Færsluflokkur: Bloggar

föstudagur í gær

  • Þá fékk ég skyr í hádeginu - venjulegt hrært skyr með rjómablandi.
  • Eldaði saltfisk og kartöflur í kvöldmat
  • fór EKKI í bónus
  • Keypti bensín fyrir 157 kr líterinn Smile
  • fékk tölvupóst frá bókasafninu og borgaði 540 kr í sekt Blush
  • gladdist yfir því a ÚTSVAR væri byrjað aftur á RÚV
  • Sofnaði samt sem áður yfir Útsvari í sjónvarpinu og veit ekki hvort liðið vann.Sleeping

Annars var þetta ósköp venjulegur dagur að öðru leyti - bræður fá ný heimaverkefni með sér heim á föstudögum og um leið fá foreldrar svokallaða samskiptabók þar sem "hrós eða last" vikunnar kemur fram.  Bræður fengu báðir ágætis vitnisburð þessa vikuna sem eru framfarir frá síðustu viku.

Er vel útsofin húsmóðir í dag og vonandi skilar það sér í þrifum, þvotti, tiltekt og bakstri......

Eigið öll góðan dag.


allt og ekkert

 Loksins hef ég smá tíma til að blogga á kristilegum tíma en er þá alveg tóm - það er kannski bara svona gott að vera einn heima að heilastarfsemin næstum lamast.  það gerist ekki oft að ég sé ein heima og ég nýt þess að hafa ró í húsinu og eiga smá tíma með sjálfri mér.

 Bræður eru úti - búnir að læra fyrir morgundaginn og fóru svo í sitthvora áttina.   Þeir hafa gert frekar mikið af því í sumar. - fara ekki saman út og leika við sitthvora félagana.  Veit ekki hvort þetta er einhver sjálfstæðisbarátta eða hvort þetta sé ein mynd samkeppninnar sem hefur verið við lýði hjá þeim síðan þeir fæddust.  Hún birtist í ýmsum myndum - það var lengi sorg yfir því að annar bróðir væri stærri en hinn -  minni bróðir fékk þó uppreisn æru þegar hann fann það út að hann væri með fleiri stafi í nafninu sínu og svo má lengi telja.

Það er nákvæmt bókhald yfir það hver fær að velja kvöldsöguna, hver fær að fara á undan í tölvuna og hver þurfti að fara fyrst í sturtu síðast þegar var farið í sturtu. Pouty  Eins gott að hafa þetta á hreinu.   JA passar samt best upp á mömmu sína og finnst miklu meira en nóg að deila henni með einum bróður og einum pabba.  Fyrir nokkrum árum lýsti hann því yfir að það væri ósanngjarnt að tveir fullorðnir mætti sofa saman í einu rúmi en hann ( og bróðir ) væru litlir og þyrftu að sofa "aleinir" í sínu herbergi.  Ef hann mætti ráða svæfi hann hjá mömmu, bróðir í sínu herbergi og pabbi gæti bara sofið inni í stofu.

Við fórum í fjölskylduferð í sumarbústað um helgina.  Tengdó bauð börnum og barnabörnum í bústað.  Húsbóndinn hóstandi eins og gamall traktor en ganghljóðið lagaðist þó eftir gufubaðsferð og slurk af víski.  Hann var allavega vel gangfær yfir helgina en þó virtist eins og bakslag væri að koma í hann í gærkvöldi. Undecided  Bræður voru alsælir og skemmtu sér hið besta þó svo þeim fullorðnu þætti stundum nóg um hamaganginn.  SÁ datt á "veika" fótinn og ekki laust við að skjálfti færi um foreldrana sem í smá stund sáu fyrir sér að strákur þyrfti aftur í gifs.  Betur fór þó en á horfðist og strákur fór í "sprækur" í skólann í morgun.    

Jæja - friðurinn úti, einn sonur kominn heim og sjálfsagt kominn tími fyrir matreiðslumaskínu heimilisins að taka til starfa

 

 


Einbeittur brotavilji ?

Bræður og fleiri strákar á þessum aldri safna spilum - fótboltaspilum og einhverju sem heitir "júgíó".    Spilin eiga að vera heima þegar bræður fara í skólann en þeim þykja það mjög ósanngjarnar reglur og nota hvert tækifæri til að óhlýðnast þeim.  JA er eiginlega hættur að nenna að standa í þessu - "vopnaleitin" sem grimm móðirin er farin að framkvæma á hverjum morgni á buxna og peysuvösum kemur í veg fyrir að spilin fari með. 

En SÁ gefst ekki upp.  Stundum heppnast þetta og stundum ekki.  Í vikunni var mamman á góðri leið á háa cið  - " flýta sér, drífa sig og við erum orðin of sein " hljómaði um húsið.  Strákur er kominn í utanyfirpeysu og er á leið í skó þegar mamman rekur augun í stórt gat á hælnum á öðrum sokknum.   Strákur er skrýtinn á svipinn og  tregur til að skipta um sokka, segist alveg geta farið svona.   Mamman heldur nú ekki, mætir með nýja sokka og byrjar að klæða stráksa úr götóttum sokkunum.    þá skildi hún tregðu stráksa sem var með spilastokkinn vandlega falinn ofan í sokkunum .

Ég get ekki útskýrt þetta nema á einn hátt - einbeittur brotavilji Halo


er ég asni, gamaldags eða bara tæknifötluð ?

  • Ég veit ekki hver munurinn á Ipod og mp3 spilara er
  • Ég veit ekki hvernig maður sækir tónlist til að setja inn á Ipod
  • ég kann ekki heldur að setja tónlist inn á ipod
  • er hægt að setja sögur og leikrit inn á ipod ? hvar fær maður svoleiðis ?
  • ég kann ekki að sækja hringitón á netið í gsm síma.
  • ég veit ekki hvernig lófatölva lítur út.
  • ég er ekki með myspace síðu ( veit þó að myspace er til ) Blush

Þessi játning er í boði frúar á fertugsaldri

 


skólinn kominn í gang aftur og strákur laus við gifsið.

4 heilir skóladagar á þessu skólaári eru að baki hjá bræðrum.  Fyrsti dagurinn var dálítið spennandi þó svo að það hefði verið erfitt að vakna.  Það tókst nú samt sem áður og bræður mættu galvaskir í nýjum úlpum með skólatöskurnar á bakinu.

hafragrautur er vetrar og skólamorgunmatur.  Við skiptum hafragrautnum út fyrir Serios og " just right" í sumar en nú er hafragrauturinn kominn á matseðilinn aftur.  Grauturinn er góður, hann er hollur og seðjandi.  Samt greinilega ekki nógu seðjandi fyrir matargatið mikla ( SÁ ) sem kom heim með miða á öðrum skóladegi :  " virðist þurfa meira nesti ".   Ég er búin að troða vel í nestisboxið hans síðan.

Strákur er laus við gifsið Grin og mikil hamingja með það.  Fóturinn var reyndar dálítið óþægur fyrst og lét illa að stjórn en þetta er allt að koma.  Strákur hleypur reyndar ekki um ennþá en það verður varla langt í það.  Hann hlakkar allaveg til að mæta í næsta leikfimistíma. 

Það er sem sagt komin rútína á heimilið aftur eftir sumarið og mamman nýtur þess að hafa hljóð og ró á kvöldin þar sem svefn - og fótaferðartími bræðra hefur færst fram um nokkra klukkutíma.  Hins vegar finnur mamman vel fyrir þvi að það þarf að halda vel á spöðunum til þess að dagurinn gangi stórslysalaust fyrir sig.  Hér er dæmi um dag í lífi útivinnadi (hús)móður í úthverfi.

Vakna 6,50 - klæða sjálfa sig og snyrta - setja hafragraut í örbylgjuna - vekja bræður - láta bræður klæða sig - gefa að borða, setja nesti í skólatösku  - taka útiföt til - láta bræður tannbursta sig,  koma sér í úlpur og út í bíl á réttum tíma.  Er yfirleitt búin að stilla am.k einu sinni til friðar, reka nokkrum sinnum á eftir  þeim og fara 1-2 ferðir með töskur og föt út í bíl. 

7,45-755 - keyri bræðrum í skólann og fer svo sjálf í vinnuna.

8,30-15,00 / 15,30  Er í vinnunni - fer beint úr vinnu til að sækja bræður í gæslu.

16,00 - 19,00 - Komum heim - bera töskur, poka og föt inn úr bílnum - ganga frá því - taka 4 nestisbox úr skólatöskum, tæma þau og hreinsa.  Taka úr uppþvottavél, setja í uppþvottavél.  Setja/taka úr þvottavél og /eða ganga frá þvotti.  Ýmislegt "húsmóðurstöff" sem enginn tekur eftir NEMA það sé EKKI gert.  Láta bræður læra - elda mat - leggja á borð.

19,00 - 21,00 Borða og ganga frá í eldhúsi eftir mat - gera nesti fyrir bræður.  ( Það getur nú tekið tíma ef maður ætlar að bjóða upp á þokkalega heilsusamlegt og fjölbreytt nesti )    Hátta bræður , tannbursta þá og koma þeim í rúmið.  Lesa sögu.

21,00 - 22,00 Einhvern tímann á þessu bili tekur aukavinnan við  - oftast í 1-2 tíma.  Þá á eftir að finna föt á bræður og mömmu til að hafa tilbúin fyrir morgundaginn.  Undirbúa hafragrautnn fyrir morgundaginn - setja skálar og skeiðar á borð.

Háttatími milli 24,00 - 01,00

Þarna er ekki talinn með sá tími sem fer í að sinna þeim skiptum sem er kallað "mammmmmmaaaaa" og svo kemur eitthvað erindi þar á eftir.  Í gær þurfti t.d. að raða fótboltamyndum inni í ramma og hengja hann upp á vegg.  Ef bræður fara ekki að leika við vini ( eða vinir koma í heimsókn ) eru það ótal erindi og umræður sem þarf að svara og sinna.

Ef ég væri ofurhúsmóðir myndi ég einnig hafa haft tíma til að stunda líkamsrækt, sinna einhverju áhugamáli, hefði að sjálfsögðu þurrkað ryk og skúrað gólf fyrir utan að þrífa baðherbergi og láta forstofuna líta út eins og forstofu en ekki ruslakompu fyrir skó, reiðhjólahjálma og útiföt.  Nágrannakona eða vinkona hefði komið í heimsókn og hefði að sjálfsögðu fengið heimabakað  heilsubrauð með sérmöluðu kaffinu.  Þegar svefntíminn nálgaðist myndi ég að sjálfsögðu tæla bóndann inn í rúm og við stunda heitt ***líf fram eftir nóttu.

En - þar sem ég er ekki ofurhúsmóðir, heldur bara (hús)móðir í úthverfi, úfin um hárið og í ljótum teygðum bol merktum Byko.  : Elsku eiginmaður, þú sem ert búinn að sofa fyrir framan sjónvarpið síðan klukkan átta í kvöld  - því miður verður ekki dagskrá ofurhúsmóður í kvöld -ég er of þreytt InLove.

 

 


Skóli á morgun

Það kom að því að skólinn byrjaði aftur.  Skólasetning búin og bræður búnir að hitta bæði kennara og bekkjarsystkini aftur.  Smile  Þótt því væri neitað næstum fram á síðasta dag þá kom það nú í ljós að það var dálítið gaman að fara aftur í skólann.

Bræður fá að hafa sömu kennara aftur - en eru báðir komnir í svokallaðar útistofur.  Þeim finnst það bara "kúlt" en mamman er ekki eins ánægð með það.  Verður bara að koma í ljós hvernig gengur.

Tilraunir til að koma bræðrum fyrr í rúmið og fyrr á fætur undanfarið hafa ekki gengið neitt sérlega vel.  SÁ vaknaði þó nógu snemma í morgun til að horfa á handboltann en bróðir hans sá enga ástæðu til að koma  sér á fætur fyrr en í hálfleik.  Hefði eflaust sofið lengur hefði hann fengið frið til þess.

Sæludögunum " aleinir heima " er því formlega lokið - í bili allavega.  Bræður voru afskaplega fámálir um síðustu dagana heima - sögðust ekkert hafa farið í tölvuna, ekkert hafa meira hringt og ekki gert neitt " nema bara dunda sér eitthvað "   Jahá - hljómar ekki traustvekjandi hjá næstum 7 ára orkuboltum sem vita varla hvað það er að "dunda sér "   Foreldrar eru nokkuð vissir um að bræður hafi hvorki stundað fjárhættuspil á netinu né haldið partý heima.  Við bíðum bara eftir að fá næstu síma og kreditkortareikninga til að sjá hvort þar sé einhver " glaðningur"

Fórum í afmæliskaffi til frænda sem er orðinn 12 ára.  Hann ber aldurinn vel, er fallegur eins og frænka sín.  Shocking  

Fótboltamót hjá bræðrum á þriðjudag.  SÁ ætlar lætur sig ekki vanta - vill fá búning eins og hinir þó svo hann sé í gifsi og geti ekki leikið.  Hann er ennþá í liðinu og ætlar að vera á bekknum og hvetja sína menn.  Ekki spillir fyrir að það er pizza í boði að móti loknu.

Á miðvikudaginn er svo stóri dagurinn  -  Gifsið burt.  Strákur telur niður og getur varla beðið.  Við eigum pantaðan tíma hjá bæklunarlækni á miðvikudaginn og vonandi kemur myndatakan vel út.  Strákur er búinn að vera fótlama í 5 vikur og þar af 2 í gifsi.  

Best að koma sér í rúmið - mér veitir ekki af allri minni orku til að koma bræðrum á fætur i fyrramálið. 


Borgarstjórar í sorphirðuna

Ég legg til að framvegis verði sett klausa í ráðningarsamning borgarstjóra þess efnis að ef  ( eða á maður að segja meðan ) hann þiggi biðlaun verði hann að vinna við sorphirðu.  Þannig er hægt að spara 1 til 4 starfsmenn á ári.
mbl.is Ruslakarlar öskureiðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dóminos

Bræður halda áfram að njóta þess að vera einir heima á morgnanna.   Það er smátt og smátt að koma í ljós hvað þeir taka sér fyrir hendur.

" mamma " þegar maður hringir í dóminós númerið þá heyrist " þú hefur náð sambandi við dóminos "  sagði JA glottandi.    " Ekki hjá mér" sagði þá bróðir hans, þá var bara sagt " dóminós er lokað"

Bræður vildu ekki gefa mér upp hvers lags pizzu þeir ætluðu að panta en númerið sögðust þeir hafa séð á " dóminósblaðinu "  ( sem kom með Fréttablaðinu fyrir einhverjum dögum síðan )

JA prófar ýmsar samsetningar á morgnanna, í dag voru það hafrakoddar og serios með rúsínum og slatta af sykri.  Svo fannst honum upplagt að setja eplasafa út á.  Hann fullyrti að  þetta væri gott

Ég efa það.


Nýtt pennaveski

vakti lukku hjá bræðrum en fjölskyldan lagði land undir fót í gær og fór alla leið í Smáralind.   það er dálítið misjafnt álit sem heimilisfólkið hefur á þessari ágætu verslunarmiðstöð.  Bræðrum finnst Ævintýralandið ( staðurinn þar sem maður getur verið í pössun ) skemmtilegast, svo koma dótabúðir og að lokum staðir þar sem er hægt að fá eitthvað að borða.  Búðir eru leiðinlegastar - SÉRSTAKLEGA KONUBÚÐIR og fatabúðir.    En - skólinn nálgast og bræðrum vantaði pennaveski og fleira smálegt fyrir skólann.   Mömmunni - innkaupa og fjármálstjóra heimilisins - hrýs hins vegar hugur við þeim fatnaði sem bræðrum vantar fyrir haust og vetur : úlpur, skó, kuldaskó, snjófatnað og annan vetrarfatnað.    -

En - undrið gerðist, við fundum úlpur á þá bræður og það í annarri búðinni sem við fórum í.  þvílíkur léttir og þvílík sæla þegar heim kom að fara með gömlu ljótu úlpurnar út í ruslatunnu.   Í morgun kom svo ruslabíllinn að tæma ruslið og ruslakallinn vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið rúmlega 7 í morgun þegar ég skælbrosti til hans út um eldhúsgluggann.

Verð að yfirfara klukkur heimilisins í kvöld, tímaskyn fjölskyldunnar er allt að fara úr skorðum.  Bræður fara seinna og seinna að sofa á kvöldin - klukkan var að verða 11 þegar var komin ró á heimilið.  Bræður voru reyndar óvenju rólegir í gærkvöldi - unnu þrekvirki við að taka til í herberginu sínu - fengu að fara í tölvu að þvi loknu og dunduðu sér síðan góða stund við að teikna og lita með nýju litunum úr pennaveskinu sínu.  Þá varð mamman vör við smá áhuga á skólanum, bræðrum hlakkar allavega til að hitta vini sína úr leikskóla sem eru nú að koma í fyrsta bekk, vita í hvaða stofum þeir eiga að vera í og svo er nú líka dálítið gaman að hitta kennarana sína og krakkana aftur.  Verst með allan þennan lærdóm Pouty


að fá sér nýjan pabba, t.d Rónaldó ?

Fótboltaæfingar hafa greinilega vakið upp áhuga á fólbolta og íþróttum yfir höfuð hjá SÁ - "Manstester" er sko besta liðið og "Kristían Rónaldó" besti maðurinn.   Strákur er farinn að fylgjast með fréttum og úrslitum leikja - bæði af enska boltanum og þeim íslenska.

Fyrir stuttu lét hann mig vita af því að hann vildi að Rónaldó væri pabbi sinn.  EN hann þyrfti þá að búa í Grindavík OG tala íslensku.  Fyrir utan að leyfa SÁ að sjá alla leiki "Manstester" og kenna honum fótbolta þá gæti Rónaldó líka spilað með Grindavík og komið þeim ofar í deildinni.

Það hefur hins vegar ekki komist til umræðu hvort umræddur Rónaldó eigi að búa hér á heimilinu eða ekki.  Heldur ekki hvort gamli pabbinn eigi að vera hér áfram eða ekki !

Stráksi heldur áfram að vera duglegur á gifsinu en ofkeyrði sér í fyrradag - nánast grét af verkjum eftir langan dag.  Gærdagurinn var því rólegur og strákur lítið á ferðinni.  Honum líður betur núna og er rokinn út  á hjólinu.

6 dagar í skólasetningu og tilfinningin gagnvart skólanum er sú sama "  oooohhhhh - ég nenni ekki í skólann "  Þeim langar nú samt báðum í nýtt pennaveski.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

kona á besta aldri

119 dagar til jóla

Höfundur

Húsmóðir
Húsmóðir

Mál dagsins

Áttu kolagrill ?

Matarblogg

Uppskriftir og hugleiðingar um mat úr ýmsum áttum

  • Matarblogg
    www.mataraedi.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband