.  Loksins náðu foreldrarnir þó sambandi við piltinn sem var komin með tárin í augun yfir því að missa af Spæderman.  Hann hresstist þó við þegar foreldrarnir gátu komið honum í skilning um að þetta væri ekki "ljót" mynd, það gætu hins vegar komið stutt atriði sem honum þættu ljót og þá ætti hann bara að loka augunum á meðan.  Hann tók gleði sína á ný, kom sér þægilega fyrir í sófanum undir teppi en spurði svo alllt í einu " Ef það kemur ljótt í myndinni, hvenær veit ég þegar það er búið "?  Mamman lofaði að fylgjast með og láta hann vita.    Meðan á þessu stóð lá hinn sonurinn sallarólegur í sófanum og beið eftir að myndin byrjaði.  það var búið að segja að hann mætti horfa á myndina og þá skipti ekki nokkru einasta máli þótt einhver sjónvarpsþula væri að tala um að myndin væri bönnuð. 

JA gafst upp rúmlega ellefu, fór inn í rúm og var sofnaður tveimur mínútum seinna.   SÁ hafði það af að klára að horfa á  myndina en það tók hann ekki margar mínútur að sofna.   Það stefnir allt í að famelína sofi lengur en til átta í fyrramálið. Sleeping

Eiginmaðurinn sá ekki fyrir sér að slappa af um páskana, fyrst það lá engin aukavinna fyrir þá var nú best að drífa í því að skipta um útihurðar á forstofu og þvottahúsi.   Það eru sem sagt hafnar framkvæmdir á heimilinu með tilheyrandi umróti og ryki.

 

 


Ég er dálítið hrifin af Gillzenegger

eða kannski réttara að segja að það sé Egill Einarsson, ekki karakterinn Gillzenegger, sem vekur hrifningu mína.  Ég er þó ekki þannig hrifin að maðurinn minn þurfi að hafa einhverjar áhyggjur - svo það sé nú á hreinu. Kissing

það er kannski best að ég þekki þennan dreng ekki neitt, veit ekkert um hann nema það sem ég hef séð, heyrt og lesið í fjölmiðlum og út frá því er ég að mynda mér skoðun.   það sem mér finnst flottast við hann ( fyrir utan kroppinn ) er maðurinn sem predikar fyrir hollu mataræði og hreyfingu.  Einhvern tímann las ég viðtal við hann þar sem hann lýsti því yfir að það væri hallærislegt að borða sælgæti og sætabrauð,  alvöru töffarar fengju sér ávexti og "boost" sem millibita.

Ég las viðtal við hann í einhverju blaði sem heitir Hún og Hann ( var gefins í Hagkaup í gær ) þar sem hann lýsti m.a. yfir áhyggum af því hversu mikið af litlum börnum séu of þung.    Sem móðir tveggja barna á grunnskólaaldri, starf mitt er tengt mötuneyti skólabarna og það er mér bæði áhugamál og metnaður að börnin mín fái ekki sama vaxtarlag og við foreldrarnir (sem erum bæði allt of þung ) 

Íþróttaálfurinn hefur ótrúlega góða hluti í því að hvetja til þess að borða hollari mat og hreyfa sig meira.  Mín upplifun er sú að hann höfði meira til og hafi áhrif á leikskólabörnin.  Áhrif og umræður um íþróttaálfinn eru nánast dottnar upp fyrir síðan bræður byrjuðu í skóla.  

Þar getur karakter eins og Gillzenegger komið sterkur inn, sem fyrirmynd fyrir stráka á grunnskólaaldri, hvort sem þeir eru 8 eða 14 ára.  Ég sé hann fyrir mér tala VIÐ krakkana en ekki TIL þeirra og gefa ráðleggingar um hollara mataræði  og fá krakkana til að hreyfa sig.    Ég trúi þvi að hann sé týpa sem gæti gert það hallærislegt að fá sér pyslu, snúð og gos í morgunmat  og um leið gert gamla góða hafragrautinn svolítið "cool"

Já, ég er dálítið hrifin af Gillzenegger !


finn ekki tölvupóstinn minn ?

Allt í volli - finn ekki tölvupóstinn minn Crying  Sama hvað ég klikka og klikka og hamast á "iconinu" - það gerist ekki neitt.  Mikil vandræði.  Ef þú lesandi góður hefur rekist á Microsoft Office Outlook á vergangi - þá endilega láttu mig vita.

Amman farin - keyrðum henni í flug í dag, höfðum reyndar viðkomu í Ikea og Smáralind áður með þeim afleiðingum að amma þurfti að kaupa sér nýja tösku LoL  Við höfðum svo viðkomu í Góða Hirðinum áður en við fórum heim.  Við kíkjum yfirleitt við þar ef við höfum tækifæri til þess.  Bræðrum finnst þetta skemmtilegasta búðin í Reykjavík, þar má nefnilega leika sér með dótið.

Mér finnst alltaf gaman að koma þar og er fastagestur í bókahillunum, bæði barna og fullorðins.  Fer sjaldnast tómhent út.  svo finnst mér gaman að grúska þarna og fundið ýmislegt sem hefur komið í góðar þarfir.  Í vetur keypti ég t.d. nýjan hníf og könnu í matvinnsluvélina mína - á heilar 150 kr.  Gamli hnífurinn orðinn slitinn og skörðóttur eftir mikla notkun svo þetta kom sér aldeilis vel.  Ef ég hefði verið á sendibíl þá hefði ég keypt bókahillu á  2000 kr áðan.  Annars voru hillur frekar tómar þarna núna.  Ef til vill er fólk ekki mikið að taka til í geymslum og bílskúrum svona yfir háveturinn en einnig held ég að hópurinn sem verslar þarna húsgögn og ýmsar heimilisvörur fari stækkandi.  Miðað við þróunina á mörkuðum þessa dagana þá má alveg gera ráð fyrir að viðskiptavinum Góða hirðisins muni fjölga enn meira.

Bræður voru örir og æstir eins og venjulega í verslunarmagasínum en róuðust þegar heim kom og dunduðu sér góða stund eftir kvöldmat að teikna og föndra með nýju litunum sínum.  Við foreldrarnir nutum þess að horfa á fréttir og afar fróðlegan þátt um Spice Girls í ró og næði.

Eldaði kjúklingabringur í barbekjúsósu og kartöflur með  - kv húsmóðirin sem finnur ekki tölvupóstinn sinn.


Páskafrí

Já, alveg óvænt er ég komin í páskafrí og er ekkert smá glöð yfir því.  Á nefnilega svo góða vinnuveitendur sem gáfu mér og hinum möppudýrunun á skrifstofunni frí á morgun.  Wizard

Amman að austan var sótt með viðhöfn á flugvöllinn í Reykjavík síðasta sunnudag.  Þá datt ég allsnögglega úr tísku og hef ekki verið sérlega hátt skrifuð á vinsældalista heimilisins síðan.   það kannski breytist á morgun en þá keyrum við ömmu á flugvöllinn aftur.  Núna er kallað á ömmu til að lesa fyrir sig og aðstoða sig við hitt og þetta.  Nú er bara sagt " hvar er amma" en ekki " hvar er mamma " og JA neitaði meira að segja að knúsa mömmu sína í dag.  " ég ætla bara að knúsa ömmu"

Bræður, amma og mamma heimsóttu hárgreiðslufrænku í gær sem gerði okkur öll mjög falleg.  Kissing  Dásamleg tilfinning í morgun að líta í spegill og sjá ekki svefndrukkið, litlaust og grátt andlit undir hárflóka í sauðalitunum heldur svefndrukkið, litlaust andlit með nýplokkaðar og litaðar augabrúnir undir nýklipptum og lituðum lokkum.   

Þegar mamman kom heim úr klippingunni í gærkvöldi voru bræður nýbaðaðir, komnir upp í rúm og töldu peningana sína, ekki gullpeninga samt heldur seðla Wink  sem amma hafði gefið þeim.   Þeir áttu að nota peningana til að kaupa sér hjól !  Þetta var dálítið fyndið en amman vissi ekki að foreldrarnir voru búnir að skipuleggja hjóla-innkaupa-ferð næsta laugardag svo bræður þurfa ekki að bíða lengi ( mælt á foreldramælikvarða) eftir að kaupa hjól.  Í dag kom svo hin amman í heimsókn og færði bræðrum nýjar peysur.  Þetta yrði páskagjöfin í ár, kæmi i staðinn fyir páskaegg.    Ég er afskaplega ánægð með báðar ömmurnar - og hlakka pínulítið til að fá að kaupa páskaegg fyrir mína syni í fyrsta skipti.     Þó ég sé steinaldarmamma þá er ég alls ekki á móti páskaeggjum og því að börn fái páskaegg.  Ég er hins vegar á móti því að mín 6 ára börn fái allt of mörg og stór páskaegg sem þau hafa hvorki þörf fyrir né gott af.  

Fullorðna fólkið á þessu heimili hefur heldur ekki gott af páskaeggjum en ég´ætla nú samt að gefa bóndanum egg.  Eða við kaupum okkur eitt saman.    kemur í ljós.    Við giftum okkur laugardaginn fyrir páska fyrir átta árum og keyptum okkur sameiginlega morgungjöf - Ástaregg InLove  

Tók hreindýrafille úr frystikistunni í dag - undirbúningur fyrir páskamatinn er hafinn.   Stefnum á rólegheit um páskahátíðina - keyrum kannski út fyrir bæinn, förum í gönguferð og borðum nesti úti, ef veður leyfir.  Svo verður húsfreyjan að setjast heldur betur yfir bókhald,  úthald hefur verið frekar takmarkað vegna flensunnar en heilsufarið er óðum að skríða saman svo það veitir ekkert af að spýta í lófana.

Bið að heilsa í bili.  Húsmóðirin

 

 

  


Fullur heili af hor

Ekki mjög skemmtileg lýsing en svona líður mér akkúrat núna.  Bókari með fullan heila af hor er ekki líklegur til að vera afkastamikill og nákvæmur.  Þess vegna treysti ég mér ekki til að vinna í kvöld.

Er búin að bjarga pössun í páskafríinu - amman að austan ætlar að koma og bjarga málunum fyrir páska, ætla að segja bræðrum frá því á morgun, á ekki von á öðru en að þeir verði ánægðir með það. 

Bræðrum líst ljómandi vel á að fá páskafrí, bæði frá skóla og sundæfingum en finnst óþarflega margir dagar þar til þeir fá páskaegg.  NÍU DAGAR, ÚFF , heyrðist úr aftursætinu á leið á sundæfingu í dag.  Annars var ekki hefðbundin æfing, heldur sýning.  Börnin syntu, foreldrar norpuðu á bakkanum og horfðu á og þegar búið var að þvo sér og þurrka þá fengu börnin páskaegg frá sunddeildinni.  Joyful     Einhverjir höfðu á orði að börnin væru óvenju fljót að klæða sig !

Eins og sagði áðan þá líst bræðrum alveg ljómandi vel á að fá páskafrí en urðu eitt spurningamerki þegar ég sagði að hvorki pabbi né mamma fengju páskafrí.  " Hvar eigum við þá að vera, hver á að passa okkur ?" spurðu þeir.  Ætli þið verðið ekki bara einir heima sagði ég.  " Einir heima sagði JA og það kom glampi í augun á honum við tilhugsunina "  nei ég held ekki sagði ég, þið mynduð rífast og slást, rústa húsinu og stelast í tölvuna allan daginn.   Sá stutti þagnaði smá stund en glotti svo og sagði" nei ekki rústa húsinu allavega "   

Ég veit ekki hvort mér átti að vera rórra við tilhugsunina um þá bræður að rífast og slást á milli þess sem þeir væru í tölvuleikjum bara ef húsið væri heilt. Whistling     Eins og staðan er í dag þá er sjaldnast hægt að hafa þá bræður eina í sama herbergi án þess að það komi ekki til einhverra handalögmála. 

pantaði tíma hjá HNE ( háls nef og eyrnalækni ) í dag.  Treysti á að hann hafi lesið kaflann í skólabókinni sinni hvernig eigi að tappa af hori úr heila.

kv  húsmóðirin með hor í heila

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

kona á besta aldri

117 dagar til jóla

Höfundur

Húsmóðir
Húsmóðir

Mál dagsins

Áttu kolagrill ?

Matarblogg

Uppskriftir og hugleiðingar um mat úr ýmsum áttum

  • Matarblogg
    www.mataraedi.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband