Færsluflokkur: Bloggar

Tvö í kotinu

Við erum bara tvö í kotinu við hjónin og búin að vera í næstum tvo sólarhringa.  Föstudagurinn rann loksins upp en þá áttu bræður pantað flug til afa og ömmu fyrir austan.  Það er spennandi, bæði að fara aleinir í flugvél og ekki síður að fara einir í heimsókn, engir foreldrar með. 

Föstudagurinn rann loksins upp - pabbi vaknar eldsnemma til að vera mættur á réttum tíma í vinnu í Reykjavík og mamma þurfti líka að mæta eldsnemma í Reykjavík í læknastúss.  Því var ákveðið að bræður kæmu, að sjálfsögðu einir, með rútu í Reykjavík.  Það var líka töluvert spennandi.

Um hádegið var læknastússi mömmunar lokið og hún tók á móti bræðrum sem þóttust nú aldeilis veraldarvanir, búnir að fara "aleinir" í rútu og sátu meira að segja aftast CoolCool

Að venju voru bræður svangir.  Því var snarlega bjargað með aðalrétti á KFC og svo eftirrétti á Metro.   -  Við fórum í búðir, skoðuðum tölvuleiki og fleira skemmtilegt - fórum svo í Kringluna þar sem bræðrum tókst að eyða peningunum sínum.

Við ákváðum að fara í fyrra fallinu á flugvöllinn - tékka okkur inn snemma og vera tilbúin.  Það gekk allt eftir NEMA hvað seinkun varð á flugi og í staðinn fyrir að fara í loftið kl 18,00 var klukkan orðin 19,20 þegar bræður voru komnir út í vél. - það var MJÖG erfitt að bíða og lá við að annar sonurinn fengi taugaáfall yfir þessu öllu saman því honum var ýmislegt annað gefið í vöggugjöf en þolinmæði.

Annar sonurinn hringdi í mig í dag - vildi vita hvað ég væri að gera.  Ég sagði honum það.  Hann hafði það afar gott, var nýbúinn að vera í klukkutíma í tölvunni hennar ömmu.  Svo tilkynnti hann mér í óspurðum fréttum að hann hefði ekki farið að sofa í nótt fyrr en klukkan hálf eitt.  Af hverju fór hann svona seint að sofa ?  Já  hann var nefnilega að horfa á bannaða mynd. Shocking  Lúxuslíf að vera hjá afa og ömmu.   Ætli hann eða þeir bræður vilji nokkuð flytja heim aftur !

Frá og með morgundeginum verður bóndinn bara einn í kotinu - bræður verða áfram fyrir austan en húsmóðirin þarf að leggjast inn á spítala.  Í byrjun júnímánaðar kom í ljós að frúin er með æxli í höfðinu og það á að fjarlægja í fyrramálið.  Þetta æxli er að öllum líkindum búið að vera þarna í mörg ár og 99,9% líkur á því að það sé góðkynja.  Það er frekar ofarlega í höfðinu og ekki í heilanum heldur við höfuðkúpuna.  Að sögn læknis er það á  "auðveldum" stað fyrir aðgerð. 

Aðgerðin verður í fyrramálið og að henni lokinni verð ég á gjörgæslu í sólarhring.  Ef allt gengur vel kemst ég svo heim á föstudag.   Ég er þokkalega róleg yfir þessu öllu saman og trúi því, þar til annað kemur í ljós, að þetta fari allt vel.  Kissing

Stefnan er svo tekin á ljótupeysupartí seinna í mánuðinum, mæta ekki allir þangað ?

   

 

 


Tilgangslaust blogg

sem þjónar nákvæmlega sama tilgangi og tilgangslausir "fésbókarstatusar"

En ég bara veeeeerð að deila með ykkur hvað regnbogasilungurinn sem bóndinn veiddi í gær bragðaðist guðdómlega.

Flökuð, flökin lögð á álpappír og penslað yfir með bræddu íslensku smjöri, nýklipptum graslauk úr garðinum, fersku dilli ( sem dafnar vel í eldhúsglugganum ) sítrónupipar og maaldon salti stráð yfir. 

Það gerist ekki betra Smile


að vera ekki á fésbókinni

Ég datt inn á blogg um daginn hjá Íslendingi í Bergen ( ekki Ingþór samt ) sem virðist vera undir pressu um að skrá sig inn í þetta samfélag.  Út frá þessum lestri fór ég að velta þessu fyrir mér með fésbókina.

Ég var og er meðlimur í fésbókarfjölskyldunni  þó svo ég hafi tekið ákvörðum um að pásu og hef ekki skráð mig þar inn síðan í nóvember á síðasta ári.  fyrir mig var þetta orðinn of mikill tímaþjófur og ég ákvað að nota tímann frekar í eitthvað annað en að innbyrða upplýsingar um hvort fólk væri búið að fara út að hlaupa, taka til, drekka bjór eða vera með höfuðverk eftir að hafa drukkið bjór.  Þetta er ekki eitthvað sem skiptir máli og ég hlýt að hafa eitthvað betra við tímann að gera. T.d. að tuða á bloggsíðunni minni.

Eflaust hef ég misst af einhverju, hvort gömul skólasystir sé orðin amma, einhver hafi viljað bjóða mér á lagersölu á gömlum kafbátum eða jafnvel boði í afmæli.  Sumir senda bara rafrænt boðskort.  Ef einhver hefði virkilega viljað bjóða mér í afmælið sitt þá hefði hann haft samband beint þegar rafmagnsboðskortinu á fésbókinni var ekki svarað.  Ég fór allavega í skemmtilegt fertugsafmæli í febrúar Smile  En mér líður vel svona ótengdri og ótrúlegt en satt þá virðist fullt af fólki þrífast ágætlega og lifa mjög góðu lífi án þess að vera innskráður á www.facebook.comWoundering 

Annars hefur þessi samskiptavefur líka marga góða kosti. - Margir eru í samskiptum við fólk þar sem þeir hafa ekki tök á að hafa samskipti við annars.   Undirbúningurinn fyrir stúdentsafmælið mitt fór alfarið í gegn um fésbókina og alveg frábært að fylgjast með þannig.  Yfir 100 manna hópur sem er dreifður út um allan heim gat verið í sambandi, skipst á skoðunum o.s.frav.  og enginn þurfti að missa af upplýsingum sem var miðlað þarna fljótt og vel.

Fésbókin er fín - í hófi.


ótrúlegt en satt

það er pallaveður Wizard

Pallaveður = hægt að sitja úti á palli

 

Æ LOV IT


Rauðir eru bestir......

Sjóarinn síkáti Smile

P030611_14.140001P030611_14.130001


Unglingar - ó já

9 - 10 - 11 ára unglingar eru dálítið fyndnir.  Um daginn kom félagi í heimsókn sem er eldri en unglingarnir á þessu heimili.  Hann var töffari - fannst honum Whistling  Ég sneri mér undan og hló í laumi.  Maður hlær nefnilega ekki að töffurum.

Töffarar herma eftir eldri töffurum og vilja hafa buxurnar á mjöðmunum.  Það gekk erfiðlega hjá þessum töffara - buxurnar hans voru mest á hælunum.  Þennan dag var hann í marglitum boxer nærbuxum.  ( þar áður voru þær hvítar með blárri teygju ) Ég sá þær oftar en ég kærði mig um þegar töffarinn gleymdi að ganga eins og hann væri með stóran bolta milli hnjánna og missti buxurnar niður á hæla.   Hann gafst upp á að spila körfubolta, það gekk frekar illa þar sem önnur hendin var alltaf upptekin við að halda buxunum uppi Blush 

Unglingarnir á þessu heimili eru í fínu formi.  Eyða miklum tíma í að greiða sér,  horfa á þætti eins og One Tree Hill, 90210 og Royal Pains og slást um að lesa fréttablaðið fyrst á morgnanna.  Eru löngu hættir að hlusta á Prumpulagið og Strumpana en kunna flest það sem Steindi, Friðrik Dór, Eminem og Emmsje Gauti senda frá sér.  Svo ekki sé minnst á Akon.  Þó ég sé búin að hlusta á þetta lag í ýmsum tóntegundum síðustu vikurnar þá get ég ekki vanist því að heyra næstum 10 ára unglingana söngla þetta   " I just had sex and it felt so good "

Sjóarinn síkáti handan við hornið og við vorum fyrst í götunni til að skreyta. Wizard


4 bekk lokið

Skólaslit í dag - fjórði bekkur að baki og sumarfrí formlega hafið.

1 mamma + bræður + 1 vinur fórum í Bláa Lónið i dag ( í rigningarsudda og kulda ) til að fagna þeim áfanga.  Ég og næstum 10 ára strákar hafa frekar ólikar hugmyndir um hvernig eigi að eyða tímanum í bláa lóninu

ég :  finna sér extra heitan stað þar sem hægt er að liggja í rólegheitum, slaka á og horfa upp í skýin. 

Næstum 10 ára strákar :  Fara út um ALLT í lóninu, passa sig að fara ekki á of djúpa staði, reyna á upphandleggsvöðvana undir göngubrúnum, fela sig fyrir mömmunni ( sem sér ekki of vel gleraugnalaus ) og láta sem flesta gesti lónsins vita " að hér sé ógisslega mikil leðja " með háum, frekar skrækum öskrum.

En þetta var nú samt gaman og strákar voru sælir og sáttir eftir að hafa snætt grillaða samloku, gos og ís á eftir.  Ekki öfunda ég þá af því að fara svo beint á fótboltaæfingu.

Bræður fengu fínustu einkunnir og góða vitnisburði svo foreldrarnir eru afar stoltir af afkvæmunum.  Afkvæmin eru nokkuð sátt líka.

Styttist í sjóarann síkáta og fjör um helgina.  Bara gaman.


brilljantín eða vaselín ?

Ég hef stundum sagt að bræður séu bráðþroska unglingar.  Kannski hefur það eitthvað með að gera að mér finnst þeir stækka allt of fljótt Blush

En móðir og unglingar fóru í klippingu um daginn.  Nú er ekki lengur hægt að tala um sumarklippingu sem þýðir að hárgreiðslufrænka er hætt að draga fram rafmagnsklippurnar og snoða strákahausana.  Nú skal klippingin vera hipp og kúl með síðan topp, stutt að aftan og ekki klippa of mikið í hliðum.   En þó klippingin sé fín þá haldast hárin nú ekki alveg eins og þau eiga að vera. 

Bræður eru farnir að eyða mun meiri tíma en venjulega fyrir framan spegilinn og geta ekki farið í skólann nema vandlega greiddir.  Skilningslaus móðirin á samt frekar erfitt með að skilja af hverju það þarf að greiða sér svona vandlega þar sem ekki er hægt að halda út úr húsi án þess að setja húfu ofan á hárgreiðsluna GetLost

En það er ekki bara á morgnanna sem bræður greiða sér.  Annar sonurinn var búinn að eyða dágóðum tíma inni á baði einn seinnipart og kemur vel "greiddur" fram.  Eitthvað fannst mér áferðin á toppnum ( sá ekki meira af hárinu þar sem strákur var með derhúfu ) öðruvísi en venjulega og fer að skoða.   í ljós kom að strákur hafði sett vaselín á varirnar á sér og ákveðið að þetta gums væri nú örugglega hentugt í hárið líka.  

Ég bað strák um að gera þetta ekki aftur og frekar spyrja mig ef honum langaði í gel eða eitthvað annað efni í hárið framvegis.  Hann lofaði því.  Ég er handviss um að hann stendur við loforðið.  Eftir fimmta sápuþvottinn um kvöldið ákváðum við að láta það gott heita en það hefði ekki veitt af einni til tveimur þvottum í viðbót.  Eftir nokkra leit fannst túba af hárgeli sem verður til afnota fyrir þá bræður.  Spurning hvort pabbi eigi að leita í gömlum snyrtitöskum og sjá hvort það leynist brilljantín einhvers staðar.  Ekki notar hann neitt í hárið, er hvort eð er að mestu vaxinn upp úr því.

Ég var spurð um daginn hvort ég ætti, eða hefði átt, einhverjar tengdadætur.  Nei ekki veit ég til þess.  Hin móðirin ( einhleyp og líka tviburamóðir sem  á strák og stelpu ) glotti og sagðist vera búin að eiga þrjár !  Sonurinn hringdi í móður sína um daginn og hreykti sér af því að nú væri hann á föstu en ekki hún InLove   Tengdasynir voru hins vegar ekki á dagskrá.

Sá stóri kom heim lurkum laminn í gær og í dag.  Skrokkurinn er löngu búinn að gleyma öllu sem heitir líkamleg áreynsla og kann ekkert á þetta lengur.    Hann er í verklega hlutanum af sveinsprófinu og klárar á morgun. - Svo er útskrift 20 maí.  Þá verður kannski veisla !

Bræður byrja í prófum í næstu viku - próf eru ekki spennandi en það er sumarfríið hins vegar. 

Ég horfði á Júróvision áðan og fékk áfall.  Ísland komst áfram en ekki Noregur ??

 

 


Nýtt netfang

gamla netfangið mitt mun brátt verða óvirkt.

Frá og með núna mun ég nota nýtt netfang :

brefaklemman@gmail.com


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

kona á besta aldri

30 dagar til jóla

Höfundur

Húsmóðir
Húsmóðir

Mál dagsins

Áttu kolagrill ?

Matarblogg

Uppskriftir og hugleiðingar um mat úr ýmsum áttum

  • Matarblogg
    www.mataraedi.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband