20.2.2008 | 00:26
bumban burt
Seinnipartinn í gær , voru bræður komnir út í bíl og á leið á sundæfingu þegar pabbi rennir upp á húsinu á vinnubíl, hann og vinnufélagi snarast út, opna og taka stóreflis kassa út. Bræður teygja fram álkuna og sjá að þetta er einhvers konar æfingatæki.
SÁ " þetta er svona til að æfa sig, maður fær vöðva og allt. Maður gerir svona eins og maður sé að labba og gerir svona með hendurnar á meðan "
JA samsinnir og betrumbætir lýsingar bróður síns aðeins.
Mamma " já, heldur þú að pabbi ætli að fara æfa sig og gera bumbuna sína aðeins minni ?"
Bræðrum fannst það mjög líklegt og eiginlega bara hið besta mál því ekki verður því mótmælt að það er orðið ansi ríflegt til af bumbunni hans pabba. Hlökkuðu bara til að fá að prófa tækið þegar pabbi væri búinn að setja það saman. Í sömu mund og mamman bakkar út úr bílastæðinu heyrist úr aftursætinu " mamma getur þú ekki notað tækið líka " mamma kom sér undan því að svara beint en spurði hvort afkvæminu þyrfti hún á því að halda að minnka sína bumbu ? Já syninum (JA) fannst alveg ástæða til þess ( sem er alveg rétt ) en vildi þó ekki segja beint að mamma sín væri feitabolla heldur vildi meina að ef bumban á mömmu væri minni þá væri meira pláss fyrir hann og bróður til að sitja í fanginu á mömmu.
Eftir 4 daga með hegðunardagbók er SÁ ennþá í góðum málum. Fær broskall fyrir hvern góðan tíma. ( þá er hann hvorki að hlaupa í stofunni né að fara upp í glugga ) Hann var góður með sig í dag og spurði hvort ég væri búin að sjá "broskallabókina" en svo sljákkaði aðeins í honum þegar hann mundi að það var ekki nema 1/2 broskall fyrir einn tímann. Þá hafði sá stutti aðeins gleymt sér og farið upp í glugga
Bræður mæta á fótboltaæfingu á morgun. Ætla að leyfa þeim að prófa og sjá hvernig líkar. þar sem þetta eru bæði inni og útiæfingar á gerfigrasi þá líður væntanlega ekki á löngu þar til bræður fara að setja fram kröfur um fullkominn búnað, takkaskó, gerfigrasskó, innanhússkó og eitthvað meira sem ég kann ekki að nefna. Við sjáum nú til með það, allavega í byrjun. Bræður eru hins vegar alsælir með nýju Liverpúl búningana sína.
Eftir kvöldmat sátu pabbi og mamma aðeins lengur við matarborðið og ræddu landsins gagn og nauðsynjar. SA settist á gólfið og kláraði að lita myndina af "rokkhamstrinum" sem hann náði ekki að klára í skólaselinu. JA átti óskaplega erfitt með að láta bróður sinn í friði og að lokum sauð upp úr þegar hann "Slefaði" á myndina. listamaðurinn varð að sjálfsögðu ægilega sár en skemmdarvargurinn lét sig hverfa undir rúmið sitt þegar hann heyrði að mamma var staðin upp frá borðinu.
Svoleiðis hefur nú ekki áhrif á mömmur sem færa bara húsgögnin ef á þarf að halda. Skemmdarvargurinn var settur á stól í eldhúsinu og honum sagt að þarna myndi hann sitja þar til hann segði mömmu af hverju hann hefði skemmt myndina. Til að gera langa sögu stutta þá liðu um 90 mínútur með fýlu og þrjóskusvip til skiptis sem var svo blandað og útþynnt með væli og vorkunnarstunum þegar leið á, þar til stráksi loksins var reiðubúinn að ræða málið. þetta var ósköp einfalt " honum langaði bara til að stríða bróður sínum "
Okkur var báðum létt, mér og stráksa. Stráksi var orðinn gráhvítur af þreytu og mamman komin með bullandi samviskubit. Pabbinn sem var búinn að koma hinum drengnum í rúmið, hristi bara hausinn þegar sá stutti var kominn í rúmið. " þið eruð bæði jafn þrjósk - sitjandi þarna frammi og hvorugt ykkar ætlar að láta undan "
Sennilega er þetta satt hjá honum, hvort okkar skyldi vinna titilinn þverhaus.is ?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.2.2008 | 09:55
Karlremba !
fyrsta flokks karlremba - segi ekki annað !
![]() |
Bæði móðir og leikkona |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.2.2008 | 22:21
Laugardagur
Barnatími og morgunmatur fyrir framan sjónvarpið
Mamman fær sér kaffi í ró og næði, tekur til í eldhúsinu og svoleiðis, brýtur saman þvott, setur í vél og gerir klárt í sundtöskurnar fyrir sundmót í Hafnarfirði.
Bræður loksins klæddir og loksins komnir út í bíl - brunað í Hafnarfjörðinn
Sundmóti lokið, förum í rúmfatalagerinn ( þar sem bræður týnast ) - förum í Bónus í Hafnarfirði, fáum að fara inn hjá Hafnfirska bróður og nota baðherbergið ( held að bræður hafi ekki pissað útfyrir ) Förum heim. Mikil rigning á leiðinni.
Bræður hafa greinilega týnt góða skapinu á Reykjanesbrautinni því þeir eru afspyrnu úrillir þegar heim er komið. Ég gefst upp á að reyna að lesa fréttablaðið og ákveð að svona fýlupúkar eigi ekkert erindi inni. Klæði bræður og mig í stígvél og við förum út að sulla. Góða skapið finnst í einhverjum polli og skapið mun betra eftir útiveruna. Pabbi kominn heim og byrjaður að elda þegar við komum inn. Undarleg en góð tilfinning að borða máltíð við eigið eldhúsborð sem maður hefur ekki eldað sjálfur. Rauðvín með matnum. - Ís í eftirmat og bræður fá að horfa bæði á Spaugstofu og Laugardagslögin ( fastir liðir eins og venjulega )
Bræður sofnaðir - sjónvarpið hundleiðinlegt - ég í tölvunni og allavega 1/3 eftir af rauðvínsflöskunni.
Fáum gesti á morgun svo ég VERÐ að taka til í fyrramálið. Bad housewife !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2008 | 22:49
fékk uppreisn æru.
Dagurinn byrjaði á því að pabbinn svaf yfir sig og hinir vöknuðu of seint. það þýddi að mamman fór á yfirsnúning strax áður en hún byrjaði að klæða sig og var komin á háa c undir lokin. Ekki bætti úr skák að annar drengurinn missti nánast fullan disk af hafragrautar á gólfið. það heyrðist angistaróp " Liverpúl bolurinn " en sem betur fer slapp bolurinn við grautinn ( fór allt á gólfið ) svo mamman rétti drengnum diskinn sinn, færði hann í annan stól og meðan mamman þurrkaði grautinn upp af gólfinu kláraði hann grautinn af diskinum MÍNUM á meðan
Það hafðist þó að koma drengjunum í skólann ( ekki nema mínútu of seint ) og þá hélt ég af stað til vinnu. Ekki búin að fá dropa af kaffi, úfin og ósnyrt með nauðsynlegustu snyrtigræjur eins og greiðu, andlitskrem og maskara í skrjáfandi þunnum plastpoka.
í vinnuna kom ég , byrjaði á því að fá mér kaffi og loka mig inni á klósetti með skrjáfandi pokann. Nokkrum mínútum seinna var ég bæði viðræðuhæf og útlitslega hæf til að vera á meðal fólks.
Hinn óþægi kom heim með fyrsta vitnisburðinn í "hegðunardagbókinni" í dag. Fyrsti dagurinn kom vel út - broskallar á öllum vígstöðvum. Það hefur samt greinilega verið svolítið erfitt að vera þægur í skólanum í dag því hann var bæði ör og öfugsnúinn þegar hann kom heim.
Seinni partinn var svo komið að foreldraviðtali hjá kennaranum hans JA. Stráksi ætlaði nú ekki að samþykkja að fara enda ekki búinn að gleyma "óþægðarviðtalinu" en mamma ræður og hann varð að láta sig hafa það. Þar var allt eins og blómstrið eina, stráksi búinn að vera stilltur og prúður og verið svona ljómandi duglegur að læra. Þetta var aldeilis plástur á sært stolt mömmunnar
Gerði lítið debet og kredit í kvöld. ætla að klára nestispakkana fyrir morgundaginn. Húsmóðurkveðja
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.2.2008 | 00:26
hvar mistókst mér ?
það eru komnar stórar og djúpar sprungur í ímyndina af fullkominni fjölskyldu og vel uppöldum börnum. Við hjónin vorum í óþekktarforeldraviðtali númer tvö á þessu ári og ekki nema 5 skólavikur búnar Hvar endar þetta ?
SÁ er ekki óþægur, heldur MJÖG óþægur í skólanum þessa dagana og kennarinn hafði áhyggjur af því að eitthvað mikið væri að heima. Það er reyndar ryk í hillum og rusl á eldhúsbekknum, hreinn þvottur í hrúgu á stól í stofunni og skór út um allt í forstofunni. EN það er ekkert nýtt og ætti ekki að orsaka hálfgert brjálæði í skólanum. ( nema ef drengurinn skyldi vera gjörsamlega búinn að fá nóg af því að eiga ekki snyrtilegt heimili ) Nú heldur kennarinn dagbók á hverjum degi yfir hegðun í skólanum og sendir heim daglega. Stráksi vissi alveg upp á sig skömmina og samþykkti dagbókina. Broskall fyrir góða hegðun ( og umbun heima ) en ekkert ef hann stendur sig ekki. Þetta byrjar strax á morgun og spennandi að sjá hvernig gengur.
það kom pakki í dag frá afa og ömmu að austan. Fagurrauðir fótboltabúningar ( Liverpool ) og skærgræn blaðra merkt XB. pabbinn var ekki kátur, hvorki með valið á búningum og alls ekki með áletrunina á blöðrunum. Held samt að hann þori ekkert að segja við tengdamömmu
Snjónum og hálkunni rignir burt jafnt og þétt - gott og gaman að keyra í vinnuna en færðin innanbæjar ekki eins skemmtileg. En það lagast jafnt og þétt.
Sundmót á laugardag, bræður eru ekkert rosalega spenntir. Verða samt glaðir að fá verðlaun ( allir þáttakendur fá verðlaun ) Spurning hvað við gerum svo þegar sundmótið er búið. Pabbi verður að öllum líkindum að vinna.
Varð glöð að fá komment frá kasóléttri frænku í dag. Held alltaf að það séu ekki nema 3 lesendur að blogginu mínu, 4 með Ollumömmu.
einhverra hluta vegna hef ég sönglað stef úr Guttavísum allan seinnipartinn " Óþekkur er ætíð anginn sá........." Kveðja frá þreyttri húsmóður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.2.2008 | 22:18
Drama dauðans, á að hringja á lækni ?
Annar sonurinn getur ekki sofnað. Hann liggur í rúminu sínu, bróðirinn sofnaður og honum leiðist. Eins og 6 ára stráka er siður þá kallar hann í mömmu. Svo vel þekkir hann mömmu sína að hann veit að það þarf góða ástæðu svo hún komi inn þegar hann kallar. Góð ástæða getur verið verkur eða eitthvað "læknisfræðilegt"
Nú er honum bæði illt í hnénu og í rassinum. Það er eins og það séu litlar verur, mögulega geimverur, inni í rassinum sem séu að éta eitthvað þar inni. Svo er líka mögulegt að þær séu í hnénu og séu að naga sig upp í rasskinnina. Þegar mamman sagðist efast um að svo væri þá þagnaði hann smástund og spurði svo " hvað er að efast ?"
Eftir útskýringu á því þá hélt hann helst að blóðið í sér milli hnésins og rasskinnarinnar væri stíflað.
Eftir smá spjall um tónmennta tímana í skólanum bauðst ég til að rétta honum nokkrar disney bækur til að skoða. Hann þáði það og nú heyrist ekki múkk úr barnaherberginu. Spurning hvort hann sofnar eða geimverurnar inni í honum fari aftur á stjá ?
kannski er ég vond mamma en ég ætla ekki að hringja á lækni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.2.2008 | 09:40
Sælan stóð ekki lengi
Þá er ég að meina sæluna yfir því að eiga tvö þæg börn í skólan. Hinn sonurinn ( SÁ ) var sendur til deildarstjórans á fimmtudag
Deildarstjórinn er hæstráðandi á yngsta stigi grunnskólans og það er næstum eins og að vera sendur til skólastjórans að vera sendur þangað. Ekki nóg með það heldur býr ágæta kona í húsinu við hliðina á mér. Núna skil ég augnráðið sem ég fékk frá henni, fullt af vorkunn en um leið " meiri óþekktargrísirnir sem þú átt " tilfinning í því líka.
Það eru foreldraviðtöl í næstu viku og spurning hvort kennarinn hans SÁ útdeili okkur tvöföldum tíma.
Annars hefur veðrið tekið sinn toll þessa vikuna og sérstaklega núna um helgina. á fimmtudaginn var ég rúmar 50 mínútur í vinnuna í staðinn fyrir 25 mínútur sem er mjög algengt. leiðinda bylur og hálka sem gerði það að verkum að hraðinn fór sjaldan hærra en 20. Svo þegar ég loksins komst í vinnuna þá var bílastæðið ófært. ég stalst til að leggja á bílastæði verslunar í nágrenninu þar sem var greinilega nýbúið að ryðgja. Vinnudagurinn leið og beið, þó nokkrir festu sig á bílastæðinu og útvarpið kom sífellt með nýjar hrakfararsögur og viðvaranir vegna veðurs. Svo kom að því að halda skyldi heim á leið. Ég veð snjóinn upp fyrir hné í áttina að bílnum mínum og kemst að raun um að hann er rafmagnslaus. kannski ekki skrítið þar sem ég hef gleymt ljósunum á . Stór og stæðilegur maður á ennþá stærri og stæðilegri jeppa gefur mér start. ( ég var þó með startkapla í bílnum ) Ekkert gerist. Ég fæ vinnuveitandann ( sem var nýsloppinn út úr skafli ) til að koma líka og gefa mér start. Bíllinn er jafnlíflaus og fyrr. Þá geri ég það sem giftar konur gera, hringi í eiginmanninn
Nýkrýndi jeppaeigandinn í fjölskyldunni er æstur í að fara á rúntinn svo hann ekur eiginmanninum til fundar við frúna og jeppann sem neitar að fara í gang. Eftir að búið er að sækja eitt lítið öryggi er bíllinn orðinn ferðafær aftur og við höldum heim á leið. Ekki var hraðinn mikill, kominn blindbylur og læti svo maður var mest hræddur við að fá bíl aftan á sig. Flestir bílarnir voru farnir að keyra með neyðarljósin á , bara til að gera sig sýnilegri í bylnum.
En allt hafðist þetta og við komumst heil heim. Óþægðarskrímslin sem voru stillt og róleg að horft á teiknimynindir hjá ömmu voru ekkert ánægð að sjá okkur. Langaði eflaust að horfa lengur.
Föstudagurinn fór vel af stað og ég mætt á réttum tíma í vinnuna, ég lagði hins vegar snemma af stað heim eða um hádegi. Sá ekki tilganginn í því að bíða eftir óveðrinu og gat alveg klárað vinnuna við eldhúsborðið heima.
Á laugardegi voru veðurguðirnir í smá pásu og eiginmaðurinn átti erindi í Reykjavíkina. EFtir að bræður voru búnir að horfa á barnatímann var kominn tími fyrir heimavinnuna. Að henni lokinni fengur bræður að fara í hús og leika við vin sinn. Mamman réðst til atlögu við óhreint hús og óhreinan þvott og skúraði og skrúbbaði og braut saman fjall af þvotti. ( Ekki mjög spennandi en svona er húsmóðurlífið oft. )
Í dag er svo fjölskylduveisla í næsta bæjarfélagi, ég væri alveg til í að eiga flugvél til að sleppa við að ferðast í hálkunni. En ég á ekki flugvél svo það er bara að vona það besta.
kv húsmóðirin sem á nýskúrað hús
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2008 | 00:09
5 barna faðir ?
Ef karlinum tekst þetta þá á hann 5 börn á aldrinum 0-56 ára. Frekar spes.
![]() |
Reyna að geta barn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.2.2008 | 00:10
Sumt er undarlegra en annað.
Ég átti erindi í Smáralindina í dag eins og 43,86% þjóðarinnar. Síðasti búðarhlaupshringurinn var í gegn um matvörudeildina í Hagkaup og meðal annars í mjólkurkælinn. Ég veit ekki enn hvort gleraugun mín voru svona óhrein, ég komin með ofskynjanir eða óráð eftir of langa dvöl þarna innandyra en ég get svarið það að ég sá skilti :
Nýtt í Hagkaup - Coca cola með vítamínum og andoxunarefnum.
Jibbí, nú get ég loksins réttlætt það fyrir mér að kók sé hollt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.2.2008 | 10:08
óþægðin vonandi úr sögunni
Húsmóðirin hefur verið önnum kafin við vinnu undanfarin kvöld og því lítill tími gefist fyrir blogg. Svo kemur helgi og þá vinnur húsmóðirin upp svefninn sem verður oft útundan virka daga þannig að það er heldur ekki tími fyrir blogg. En nú gefst gefst smá tími.
Í heimi húsmóðurinnar er hins vegar hálfgerð gúrkutíð. Lítið um stórviðburði heldur gengur bara hversdagslífið sinn vanagang, að mestu leyti. Foreldrar eru búnir að mæta á "óþægðarfund" í skólanum með bæði óþægum syni og kennarar. Stráksi ( JA )var vel skömmustulegur og fannst þetta ekki mjög þægileg samkoma og var fljótur að láta sig hverfa að henni lokinni. Samkvæmt kennara hefur hann verið eins og ljós síðan.
Hinn sonurinn (SA) tók hins vegar upp á því að mæta eins og Emma öfugsnúna í skólann þannig að kennarinn sá sig tilneyddan að senda tölvupósta, bréf og endaði á því að hringja í mig líka ( hvar mistókst mér eiginlega í uppeldinu ?) Við vorum orðnar nokkuð vissar á því að umræðan og athyglin sem hinn óþægi bróðir hans var búinn að fá vegna óþægðar væri orsökin. Þannig að mamman sneri beindi meiri athygli að Emmu Öfugsnúnu og það virkaði
Það er betri tilfinning að eiga tvö þæg börn í skólanum heldur en tvö óþæg.
Bræður eiga að skrifa stafinn Ú og ú heima þessa vikuna og einnig að halda áfram með söguna sem byrjað var á fyrir hálfum mánuði. Það er gaman að búa til sögur en erfitt að skrifa þær. Við klárum þær samt vonandi í dag.
Það er kalt þessa dagana en við mæðgin létum okkur nú hafa það að fara út á sleða að renna í gær. Ætluðum að bjóða einum vini með en hann var á flakki með mömmu sinni. Eftir góðan klukkutíma voru allir búnir að fá nóg og bræðrum leist ljómandi vel á að fara heim og fá heitt kakó. Eftir heitt kakó og kanilsnúða voru allir hálf dasaðir og ákveðið var að hlusta á "Pétur og Úlfurinn" Ein mamma og tveir strákar í einum hægindastól undir teppi að hlusta á Pétur og co breyttist svo einhvern tímann í " eina sofandi mömmu, einn sofandi strák og einn vakandi , í einum stól og bara einn sem náði að hlusta á allan diskinn " Ljúft.
Pabbinn lagðist í flensu þrjá daga í vikunni. Fleiri forföll voru hjá vinnufélögum svo þeir unnu allan gærdaginn og eitthvað í dag líka. Ef vinnudagurinn hjá honum verður stuttur þá förum við jafnvel í höfuðborgina á eftir. Kemur í ljós.
Ég ætla að sleppa takinu á aðhaldsseminni í dag og kaupa tilbúnar bollur í einhverju bakaríi. Bónusbollurnar í fyrra voru nefnilega langt því frá að vera góðar. Ég hlýt að geta slakað á hagsýnu klónni í smá stund, það má alveg kaupa bollur fyrir barnabæturnar.
Eigið góðan dag í dag. kv húsmóðirin
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
kona á besta aldri
117 dagar til jóla
Mál dagsins
Færsluflokkar
Tenglar
Þetta les ég stundum
vinir og vandamenn
- Norski bróðir
- Sparnaðarráð hinnar hagsýnu húsmóður
- Heiðar
- Bærinn sem ég bý í
- Bærinn sem ég fæddist í
- Hristingsmælingar
- Dr Gunni
Matarblogg úr ýmsum áttum
- Flott og gott Skemmtileg síða sem ég rakst á fyrir tilviljun
- Eva Laufey Kjaran
- Matur sem vinnur gegn krabbameini
- Eldhússögur úr Kleifarseli Svakalega girnilegt
- Síðan hans Axels hjartalæknis
Matarblogg
Uppskriftir og hugleiðingar um mat úr ýmsum áttum
-
Matarblogg
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (29.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar