Færsluflokkur: Bloggar
3.10.2008 | 23:16
styttist í afmæli bræðra - súludans og snjór.
þegar maður er 6 ára eru alveg ótrúlega langt á milli afmæla - mörg hundruð dagar og alveg hrikalega erfitt og leiðinlegt að bíða eftir þeim. Og það líður alltaf lengra og lengra á milli spurningarinnar " hvað eru margir dagar þangað til ég á afmæli " því það er svo erfitt að sætta sig við svarið.
Á einhverjum tímapunkti kviknar svo vonin aftur - um daginn voru bara 30 dagar í afmælið - svo 29 dagar og nú eru ekki nema 8 dagar þangað til. Bræður eru farnir að telja niður. Næsta laugardag ná bræður því að verða 7 ára.
Þetta á að verða skemmtilegt afmæli og bara strákum boðið. Gestalistinn er ákveðinn en umræða stendur yfir um veitingarnar sem eiga að vera á boðsstólum. Við hljótum að komast að samkomulagi um þær. Engar sérstakar óskir hafa hins vegar komið fram um afmælisgjafir og satt að segja erum við foreldrarnir í hálfgerðum vandræðum með hvað eigi að gefa þeim. Ef þetta flokkast ekki sem lúxusvandamál þá veit ég ekki hvað.
Ekki nóg með að bræður eigi bráðum afmæli - pabbinn á líka bráðum afmæli. Mér heyrist hann ætla að halda veislu - það táknar allavega að ég þarf að þrífa og taka til - bæði fyrir og eftir veislu. Ég held samt að ég þurfi ekki að elda né baka.
Annars eru bræður í glimrandi formi þessa dagana - það er frí í fótboltanum en bræður eru nýfarnir að mæta á fimleikaæfingar og finnst það mjög gaman. Eini gallinn við æfingarnar er sá að þær eru bara tvisvar í viku. Frá kennurum þeirra bræðra heyrist hvorki hósti né stuna og hinar vikulegu samskiptabækur þar sem hegðun og ástundun hverrar viku er útlistuð gefa bræðrum bestu meðmæli. Hvað er að gerast ? Eru þetta örugglega mín börn ? Ætti ég kannski að skoða einu sinni enn hvort það séu ekki örugglega rétt nöfn á bókunum ?
JA lýsti fyrir mér í gærmorgun hvernig súludans er : " þá dansar maður svona upp og niður við súlu sem er föst í gólfinu " og svo sýndi hann mér hvernig. Ég veit að það er danstími í skólanum einu sinni í viku en........................... það er kannski hætt að kenna hliðar saman hliðar og svoleiðis. það er langt síðan ég var í skóla.
Hvít jörð í gær og í dag. Það vakti lukku hjá þeim yngri á heimilinu. Ekki þeim eldri. Annars er það merkilegt hvað það kemur manni alltaf á óvart það það skuli koma vetur. En - það var ekki hálka á leið í vinnunna og ég er ánægð með það. Bræður fara í skólasund á föstudögum - þurfa að labba sjálfir úr skólaseli og það er dágóður spotti. Mamman spanar úr vinnunni til að koma bræðrum nógu snemma í fimleikana þar sem þeir hamast í 40 mínútur. Svo þegar heim kom þurfti að sjálfsögðu að fara út - bæði til hjóla í snjónum og eins til að renna sér í honum.
Eftir kvöldmat fór pabbi að vinna (aukavinnu) en ég og bræður skriðum upp í sófa og allavega einhver okkar fylgdust með Útsvari. Ég vaknaði við símhringingu rétt fyrir hálf tíu - sá svo að annar sonur hafði skriðið upp í rúmið sitt og steinsvaf þar en hinn svaf í sófanum. Ég færði hann yfir í sitt rúm og breiddi um leið yfir hinn. Steinsofandi, skítugir í framan, með óburstaðar tennur í leikfimisfötunum en ekki náttfötunum voru þeir langfallegastir
ég reyni að láta fréttir að efnahagsástandinu ekki hafa áhrif á mig en það gengur mis vel. Það gekk ágætlega í gærkvöldi en þá fór ég á Avon snyrtivörukynningu og eyddi smá pening þar. Svo fór bóndinn í dag og verslaði eina eldavél. Hann sagði að það hefði ekki verið kreppa í Elkó - allavega var fullt út úr dyrum þar.
Annars er ég dálítið stressuð yfir þessu, finn fyrir hækkandi vöruverði og bensínkostnaðurinn vegur þyngra og þyngra. Enda keyri ég rúma 50 km á dag í og úr vinnu. Eiginmaðurinn er ekkert stressaður - það er gott - ég er nógu stressuð fyrir okkur bæði.
Helgin verður að öllum líkindum róleg - Bónusferð, þrif, bakstur, lærdómur og svoleiðis. Bóndinn er búinn að lofa sér í vinnu svo ekki næ ég að setja sóp eða tusku í hendurnar á honum.
Sá að norski bróðir og frú eru að velta fyrir sér að koma til Íslands um jólin - Líst vel á það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.9.2008 | 22:26
Leikhús, sælgæti, kreppa og Ríkisbankinn.
Fjölskyldan fór í leikhús á sunnudaginn. Miðar að sjálfsögðu keyptir á tilboði ( 2 fyrir 1 ) því það er kreppa og hagsýna húsmóðurgenið sem hefur legið í dvala undanfarið er að vakna til lífsins aftur.
Við skemmtum okkur ágætlega , ekki stórkostlega, en ágætlega við að horfa á Skilaboðaskjóðuna . Það er alltaf gaman að fara í leikhús. En ég á skelfilega erfitt með að skilja af hverju það virðist vera skylda að krakkar troði í sig sælgæti meðan á sýningu stendur. Foreldrar stóðu sveittir í röð við að kaupa bland í poka áður en sýning hófst og spariklædd börnin með nammipokana biðu svp spennt eftir að leiksýningin byrjaði. Í hléi streymdu svo sömu foreldrar í nammisöluna aftur til að kaupa eitthvað drykkjarkyns handa börnunum sem þurftu á einhverri vætu í kverkarnar að halda eftir sykurátið. Því var að sjálfsögðu bjargað með dísætum svala eða kóka kóla. Finnst öllum sjálfsagt að selja og borða sælgæti og gos allsstaðar. ? Leikhúsi, bíói, sundlaugum og íþróttamiðstöðum.
Ætla ekki að blogga um Ríkisbankann og Stoðir - það eru nógu margir sem sjá um það. Hef sjaldan verið eins sátt við að eiga EKKI banka. Ég hafði allavega ekki miklu að tapa.
Eiginmaðurinn farinn í veiði - eitthvert lengst inn á fjöll. Þeir eru fjórir saman og ættu að geta yljað hverjum öðrum. Veðurspáin hljómaði ekki skemmtilega fyrir þá sem eru uppi á hálendinu.
Naglasúpa í matinn , linsubaunir og hrísgrjón. Baunir eru hollur og ódýr matur sem mætti gjarnan vera oftar á borðum. Þ.e.a.s fyrir utan aukaverkanirnar sem geta verið bæði hávaðasamar og illa lyktandi.
Bræður voru fljótir að í kvöld, þreyttir eftir daginn. Þeir mættu á fimleikaæfingu nr 2 í dag og finnst rosalega gaman. Svo var veðrið með betra móti þegar æfingin var búin og það þýddi bara eitt - út að hjóla. Bræðrum var sagt að koma heim klukkan hálf sex - átti eftir að lesa og skrifa. Annar sonurinn kom heim rétt fyrir kl hálf sjö - þá var ég farin að bíða með matinn. Við kláruðum að borða og lesa. Rétt fyrir kl hálf átta kom hinn sonur heim - akkúrat í þann mund þegar ég var að fara út að leita að honum. Hann borðaði og borðaði - enda sársvangur að sögn. Lét sig hafa það að lesa nokkrar blaðsíður en var farinn að geyspa allsvakalega undir lokin. Hátta - bursta - og upp í rúm og lesa kvöldsöguna og báðir steinsofnaðir 10 mínútum seinna.
Bræður vita hins vegar að á morgun þarf að læra FYRST og LEIKA svo.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.9.2008 | 18:33
þessir karlmenn !
Fjölskyldan var búin að skipuleggja leikhúsferð í dag. Einnig smá útréttingar sem átti að klára áður en leiksýningin byrjaði. Þess vegna var húsfreyjan búin að slétta á sér hárið ( sem þess vegna virkaði eitthvað síðara en venjulega ) setja á sig andlitsspasl og tilheyrandi fínheit um augun. Til viðbótar skartaði hún mun betri fötum en joggingbuxum og kvennahlaupsbol sem er nánast "standard" klæðnaður húsfreyjunnar um klukkan hálf ellefu á sunnudags morgnu.
Eiginmaðurinn settist niður með kaffibollann, horfði á mig og " þú þarft að fara að komast í klippingu elskan mín "
Pfiff og hnuss
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.9.2008 | 09:30
Ég á erfitt með að hafa stjórn á mér þegar
Sonur minn sem gerði pínulítið - (rétt fingurstórt )gat á buxurnar sínar í dag er búinn að teygja það og rífa og gera það svo stórt að ekki er möguleiki að gera við buxurnar svo vel sé. Sérstaklega í ljósi þess að hann er kannski búinn að fara fjórum sinnum í þessar buxur síðan þær voru keyptar OG þetta er allavega þriðju buxurnar sem hann eyðileggur á þennan hátt - BARA í sumar.
Þegar grænmetisafskurðurinn sem ég er búin að safna í heila viku af því ég ætla að búa til holla og bragðgóða grænmetisúpu er eyðilagður. Sami sonur og eyðilagði buxurnar sínar hafði fyrir því að sækja sykurkar og strá sykri yfir afskurðinn.
Þegar sami sonur óhlýðnast 3 daginn í röð að koma í skólagæsluna strax eftir fótboltaæfingu. Síðasta skiptið þurfti ég að leita að honum í hálftíma áður en ég fann hann.
Anda djúpt - anda inn - anda út. Ég kann þetta svo sem.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.9.2008 | 00:18
Lagði land undir fót
og fór í höfuðborgina gærkvöldi að heimsækja vinkonur. Við reynum að hittast reglulega yfir vetrarmánuðina og fyrsti hittingur vetrarins var í gær. Þó svo við höfum staðfastlega neitað því gegnum árin að við séum eins og annað fólk, þ.e. að við eldumst þá eiginlega urðum við að viðurkenna það í gær.
- Í fyrsta lagi verðum við allar fertugar á næsta ári
- Elsta "barnið" í hópnum er 19 ára
- Sjúkdómar og kvillar sem einu sinni þjökuðu " gamalt fólk" herja nú á eiginmenn og jafnaldra okkar.
- Við erum hættar að sitja fram eftir nóttu og kjafta - einhverra hluta vegna þurfum við meiri svefn en áður.
Bræður eru í glimrandi formi þessa vikuna - SÁ er farinn að mæta á fótboltaæfingar aftur. Bræður hafa ekki látið veðrið aftra sér frá því að mæta á æfingar en það er búið að rigna ansi vel undanfarið. Nú er reyndar fólboltinn kominn í mánaðarfrí en við ætlum að kíkja á æfingu hjá Fimleikadeildinni á morgun og sjá hvort það vekur áhuga bræðra.
Engir tölvupóstar hafa komið frá kennurum þessa vikuna. JA kom svo heim í dag með glimrandi góðan vitnisburð fyrir þessa viku og mamma auðvitað ægilega ánægð með það. Bíð með eftirvæntingu eftir að hinn bróðir fá sinn vitnisburð fyrir vikuna.
Eldavélin okkar er farin að slappast allverulega - loksins komin skýring á hækkandi rafmagnsreikningi. Eiginmaðurinn skoðar gaseldavélar á netinu af miklum áhuga og ber saman verð og gæði. Þylur upp kosti og galla og er nú sennilegast að fá mig til að samþykkja gasið. Ég var ekki mjög spennt fyrir gasinu en áttaði mig svo á því í dag að spenningurinn fyrir nýrri eldavél hlyti að merkja að hann ætlaði sér að elda oftar. Skal samþykkja kolavél eða hlóðir ef það þýðir að ég þarf ekki að elda eins oft.
Ætla að fara að dusta rykið af hagsýninni og sparnaðarráðum - það er nefnilega kreppa sko !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2008 | 09:20
Töfraplástur ?
Sonurinn með dramagenin fékk örlitla rispu á fótinn nú áðan, kom hoppandi á öðrum fæti til að sýna mér "allt" blóðið sem kom ( 4 og 1/2 dropi svo maður sé nákvæmur ) Hin kaldlynda móðir var nú ekki til í að sækja plástur og færa honum heldur lét hann hoppa inn á bað þar sem plásturinn er geymdur. Stráksi gerði það með tárin í augunum.
Svo klippti mamman passlega stóran plástur og setti yfir "allt" blóðið. Þá hljóp strákur fram , á báðum fótum, enda eitthvað skemmtilegt að byrja í sjónvarpinu.
þetta hlýtur því að hafa verið töfraplástur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.9.2008 | 23:18
Höfuðverkur
JA á það til að fá höfuðverk. Þótt það séu heilmikil "dramadrottningargen" í honum þá er ég nú á varðbergi gagnvart þessu, var sjálf örugglega með snert af barnamígreni sem barn þó svo það hafi aldrei verið skoðað.
Eftir heimalestur í dag, sem gekk ekki alveg hnökralaust ( m.a út af höfuðverk ) vildi strákur fara út og leika við einhvern vin. Allt í lagi með það en um hálftíma seinna kemur strákur aftur, frekar stúrinn þar sem enginn gat leikið við. Þar með var lífið bara ekki nógu gott. Enginn til að leika við, bróðir ekki einu sinni heima og svo var hann með höfuðverk í þokkabót.
" Svo er svo vont að vera með höfuðverk í vindi ( það var strekkingsvindur úti ) rokið fer allt inn um eyrun og alveg upp í heila og blæs þar um allt svo ég verð alveg ruglaður og veit ekki neitt " EFtir að mamman hafði nú vorkennt honum dálítið ákváðum við að kveikja á sjónvarpinu og kúrðum saman í sófanum í smá stund. Lífið varð aðeins betra eftir það, allavega kvartaði hann hvorki um höfuðverk né rok í hausnum eftir það.
Þessi sonur hélt sig á mottunni í skólanum í dag
Sama verður nú ekki sagt um hinn
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2008 | 00:33
Bræður eru óþægir
Það streyma inn tölvupóstar frá kennurum um óæskilega hegðun bræðra - og það á fjórðu viku skólaársins hvar endar þetta ? Annar hlýðir ekki, hinn neitar að vinna í skólanum, einn kastar grjóti og þar fram eftir götum. Myndi láta þá labba í skólann á morgun ef ekki væri stormur og ausandi vatnsveður. Hef ekki samvisku í það.
Svo kvarta og kveina bræður hér heima yfir ósanngjörnum og illa innrættum kennurum og starfsfóli skólans sem láta þá hlýða og "leyfa þeim aldrei að gera neitt skemmtilegt " Huh - erfitt líf.
Til að vega óþægðina aðeins upp þá hafa bræður staðið sig vel í lestri ( átak í gangi í skólanum ) og sérstaklega JA tekið framförum. Þeir hafa verið duglegir að lesa heima og gengið vel.
Bræður mínir gera það víðreist, eftir því sem ég get lesið á netinu. Norski bróðir er í Englandi þessa dagana, milli þess sem hann borðar myglaðan morgunmat og vondan USA kjúkling er hann að kynna sér hvað hann þarf að gera og kunna í nýju vinnunni sinni. Hafnfirski bróðir stefndi til Frakklands las ég á Feisbúkk en hvað hann var að gera veit ég ekki - annaðhvort " Bissness eða plesjure " Frétti það vonandi einhvern tíma seinna.
Jarðskjálfti í morgun - ég stóð í eldhúsinu og var að skammta hafragraut á disk þegar Guðrún Gunnars missir út úr sér í morgunútvarpinu " funduð þið einhvern titring " Enginn kannaðist við það nema tæknimaðurinn. 5 Mínútum seinna var fréttayfirlit : snarpur jarðskjálfti varð úpp á 3,6 ár Richter varð á Reykjanesi. Guðrún fann skjálftann í Reykjavík en ég fann hann ekki hjá mér. Sem betur fer kannski, er skíthrædd við svona jarðhræringar.
Tengdapabbi gisti á spítala síðustu nótt en er kominn heim og líður mun betur. Gallsteinum er kennt um en það kemur væntanlega í ljós eftir myndatöku á morgun.
Gleymdi að spyrja norska bróður hvort það séu gólfteppi á salernum í landi Tjallana - geri það kannski á morgun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.9.2008 | 22:24
Úps - I did it again !
Maður hefði nú haldið að eftir 18 stykki myndi konan vita bæði hvernig börnin verða til og líka hvernig þau verða ekki til !
En þetta kallar maður nú frjósemi
![]() |
Nítjánda barnið kom á óvart |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.9.2008 | 00:03
Fótbolti
Sá sonur sem hefur ekki komist á fótboltaæfingar í næstum tvo mánuði í sumar er að verða efnilegur "glápari" - pabbanum er meira að segja farið að þykja nóg um.
Hann kom heim um hádegið hálfsúr - vinur gat ekki leikið þar sem hann var að horfa á Manstester - Liverpúl heima hjá einhverjum strák. " á Stöð 2 plús meira að segja. Strákur ætlaði nú að horfa á leikinn hér heima en það var ekki hægt" ofurnísk" húsmóðirin tímir ekki að borga fyrir það
Það glaðnaði þó yfir stráksa þegar ég sagði honum að hann gæti farið til afa - afi væri örugglega að horfa á leikinn. " get ég farið núna strax ?" var spurt og þegar svarið var játandi sá undir iljarnar á honum og nánast reykspólað af stað á hjólinu.
Strákur kom ekki heim alveg strax eftir leik en það fréttist að hann hefði yfirgefið afahús frekar svekktur - Manstester tapaði Strákur kom svo heim stuttu fyrir 4 og spurði pabba sinn hvort þeir ættu ekki að fara á völlinn Grindavík - Fylkir. pabbi stóð upp og feðgar klæddu sig vel því veðrið var kalt. Heimamenn áttu ekki góðan dag á vellinum og pabbinn vildi yfirgefa leikinn um 20 mínútur fyrir leikslok. " Nei" sagði strákur gallharður - ég vil horfa á allan leikinn. um 15 mín seinna ( 5 mínútum fyrir leikslok ) ýtrekaði pabbinn aftur að að fara - leikurinn væri að verða búinn . " Nei" sagði strákur og sat sem fastast. Hann stóð þó upp þegar flautað var til leiksloka. Tilkynnti mér þegar heim kom að Grindvíkingar hefðu verið öööööömurlegir !
Hinn sonurinn hefur engan áhuga á að horfa á leiki - vill bara sparka boltanum sjálfur en ekki horfa á aðra gera það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
kona á besta aldri
119 dagar til jóla
Mál dagsins
Færsluflokkar
Tenglar
Þetta les ég stundum
vinir og vandamenn
- Norski bróðir
- Sparnaðarráð hinnar hagsýnu húsmóður
- Heiðar
- Bærinn sem ég bý í
- Bærinn sem ég fæddist í
- Hristingsmælingar
- Dr Gunni
Matarblogg úr ýmsum áttum
- Flott og gott Skemmtileg síða sem ég rakst á fyrir tilviljun
- Eva Laufey Kjaran
- Matur sem vinnur gegn krabbameini
- Eldhússögur úr Kleifarseli Svakalega girnilegt
- Síðan hans Axels hjartalæknis
Matarblogg
Uppskriftir og hugleiðingar um mat úr ýmsum áttum
-
Matarblogg
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar