Færsluflokkur: Bloggar

litli (norski) bróðir á afmæli í dag

ótrúlegt en satt þá er krakkadýrið orðið 39 ára gamalt.

Held að hann sé löngu hættur að fela sig inni á klósetti til að losna við uppvaskið ! Eða hvað ?Upplýsingar óskast.

Á ferðalagi5-6 áraFrændur000117 áraBúlandstindur 1993Að prjóna

Svona í minningunni er þetta hans eini galli, að öðru leiti var hann fullkominn. Annars látum við myndirnar tala sínu máli.


Þú veist að barnið þitt er orðið unglingur

þegar það má horfa á frítt efni á "vodinu" eða "leigunni" í sjónvarpinu og það velur þátt af CSI Miami. !


Gyða og Gísli

Tekið á ættarmóti 2008 Spánn júní 08 076

Hinn íslenski veruleiki ?

Feðgar spila "Monopoly" af kappi, byrjuðu í gærkvöldi og héldu áfram eftir kvöldmat í kvöld.  Sá stóri fer mikinn og græðir á tá og fingri.

Synir eru ekki alveg sáttir, kalla hann gráðugan gamlingja og útrásarvíking.  Þeim stóra er alveg sama, er ýmist tekinn fyrir ölvunarakstur eða borgar sektir vegna hraðaksturs og á sinn þátt í að annar sonur er orðinn gjaldþrota og varð að hætt að spila.  Gjaldþrota sonur er samt ekki hættur afskiptum af spilinu því hann var gerður að bankastjóra. 

Það styttist sennilega í því að spilinu ljúki, hinn sonurinn er ýmist  búinn að veðsetja eða selja eignir sínar til að standa gráðuga gamlingjanum skil á okurleigunni. Devil

Grænmetissúpa í matinn og gróft heimabakað brauð í matinn.  Voða gott. 

 


jólablogg

Gleðilega jólahátíð allir saman.

Ég hef verið afskaplega afslöppuð fyrir og um jólin með blogg.  Langaði stundum til að blogga en hreinlega nennti því ekki. Joyful 

Jólaundirbúningur var afslappaður, kannski full afslappaður því síðustu jólagjafir voru keyptar á þorláksmessu og pakkað inn á aðfangadag.  Einnig voru afskaplega fáir sem fengu jólakort.  Þið fenguð öll hugskeyti og hlýjar kveðjur hinsvegar en spurning hvort það komst til skila.

Jólin komu hins vegar í okkar hús þrátt fyrir að ekki væri búið að gera þetta  "allt" fyrir jólin og við höfum átt afslöppuð, hátíðleg og notaleg jól.  

4 dögum fyrir jól héldum við að ísskápurinn okkar væri að gefa upp öndina.  Bóndinn fór í vinnuna vitandi það að nánast engin kæling væri á ísskápnum.  Hringdi í hina og þessa rafmagnskalla í bæjarfélaginu , einn vildi ekki koma því ísskápurinn deyjandi var ekki af réttu merki, annar gat ekki komið en sá þriðji sagðist ætla reyna að koma fyrir hádegið.  Hann er nú ekki kominn blessaður en ísskápurinn var tæmdur, hreinsaður þveginn og afþýddur og stóð gljáandi hreinn og hljóður þegar bóndinn kom heim.  Bóndanum datt í hug að skrúfa sundur klóna á ísskápnum og viti menn - einn laus vír sem þurfti að skrúfa fastan.  Bingo og skápurinn fór að mala eins og ánægður köttur. Happy  Við vorum líka ánægð og það tók ekki langan tíma að raða aftur inn í hreinan og fínan skápinn.  Ég get sagt með góðri samvisku að ég hafi tekið ísskápinn í gegn fyrir jólin.

Bræður eru í sykursjokki eftir nammi og kökuát undanfarna daga.   Eru hins vegar búnir með nammið sem þeir fengu í jólagjöf svo það verða fráhvörf á morgun.  Þeir eru þó aðeins farnir að sofa lengur frameftir en fyrir jól.  Mamman er fljót að gleyma og heldur alltaf að bræður komi til með að sofa lengur þegar jólafrí í skólanum byrjar.  En það er sama sagan á hverju ári  - litla pakkadagatalið og skógjafir jólasveinana ásamt tilhlökkun  og spenningi sér til þess að bræður sofa ekkert of lengi.  Á aðfangadagsmorgun voru bræður klæddir, búnir að skoða húfurnar sem Kertasníkir kom með og setja þær upp - ásamt því að snæða morgunverð og kveikja á sjónvarpinu - klukkan 07.11.  Þá fór ég fram úfin og mygluð með þau skilaboð að gólandi strákar skyldu gjöra svo vel að hafa lágt, aldraðir foreldrarnir hefðu farið seint að sofa og þyrftu meiri svefn. 

 Sá stóri mætir í vinnu í fyrramálið og hlakkar ekkert sérstaklega til.  ( Er bara latur og langar meira til að flatmaga í sófanum í nýjum náttbuxum )  Hann var í fríi á Þorláksmessu en um það leyti sem við vorum að gera okkur klár til að leggja af stað í hafnfirskan möndlugraut var vinnuútkall ( í Hafnarfjörð reyndar )  Sem betur fer tók það ekki langan tíma og bóndinn kom á hárréttum tíma í grautinn.

Möndlugjöfin varð eftir í Hafnarfirðinum.  Bræður hefðu alveg viljað fá hana með sér en vonandi fáum við hana einhvern tímann lánaða.  ( Naked Gunn myndirnar 3 )

Ætla að elda fisk á morgun og grænmeti ( eða súpu ).   - Er komin með kjötsvima að ég held.  Samt hefur át verið í hófi og enginn borðað sér til óbóta.  Er bara farin að hlusta betur á líkamann hvað hann þolir og þolir ekki.  

 


Hvað ætli næturklúbburinn sé miklu eldri en hin nýbakaða móðir ?

" Faðir barnsins er eigandi næturklúbbs sen er miklu eldri en hún "

Smámunasemi eða ekki, útúrsnúningur eða ekki ?

Ég geri fastlega ráð fyrir að þessi setning eigi að fjalla um að hinn nýbakaði faðir sé miklu eldri en móðirin eins og kemur fram seinna í fréttinni.


mbl.is Eignaðist barn með eiganda næturklúbbs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er Nigella ?

Sorg á heimilinu í kvöld.

Feðgarnir þrír voru búnir að koma sér vel fyrir framan sjónvarpið, tilbúnir að dásama (eldamennsku?) Nigellu með tilheyrandi stunum og nautnahljóðum.

En hvað gerðist, Nigella hætt að birtast á sjónvarpsskjánum í bili og einhver "kall" farinn að elda í staðinn. ( Sveinn Kjartansson og nýr þáttur - allt á einn disk )

Sá stóri fór út að moka snjó og bræður ákváðu að fara að sofa, frekar spældirFrown.

 


viðskiptavinur mánaðarins ? varla

Frá því við hjónin fórum að búa höfum við tryggt hjá sama tryggingarfélagi. Ég var búin að vera með viðskipti mín hjá þessu sama tryggingarfélagið áður.

Höfum ætíð og iðulega fengið fína þjónustu þegar við höfum þurft á að halda en fannst krónurnar sem þjónustan kostaði orðnar helst til margar og ákváðum að skipta um tryggingarfélag.  

1. desember 2011 er fyrsti dagurinn okkar hjá nýju tryggingarfélagi. 

3. desember nuddast framhurðin utan í ljósastaur og í morgun 5 des mætti ökumaðurinn seinheppni ( ekki ég Shocking ) með bílinn í tjónaskoðun.

Afar skemmtilegt Crying  Tjónleysisafsláttur er sem sagt afskrifaður.

Bræðrum fannst alveg ástæða til að fara í skó og skoða skemmdirnar þegar bíllinn kom tjónaður heim.  "  þú kannt bara ekkert að keyra " - ekki það sem pabbinn þurfti á að halda,  

Núna erum við með bílaleigubíl, litla sjálfskipta pútu.  Ekki beint það besta í snjónum en stendur samt fyrir sínu. 

Ég bjó til döðlukonfekt um helgina, hellings handavinna við að skera döðlur í sundur, setja rjómaost inní þær, dýfa í brætt súkkulaði og svo ofan í kókos.

Prófaði svo að dýfa apríkósum ofan í súkkulaði - bræðrum fannst það mun betra, sérstaklega þeim sem borðar ekki apríkósur.

Botnlangalausi sonurinn fór í íþróttir í dag, í fyrsta skipti eftir aðgerð.  Fann ekkert til og þóttist sprækur.  Svo á morgun er það bæði taekwondo og fótboltaæfing.  Bara tekið með trompi.

Málsháttaverkefnið hjá hinum syninum gekk mun betur en hjá þeim fyrri. - því miður, mér fannst miklu skemmtilegra þegar það gekk illa. Whistling

" sannleikurinn er.....................betri en lygin "   - reyndar ekki réttur málsháttur en útskýringin á honum var þá komin.

Var uppáhalds mamman í gær, eldaði kakósúpu. 


nýir málshættir

Strákur var að gera verkefni í íslensku - búið að skrifa fyrripart málshátta og hann átti að klára þá.

Hann var nú ekki alveg að nenna þessu en vissi þó að morgunstund gefur gull í mund !  Hina var hann að reyna að klára á sem auðveldastan hátt ( ætlaði sko ekki að fletta þessu upp Shocking )

Sjaldan er góð vísa : ..........betri en engin ?

Árinni kennir :................... ormi að synda ?

mamman hló svo mikið að strákur var orðinn hálf fúll og hefði ekki tekið vel í ef ég hefði farið að skrifa hina "málshættina" niður sem hann kom með.  Hinn sonurinn þóttist ekki vera að hlusta og grúfði sig yfir stærðfræðina en lagði ýmislegt á minnið og gengur örugglega mun betur með málsháttaverkefnið sitt á morgun.

Þar sem ég eldaði ekki nægan kvöldmat fengu feðgar sér ávexti eftir matinn, mandarínur og banana.

" mamma, getur þú keypt svona eins og amma keypti, ekki mandarínur heldur.......... hugsi hugsi hugs.......... já argentínur "

mömmunni tókst að stilla sig en sneri sér að strákunum og spurði " meinar þú klementínur ?"  Já hann meinti það.

Litli frændi ( sem er nú næstum stærri en ég ) lenti í óhappi þegar hann var að renna sér í dag, fékk gat á haus og þurfti að sauma sjö spor.  Ekki gott.    Bræður fóru líka að renna sér , " allt í lagi sagði ég " þegar þeir fóru.  Fattaði klukkutíma seinna að botnlangalausi sonurinn mátti ekkert fara í svona at.  Enda kom það í ljós þegar hann kom heim, hann hafði dottið og var aumur í kringum skurðinn.  Sem betur fer jafnaði það sig fljótlega en hann við ætlum bæði að muna þetta næst.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

kona á besta aldri

31 dagur til jóla

Höfundur

Húsmóðir
Húsmóðir

Mál dagsins

Áttu kolagrill ?

Matarblogg

Uppskriftir og hugleiðingar um mat úr ýmsum áttum

  • Matarblogg
    www.mataraedi.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband